Ég birti nýverið grein sem kallast Gestgjafareglan. Þar set ég fram reglu sem ég tel að geti verið grunnur að því að gefa mannkostum gildi. En reglan er hugsuð sem viðmið t.d. þegar flóttamenn og hælisleitendur vilja setjast að á nýjum stað. Eins tel ég að í henni felist ábyrgð manna til að leita ávallt bestu lausna. Reglan er sett fram sem hugmynd að leið til að sætta sjónarmið.
Tillaga mín er byggð á einfaldri líkingu. En sumu fólki er ekki ætlað að lesa einfaldar líkingar og því er lífsins ómögulegt að skilja einföldustu staðreyndir. Engu að síður ber mér að taka þeim fagnandi sem eru mér ósammála. Rök þeirra geta kennt mér. En ég geri þó þá einföldu og barnalegu kröfu, að menn reyni eftir bestu getu að skilja orð mín, túlka þau af sanngirni og reyni að komast hjá því að klína á mig skoðunum sem ég sjálfur á ekki til. Þeir sem vilja nota hrútskýringar; útskýra allt sér sjálfum í hag – án tillits til staðreynda – og koma síðan óorði á minn málstað í gegnum falsrök, verða að átta sig á því að þeirra eigin misskilningur er meinið. Ég get einungis bent þeim á að reyna að gera betur. Þeir sem gagnrýni hafa hreyft vegna greinar minnar, hafa fyrst og fremst séð ástæðu til að ráðast að mér. Og vera má að þeir hafi fundið eitthvað að málflutningi mínum. En ennþá hef ég ekki séð stafkrók sem bendir á leið til að bæta regluna. Ég geri þá kröfu til fólks að það beiti gagnrýninni hugsun á það sem ég kalla gestgjafareglu, ég vil að fólk velti við hverri þúfu og hverjum steini. En sú vinna getur ekki farið fram nema með heiðarlegum vinnubrögðum. Og í þeirri vinnu er persóna mín ekki í brennidepli, þar eð ég er einungis flutningsmaður tillögu að reglu sem hugsuð er sem innlegg í umræðu sem oftar en ekki á sér stað í fullkominni óreiðu; undirlögð hnútukasti, hráskinnaleik og helgislepju.
Nú hafa nokkrir einstaklingar fullkomlega misskilið hugmynd mína. Hér vil ég því nota tækifærið og skýra betur hvað ég er að meina. En samtímis er ég þakklátur fyrir umræðuna, jafnvel þótt ýmsum hafi tekist að sjá í henni andhverfu þess sem ég setti fram. Ég er í senn sár og þakklátur vegna þess að sú gagnrýni sem komið hefur fram á hugmynd mína, er gegnumsneitt sett fram með þeim plebbahætti og þeirri illmælgi sem ég tel að við verðum að reyna að komast hjá. Svörin eru þannig sönnun þess sem ég varaði við í grein minni.
Ég á þá ósk að málefnaleg umræða skapi forsendur til að meta þá reglu sem ég hef sett fram. Þegar ég tala um málefnalega umræðu, á ég við að málefnið sjálft sé rætt, en persónum og leikendum hlíft við skítkasti.
Afbökun og óhróður
Þeir sem þekkja mig, vita að ég er ekki fordómafullur. Hinir sem þekkja mig ekki (og þeir eru fleiri) geta haft þá skoðun sem þeim hentar. Engu að síður er það hjákátleg fásinna að halda því fram að ég sé sá sem leggur því lið að gestum hvers gestgjafa sé ætlað að tileinka sér allt sem afvega hefur farið í háttum gestgjafans. Ég lít mannaréttindabrot alvarlegum augum óháð því hver fremur eða á rétti hvers er troðið. Regla mín er ekki sett fram til að þóknast einum á kostnað hins. Regla mín er óháð samfélagi, hún er einungis grunntónn sem síðan getur orðið að einhverju góðu, ef hugmyndin er virt.
Ég er stoltur af því að setja fram barnalega leið, þar eð þá er væntanlega um afar einfalda og skýra nálgun að ræða. En auðvitað sjá misvitrir menn ástæðu til að nota barnalega hugsun gegn mér. Þeir sem ekki geta meðtekið hið barnalega ættu að skoða hug sinn allan áður en þeir setja orð á blað. Allar flækjur eru erfiðar þeim sem fyrirmunað er að skilja hið einfalda.
Heimur tungumálsins er þannig, að allajafna er auðvelt að misskilja. Oft er það svo að þegar fólk byrjar að lesa ranga túlkun út úr því sem það les, vill rangtúlkunin vinda uppá sig. En ef menn hafa ekki annan rökstuðning en þann sem byggður er á því að afvegaleiða umræðu, er betra heima setið en af stað farið. Gestgjafareglunni er akkúrat beitt gegn rangtúlkun og misskilningi. Henni er ætlað að stuðla að réttlæti.
