Nú er aftur væntanlegur til landsins hvimleiður sumargestur, bandaríski flugherinn. Alveg síðan herinn fór úr landi hefur flugherjum Nató og Norðurlandanna verið boðið að æfa sig hér undir því yfirskyni að verið sé að gæta loftrýmis Íslands. Nú um mánaðarmótin koma 15 Bandarískar orrustuþotur og 300 hermenn í þeim tilgangi, 100 betur en í fyrra.
Það er hinsvegar alls óljóst gegn hvaða ógn flugæfingar í nokkra daga á ári eiga að verja landið fyrir. Þegar talsmenn stjórnvalda er krafðir svara þá er talað um mikilvægi sýnilegra varna en minna um gegn hverju. Það að varnirnar séu sýnilegar virðist helst þjóna því hlutverki að íslensk stjórnvöld og Nató sannfæri sig og hvort annað um að þetta herlausa land sé þrátt fyrir allt í hernaðarbandalagi, að við leggjum eitthvað af mörkum og fáum einhverja vernd í staðinn.
Íslenskir skattborgarar leggja vissulega sitt af mörkum með því að borga fyrir ónæðið sem hlýst af því að erlendir flugherir fái að æfa sig hér, eitthvað sem er erfitt að koma við yfir þéttbýlum svæðum heima fyrir. Íbúar Egilstaða og Akureyrar munu verða fyrir miklum ama vegna aðflugsæfinga orrustuþota og lágflug þeirra meðfram ströndum skaðar fuglalíf og skapar slysahættu. Viðveru þeirra á öryggisvæðinu á Keflavíkurflugvelli er svo hægt að nota sem réttlætingu fyrir viðhaldi og endurbótum á hernaðarmannvirkjum þar, sem opnar möguleikann á að aftur verði komið á varanlegri hersetu hér á landi.
Nató er í mikilli kreppu núna þar sem Donald Trump, forseti langmikilvægasta bandalagsríkisins, gefur lítið fyrir það og virðist ekki sérlega áfram um að uppfylla þær gagnkvæmu varnarskuldbindingar sem bandalagið er að nafninu til stofnað utan um. Ætli það valdi ekki framámönnum um Nató-aðild hér á landi líka áhyggjum að Ísland sé eina herlausa ríkið í bandalagi sem hann krefur um sífellt hærri hernaðarútgjöld.
Táknrænn gjörningur eins og loftrýmisgæsla hjálpar kannski til við að viðhalda þeirri blekkingu að allt gangi sinn vanagang en krísa bandalagsins ætti að undirstrika það að hernaðarbrölt Bandaríkjanna hér á landi er alltaf á þeirra forsendum. Fyrst að Bandaríkin hafa ekki lengur áhuga á að púkka upp á Nató þá er ansi hæpið að varnarsamningurinn víð Ísland hafi neina þýðingu. Öfl innan Bandaríkjahers vilja kannski halda í horfinu og flugherinn fær hér tækifæri til að æfa sig með kostnaðarþáttöku Íslands en það veitir okkur enga vernd. Nató-aðild myndi einungis mála á okkur skotmark gagnvart hvaða ógn svo sem loftrýmisgæsla ætti að vernda okkur fyrir og Bandaríkin munu hvort sem er fara sínu fram burtséð frá hagsmunum Íslendinga ef spennan á Norður-Atlantshafi magnast.
Hættum að eyða peningum í flugæfingar erlendra herja sem þjóna einungis því hlutverki að réttlæta veru okkar í árásargjörnu hernaðarbandalagi. Afstaða Bandaríkjaforseta afhjúpar hversu máttlítil rökin um sameiginlega vernd og vestræna samvinnu eru. Nýtum tækifærið, segjum okkur úr Nató og riftum varnarsamningnum.
Athugasemdir