Ég hef alltaf verið mikið fyrir spil, en dróst af alvöru inn í áhugamálið 2012 þegar ég eignaðist samvinnuspilið Pandemic. Ég féll gjörsamlega fyrir því og fór í kjölfarið í búðina Spilavini þar sem ég kynntist spilasamfélaginu þar. Það er mikið af frábæru fólki í þessum hópi sem er opið fyrir því að fá nýliða inn. Ég kynntist sambýlismanni mínum gegnum spilakvöld Spilavina og við eigum þetta áhugamál því sameiginlegt og erum samtaka í að fylla heimilið af spilum og halda spilakvöld.
Aðgengi skiptir mig gríðarlega miklu máli. Við í femínísku fötlunarhreyfingunni Tabú tölum um „aðgengiskvíða“ þegar einstaklingur er að fara á einhverja viðburði og veit ekki hvort það sé gott aðgengi þar. Það er það sem Spilavinir hafa fram yfir aðrar verslanir, það er alltaf starfsfólk á staðnum sem ég veit að er boðið og búið að hjálpa, til dæmis með að ná í rampinn fyrir mig.
Ég fékk heilablóðfall í nóvember 2016 og við það breyttist líf mitt gjörsamlega á einu augnabliki. Ég lamaðist og missti getuna til að lifa án aðstoðar og upplifði gríðarlegt vonleysi. Það var rosalega gott að hafa þetta áhugamál áfram sem fastan punkt í lífinu, eitthvað sem hélt áfram að vera eins. Það var mikið lán að mitt helsta áhugamál er svona fötlunarvænt.
Athugasemdir