Katrín Jakobsdóttir var rödd skynseminnar á NATÓ-fundi, þar sem leiðtogar Evrópuþjóða og framkvæmdastjóri varnarbandalagsins kepptust við að bregðast við lygum og dólgslátum Bandaríkjaforseta með meðvirkni að vopni.
Haft var eftir diplómata innan NATÓ að allar fjölskyldur deildu, en að þær væru samt fjölskyldur. Hvernig fjölskyldur eru það þó sem umbera og ýta undir hneigðir fjölskylduföðurins til að niðurlægja og ljúga upp á aðra við borðið?
Meira að segja Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATÓ, brást við sérstökum skammarfundi Donalds Trump með því að þakka honum enn einu sinni fyrir „forystu“ hans, jafnvel eftir að Trump lýsti því yfir að Þýskaland væri „fangi“ Rússlands í „vanskilum“ við Bandaríkin. „It’s also because of your leadership, because of your clear message,“ sagði Stoltenberg, útskýrandi að þjóðir væru nú að leggja stækkandi hluta landsframleiðslu sinnar í hernaðarmál.
Bandaríkin kjósa að verja 3,6 prósentum af landsframleiðslu sinni til hernaðarmála og reynir forseti landsins núna að neyða bandalagsríki sín til þess að auka hernaðarútgjöld sín, með kröfum um að þau „endurgreiði“ Bandaríkjunum, leggi öll strax 2 prósent landsframleiðslu sinnar í hernaðarviðbúnað, sem breyttist síðan í 4 prósent af landsframleiðslu.
Í fyrra sagðist Bjarni Benediktsson á ársfundi NATÓ hafa „komið því áleiðis að Íslendingar taki vel í áskorun Bandaríkjaforseta“. Við jukum útgjöld til varnarmála um 342 milljónir króna í fyrra, en leggjum aðeins 0,075 prósent landsframleiðslu til varnarmála, langt frá kröfunni um 2 prósent. Til þess að fullnægja kröfu Trumps þyrftum við að leggja tæplega 50 milljarða króna til viðbótar af skattfé í varnarmál.
En hvert erum við komin þegar það er yfirlýst markmið að stórauka áherslu á hernaðarviðbúnað, á kostnað annars?
Anti-Trump
Katrín Jakobsdóttir hefur meðal annars verið kölluð „The Anti-Trump“ af USA Today, sem femínisti, friðarsinni og náttúruverndarsinni.
Á ársfundi NATÓ mælti Katrín fyrir því að helstu ógnir orsakist af öðru en skorti á hernaðarviðbúnaði. Og besta viðbragðið til að hindra stríð, sem ætti að vera markmið allra, sé að byggja á forvörnum gegn stríðum, á því að viðhalda friði frekar en aðeins vígbúnaði. „Persónulega tel ég þetta vera sýnina til framtíðar. Ég held að við þurfum að horfa á öryggi í sögulegu samhengi. Ég held að við þurfum að fyrirbyggja átök, ekki bara stíga inn í þegar átök hafa átt sér stað.“ Katrín benti á sjálfbærnismarkmið Sameinuðu þjóðanna, og að við ættum að „hugsa um jöfnuð, hugsa um friðsælar stofnanir, um alþjóðalög og reglu, umhverfið og kynjajafnrétti“, enda sé þetta allt öryggismál.
Víxlverkun vígbúnaðar
Ógnin af stríðum er á endanum ógn af atferli manneskja. Vígbúnaðarvöxtur veldur víxlverkun. Undanfarið hefur heimsmynd Bandaríkjanna orðið ráðandi að mikilvægast sé að auka vígbúnað í heiminum sem hraðast. Áhersla á vígbúnað fylgir gamaldags macho-gildismati, líkt og áherslan á „sterka leiðtogann“.
Samkvæmt viðamikilli rannsókn í 38 löndum sem birt var í fyrra vildi fjórðungur íbúa í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ungverjalandi og Ísrael að ríkinu væri stjórnað af sterkum leiðtoga sem væri ekki takmarkaður af þingi eða dómstólum, með öðrum orðum einræðisherra.
Stuðningur við andlýðræðislegt stjórnarform er verulega breytilegur eftir löndum. Aðeins 7 prósent Rússa styðja eindregið lýðræði. Í tíu Evrópuríkjum voru að miðgildi 37% íbúa skuldbundnir stuðningi við lýðræði. 42 prósent voru minna skuldbundin og 10 prósent vilja ólýðræðislegt stjórnarform. Þar sem einræðið læðist almennt aftan að þjóðum í skrefum, yfirleitt með vilja stórs hluta almennings, er svigrúm fyrir innleiðingu þess verulegt.
Menntun hefur mest áhrif á stuðning við andlýðræði. 24 prósent lítið menntaðra í Bandaríkjunum telja að herstjórn væri farsæl fyrir land sitt, en aðeins 7 prósent þeirra sem eru meira menntaðir.
Þriðjungur stuðningsmanna Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum vildu sterkan leiðtoga sem færi með völd sín ótakmarkaður af þingi og öðrum greinum ríkisvalds.
Rannsóknir hafa líka sýnt að ungt fólk leggur minni áherslu á lýðræði í dag en áður. Og ef við sammælumst um að áhersla á fasisma eða einræði séu ógnir við frið, er menntun líka eitt helsta öryggismálið.