Ég er ekki að halda því fram að eitt samfélag sé öðru betra. Ég er ekki að halda því fram að ein menning sé hinni skárri. Ég er ekki að halda því fram að ein tegund trúar sé hinni æðri. Ég er ekki að halda því fram að einn kynstofn sé öðrum meiri. Ég er ekki að halda á lofti einhvers konar eðlishyggju eða neinu slíku. Ég er ekki að gefa mér neitt sem ég get ekki staðið við. Það er því alrangt hjá þeim sem sjá annmarka á hugmynd minni, að gera því skóna að ég sé að hampa einum á kostnað hins. Mín nálgun er ekki byggð á ótta við tiltekin trúarbrögð eða fólk af öðrum uppruna en þeim sem ég neyðist til að burðast með. Ég er hvorki að upphefja né lasta. Það sem fyrir mér vakir er að koma með einfalda lausn á flóknum vanda.
Aldrei mun ég vera stoltur af uppruna mínum, vegna þess að það er ekkert að vera stoltur af. Ég fæddist bara sem ég og við það skal ég una. Að vera Íslendingur er fyrir mér ekkert betra eða verra en að teljast Afgani, Albani, Dani eða Kani. Ég er stoltur að ýmsu og skammast mín fyrir margt af því sem þrífst í samfélagi því sem ég tilheyri. Ég veit að misbrestir eru á öllum stöllum mannlífsins. Þessum misbrestum vil ég ekki koma á einn eða neinn. Ég vil ekki viðra þá hugsun að böl míns samfélags geti batnað þótt ég bendi á annað og jafnvel ömurlegra böl. Hugmynd mín snýst ekki um flokkun eða meting. Hún snýst um það að virða rétt og meta skyldur út frá boðun gestgjafans.
Það er óþarfi að væna mig um illindi í garð eins eða neins. Ég er ekki trúaður maður en ég á vini sem tilheyra ýmsum hópum trúaðra. Ég er Íslendingur en dvel langdvölum í útlöndum og á vini af margs konar þjóðerni. Ég á vini í öllum stjórnmálaflokkum, á vini með margs konar kynhneigð, af ólíkum litarhætti og flóra skoðana þeirra er víðfeðmari en svo að ég geti þar einhverju ráðið. Enda er ég sáttur við allar skoðanir – hvort sem þær líkjast mínum eður ei.
Forsendur gestsins
Kannski þykir fólki réttast að ávallt verði litið fyrst til stöðu gestsins. Kannski er regla gestsins sú sem við eigum fyrst og fremst að virða. Á gesturinn að hafa rétt sem trompar rétt gestgjafans? Gefum okkur það að við búum í samfélagi sem hefur átt þokkalegasta gengi að fagna, siðvenjur þykja – gegnumsneitt – með ágætum og meðaljóninn telur að hefðir og viðmið samfélagsins séu einsog best verður kosið. Hann fær gesti og það fyrsta sem gestirnir gera er að snúa á hvolf þeim gildum sem fyrir eru. Þetta er kannski gert í skjóli mannúðar, siða eða trúar, undir gunnfána fjölmenningar eða undir formerkjum femínískra krafna. (Hér er ég ekki að fordæma hugmyndir, heldur einfaldlega að gefa dæmi um leiðir). Kröfurnar geta verið settar fram í hvaða formi sem er. Og þá vaknar spurningin: Er það réttlætanlegt að gesturinn geti haft leyfi til að raska ró þeirra sem hann heimsækir?
Ef gesturinn fær leyfi til að gera allar þær breytingar sem honum sýnist eðlilegt að gera, ef hann fær að ota sinni menningu að gestgjafanum þá er í gildi regla gestsins. Gesturinn kemur á nýjan stað og byrjar að breyta.
Regla mín snýst um að gestgjafinn, sem er á sínum stað, njóti þeirra sjálfsögðu réttinda að ákvaða sjálfur að takmarka þau áhrif sem gestir hans hafa, t.d. þegar þá langar að breyta grunnstoðum samfélags gestgjafans. Í reglunni felast þá ekki aðrir fordómar en þeir sem hver gestgjafi hefur hverju sinni um yfirburði síns samfélags. Fordómar hans byggjast ekki á flokkunarkerfi í gott og vont. Hann vill einungis hafa það sem hann hefur og vill ekki breyta því.
Hér er kannski fyrst að spyrja: Kemur gesturinn í hús gestgjafans á sínum eigin forsendum eða á forsendum gestgjafans? Og í framhaldi má spyrja: Er gesturinn að leita að betra lífi með því að koma til gestgjafans?
