Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Pírata harðlega fyrir að hafa ákveðið að sniðganga hátíðarfundinn á þingvöllum í dag vegna ræðuhalda Piu Kjærsgaard, þingforseta Dana sem er þekkt fyrir útlendingaandúð og boðun harðrar innflytjendastefnu.
„Það er til fólk sem slær reglulega um sig með því að leggja áherslu á lýðræðið. Vilja fólksins. Frelsi hins almenna kjósanda til að koma skoðunum sínum að. Í því samhengi er reglulega rætt um rétt minnihlutans til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif. Í flestum ríkjum er þetta tryggt með almennum, frjálsum kosningum og byggt á fulltrúalýðræði,“ skrifar Bjarni á Facebook.

„Það er hins vegar svo að þegar á reynir er eins og þetta sama fólk eigi erfiðast með að virða niðurstöðu þeirra leikreglna sem best tryggja lýðræðislega niðurstöðu. Það hikar ekki við að segja tiltekna rétt kjörna einstaklinga óalandi og óferjandi, jafnvel með öllu óvelkomna og óhæfa til samskipta. Þegar Alþingi Íslendinga býður forseta danska þjóðþingsins til að vera viðstaddur hátíðarhöld vegna sögulegra tímamóta finnst þessu fólki þannig við hæfi að útiloka viðkomandi einstakling, kosinn í frjálsum almennum kosningum. Ég deili ekki skoðunum viðkomandi stjórnmálamanns á ýmsum hlutum og hef skilning á því að fólk hafi skoðun á og sé ósammála áherslum hans. En það er óskylt lýðræðinu að virða ekki embætti danska þingsins. Það er yfirlæti og beinlínis dónaskapur gagnvart danska þjóðþinginu og dönsku þjóðinni. Það er mitt viðhorf.“
Ásmundur Friðriksson, samflokksmaður Bjarna, tjáði sig einnig um ákvörðun Pírata í dag. „Pírata sýna lítilsvirðingu sína á lýðræðinu og skoðunum fólks en mest er skömm þeirra við þjóðina að mæta ekki á þingfund á Þingvöllum á merkum tímamótum í sögu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga,“ skrifar Ásmundur.
Athugasemdir