Þess vegna er trú almennings á lýðræðið stærsta efnahagsmálið til lengri tíma. Ef við föllumst á það er um leið sorglegt og skaðlegt að íslenskir stjórnmálamenn hafa grafið undan trú á lýðræðið með aðgerðum sínum á undanförnum árum. Og flokkur forsætisráðherra er ekki saklaus þar af. Vinstri grænir um aðild að Evrópusambandinu, án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að formaður flokksins hafði lofað því eindregið fyrir kosningar að flokkurinn myndi ekki gera það. Þótt þjóðaratkvæðagreiðsla hefði verið haldin um niðurstöðu samninganna breytir það ekki því að þannig var loforð til almennings svikið og vegurinn varðaður með fordæmum fyrir réttlætingar á frekari loforðasvikum. Nú stendur ríkisstjórn Katrínar fyrir takmarkaðri endurskoðun stjórnarskrárinnar af hálfu stjórnmálamanna, tæpum sex árum eftir að almenningur samþykkti lýðræðislega unna stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Gildismat þjóða breytist smám saman. Breytingin getur komið að neðan, eða að ofan. Við höfum í dag upplifað stökkbreytingu í viðmiðum efst í valdapíramída heimsins.
Tímarnir eru breyttir
Síðasta mannsaldurinn hafa vestræn ríki viðhaldið sterkri samvinnu á grundvelli gildismats og hugmyndafræði lýðræðis. Þetta hefur nú breyst.
Trump vingast markvisst við einræðisherra, grefur undan lýðræðislegum innviðum heima við og ýtir af stað vígbúnaðarkapphlaupi og deilum á alþjóðavísu. Hann hrósar Duterte í Filippseyjum fyrir fjöldamorð á fíklum, lýsir helsta einræðisherra heims, Kim Jong-un, sem „sterkum leiðtoga“ og nýi besti vinur hans virðist ætla að verða Vladimir Putin. Þeir hittast í næstu viku.
Og þarna stóð Katrín, við hlið Receps Erdogans, forseta Tyrklands, sem með hjálp þjóðar sinnar er að breyta sér í einræðisherra.
Trump beitir þeim almannatengslaaðferðum hryðjuverkamanna, að koma sér ítrekað í fréttirnar með því að valda meðvitað sem mestum glundroða, óvissu og stundum ótta.
Tími skynseminnar er hugsanlega þegar liðinn. Við vitum nú þegar að staða sannleikans í heiminum hefur versnað til muna. Trump hélt því til dæmis fram á morgunverðarfundinum í Brussel að Þjóðverjar keyptu 60 til 70 prósent af orku sinni af Rússum, en hið rétta var að helmingur jarðgass sem Þjóðverjar kaupa koma frá Rússum, en jarðgas er aðeins 20 prósent af orkunotkun Þjóðverja.
Þjóðverjar eru ekki meira undir hælnum á Rússum en svo að Angela Merkel hefur tekið mun harðari afstöðu gegn Rússum vegna innlimunar Rússa á Krímskaga heldur en Donald Trump.
„Putin will be fine,“ sagði Trump, fyrir fundinn með bandalagsþjóðunum sem hann varaði við að yrðu erfiðar.
Við erum ekki herþjóð
Í breytingum á alþjóðavísu getur Ísland haft hlutverk. Við erum hins vegar ekki hernaðarþjóð. Við sendum okkar hermenn til Íraks, sem komust í heimsfréttirnar þegar þeir fundu sinnepsgas, sem var síðan ekki sinnepsgas.
Við sendum friðargæsluliða til Afganistan, sem urðu fyrir sprengjuárás þegar einn íslensku yfirmannanna krafðist þess að fara í teppabúð á varasamri götu, í verslunarferð.
Það næsta sem við höfum komist hernaðarhyggju undanfarið eru vígaleg víkingaplaköt KSÍ af íslenska knattspyrnulandsliðinu fyrir ferðina til Moskvu í sumar.
Eitt helsta stolt okkar, og það sem gerir okkur að fyrirmyndarríki í augum margra, er herleysið. En stefna Vg í varnarmálum, að standa utan hernaðar- og varnarbandalaga, er ekki varnarstefna, heldur skortur á varnarstefnu. Í heimi þar sem menn eins og Donald Trump geta komist til valda vegna vanþekkingar og vantrúar fólks á lýðræðið, og stýrir öflugasta her veraldarsögunnar, verðum við að standa með öðrum sem verja heilbrigt gildismat. Lítill en nauðsynlegur liður í því var ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Guðna Th. Jóhannessonar að sneiða hjá því að mæta á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi.
Tækifærin verða mörg. Íslendingar náðu að stíga stórt skref í því að tryggja öryggi íbúa í Eystrasaltsríkjunum með afgerandi stuðningi gegn hernaðaríhlutun Sovétmanna árið 1991. Aðstæður eru öðruvísi núna. Nú er það stóra bandalagsþjóðin okkar sem við þurfum að hafa einna mestar áhyggjur af. Trump er að breyta virkni alþjóðasamstarfs yfir í virkni hreinna valda óháð réttu og röngu. Einhver þarf að rjúfa meðvirknina og standa uppi í hárinu á honum með orðum, áður en leikreglurnar breytast og völdin ein tala.
Athugasemdir