Kristján Þór Júlíusson braut lög og brást hlutverki sínu sem veitingarvaldshafi í ráðherratíð sinni sem mennta- og menningarmálaráðherra þegar hann setti Sæmund Sveinsson tímabundið í embætti rektors Landbúnaðarháskóla Íslands án auglýsingar.
Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis í nýlegu áliti en Stundin fjallaði um ráðninguna í fyrra og greindi frá pólitískum afskiptum af valinu á rektor, meðal annars um aðkomu þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Ráðherra setti Sæmund Sveinsson tímabundið í stöðu rektors þann 1. október 2017. Áður hafði starfið verið auglýst og þrír umsækjendur verið metnir hæfir af valnefnd sem tilnefnd var af háskólaráði skólans. Aðeins einn var talinn búa yfir nægri stjórnunarreynslu en honum reyndist ófært að koma til starfa innan viðunandi tímamarka.
Háskólaráð Landbúnaðarháskólans brást við þessu með því að útbúa lista yfir hugsanleg rektorsefni í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Var þá stefnt að því að fá einhvern sem væri ótengdur ýmsum ágreiningsmálum sem höfðu skekið skólann mánuðina og árin á undan.
Fulltrúi ráðherra í háskólaráðinu, Sigríður Hallgrímsdóttir betur þekkt sem pistlahöfundurinn Sirrý sem er fyrrverandi aðstoðarkona Illuga Gunnarssonar, stakk upp á því að gerð yrði tillaga um Sæmund Sveinsson og féllst háskólaráðið á það.
Sagði þingmann Sjálfstæðisflokksins hafa beitt þrýstingi
Stundin birti fréttaviðtal við Björn Þorsteinsson, fyrrverandi rektor Landbúnaðarháskólans sem sat í háskólaráði skólans, þann 27. október 2017 þar sem hann greindi frá því að Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður fjárlaganefndar, hefði hringt í sig og þrýst á sig að fallast á tillöguna.
„Haraldur hringdi í mig og mæltist eindregið til þess að ég legðist ekki gegn tillögu ráðherra í þessum efnum. Hann orðaði það sem svo, að ef ég setti mig upp á móti tillögunni þá gæti það komið „mjög illa út persónulega fyrir mig“,“ sagði Björn. Haraldur vísaði frásögn hans á bug í samtali við Stundina en viðurkenndi að hafa átt í samskiptum við Björn vegna vals háskólaráðs á rektor.
Nýr rektor gerði það svo að einu af sínum fyrstu embættisverkum að hóta eiginkonu Björns, Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, prófessor við skólann til 25 ára, uppsögn þó hún hefði aldrei fengið áminningu. Að því er fram kemur í nýlegri fundargerð háskólaráðs skólans sakaði Anna Guðrún Sæmund Sveinsson um einelti og hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið falið sálfræðifyrirtæki að skoða málið.
Þröngar undantekningarheimildir áttu ekki við
Einn umsækjendanna um stöðu rektors leitaði til umboðsmanns Alþingis þann 21. október síðastliðinn og kvartaði yfir þeirri ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, að fallast á tillögu háskólaráðs og setja Sæmund í rektorsembætti án auglýsingar. Dró umsækjandinn í efa að ráðherra hefði mátt setja í stöðuna án auglýsingar á grundvelli 24. gr. starfsmannalaga, enda hefði fyrrverandi rektor, Björn Þorsteinsson, ekki verið forfallaður í skilningi ákvæðisins.
Við meðferð málsins hjá umboðsmanni hélt menntamálaráðuneytið því fram að hlutverk ráðherra sem veitingarvaldshafa hefði fyrst og fremst verið formlegs eðlis og ekki verið á valdi ráðherra að hefja nýtt skipunarferli. Sérstakar ástæður sem fólu í sér forföll hafi réttlætt setningu í embættið án auglýsingar.
Umboðsmaður Alþingis hafnar þessum röksemdum í áliti sínu. Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er sú að auglýsa hefði átt rektorsstöðuna lausa, enda hafi þröngar undantekningarheimildir í starfsmannalögum ekki átt við þegar Sæmundur var settur rektor.
Fram kemur í álitinu að valdi og ábyrgð á skipun rektors Landbúnaðarháskóla Íslands sé skipt milli háskólaráðs skólans annars vegar og ráðherra hins vegar. Hlutverk ráðherra feli í sér að staðfesta tilnefningu ráðsins.
„Hann ber ábyrgð á því að sá gerningur
sé í samræmi við lög og að rækja þær eftirlitsskyldur sem á honum hvíla“
„Hann ber ábyrgð á því að sá gerningur sé í samræmi við lög og að rækja þær eftirlitsskyldur sem á honum hvíla með því að starfsemi skólans sé í réttu horfi,“ segir umboðsmaður.
„Af ábyrgð og hlutverki ráðherra samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna leiðir að ráðherra ber að lágmarki að ganga úr skugga um lögmæti skipunarferlisins, svo sem með könnun á því hvort sá umsækjandi sem háskólaráð tilnefnir uppfyllir almenn hæfisskilyrði til þess að gegna embættinu og hvort undirbúningurinn og málsmeðferðin hafi að öðru leyti verið í samræmi við lög og reglur.“
Vinnubrögð háskólaráðs við tilnefningu rektors samræmdust ekki lögum og því hefði ráðherra átt að bregðast við þeim annmarka með því að synja tilnefningunni og beina þeim tilmælum til ráðsins að auglýsa embættið og hefja nýtt skipunarferli. Bendir umboðsmaður á að hlutverk ráðherra sem veitingarvaldshafa sé í takt við almenna ábyrgð og eftirlitsskyldu ráðherra gagnvart þeim stjórnvöldum sem undir hann heyra. Ef umsækjandinn sem brotið var á telur sig eiga rétt á bótum vegna framgöngu stjórnvalda verði dómstólar að taka afstöðu til þess.
Athugasemdir