Ef gesturinn er að flýja aðstæður heimafyrir og á ekki í önnur hús að venda en í tiltekið hús, tiltekins gestgjafa, til hvers ætti hann þá að taka með sér þá menningu sem hann er að flýja. Neyðin hefur kennt honum að leita þess skjóls sem í boði er. Og ef hann hefur í hyggju að fara ekki að þeim boðum og bönnum sem gestgjafinn setur, þá má spyrja að því hvor þeirra sé að launa virðingu með virðingarleysi. Ef gesturinn er að flýja kerfi sem gerði honum lífið óbærilegt, hvers vegna ætti hann þá að vilja troða því kerfi upp á gestgjafa sinn?
Hér er hægt að koma með augljóst og um leið nokkuð slóttugt svar: Gesturinn vill kannski halda í það besta og flýja hið versta. Hann vill kannski halda í tilbeiðslu, þótt hann vilji ekki sætta sig við ritskoðun, ofsóknir, kúgun, þöggun í nafni trúar, valdaklíku sem reist er á guðdómlegum grunni og annað í sama dúr. Hann vill vera frjáls og stunda þá trú sem er rót hans menningar.
Væntanlega erum við öll að leita að betra lífi. Það hlýtur að teljast til undantekninga að vera manneskja sem reynir að gera líf sitt óbærilegt. Og ef gesturinn leitar til gestgjafans í von um betra líf, er þá ekki eðlilegt að hann fari að ráðum gestgjafans. (Fyrir þá sem hér reyna að misskilja orð mín, er rétt að geta þess að ímyndaður gestur og ímyndaður gestgjafi geta átt hvern þann uppruna sem hugsast getur. Ég er ekki að draga þá í dilka. Set einungis fram hugmynd að ferli sem reyna má sem leið til að sætta sjónarmið). Ég veit ekkert um framtíð mína en get í fávísi minni leyft mér að stilla upp ákjósanlegri stöðu. Reglan skapar þannig umgjörð, án þess að ákveða nákvæmlega hvað í mengið fer.
Nánari skýringar
Samskipti á milli gests og gestgjafa snúast öðru fremur um virðingu og umburðarlyndi, þar sem báðum er skylt að hafa mannúð í heiðri og báðir geta gert kröfu um sanngjarna málsmeðferð. Auk þess sem þeir þurfa vissulega báðir að axla ábyrgð.
Ef við ætlum að reisa reglu á samskiptum gests og gestgjafa, er eðlilegt að við gefum okkur það að við eigum einungis tvo kosti; að fara að kröfum gestsins eða fara að kröfum gestgjafans. (Að vísu má hugsa sér ýmsa aðra kosti). Við tökum þessa tvo og spyrjum: Er með einhverjum rökum hægt að réttlæta það að við reynum í flestu að fara að kröfum gestsins? Ef við gefum okkur t.d. að reglur gestsins fari þvert á reglur gestgjafans, er eðlilegt að spyrja: Er e.t.v. skynsamlegra að hugsa hlutina útfrá kröfum gestgjafans? Ef við sjáum það sem skynsamlegustu lausnina, hefur hann engu að síður skyldum að gegna gagnvert gestum sínum. En það hlýtur að vera réttlætanlegt að gestgjafinn fái að ráða á þeim grunni sem hann hefur hingað til ráðið. Ef við förum að reglu gestsins, þá er aldrei sama reglan í gangi gagnvart gestgjafanum, þar eð gestirnir hafa hver sína regluna.
Gestgjafareglan er þannig ákjósanlegur kostur.
Skoðum dæmi: Gestgjafi hefur boðið til veislu og hann hefur ákveðið að gestir hans eigi allir að vera hvítklæddir. Einhverjir gestanna eru þannig klæddir að aðrir litir eru með þeim hvíta, þó þannig að hvíti liturinn er yfirgnæfandi. Gestgjafinn ákveður að leyfa þau frávik sem nánast uppfylla þau skilyrði sem hann lagði upp með. En nú koma hjón sem eru ekki í neinu hvítu. Og gestgjafinn ákveður að hleypa þeim ekki inn. (Hér er kannski rétt að taka það fram, einkum fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir litatali, að téðir litir hafa ekkert að gera með litarhátt fólks).
Hér getum við spurt okkur að því hvort gestgjafinn ætti ekki að útvíkka sveigjanleika sinn enn frekar, þar eð hann leyfði fólki, sem var ekki einvörðungu hvítklætt, að koma til veislu. En ef hann gerir það þá er reglan um hvíta klæðnaðinn að engu orðin. Hann myndi einnig eyða reglunni ef hann leyfði þeim sem ekki eru hvítklæddir að líta við og heilsa uppá aðra gesti en segði þeim síðan að yfirgefa samkvæmið. Hann gæti allt eins leyft þeim sem eru ekki hvítklæddir að koma á vissum tíma og leyft þeim að stoppa styttra við en hinum. Hann gæti einnig haft sérstakt herbergi fyrir þá sem ekki eru hvítklæddir. En með þessu væri hann að segja að gestirnir þyrftu ekki nauðsynlega að vera hvítklæddir eða nánast hvítklæddir.
Lykill að fjölmenningu
Ég er ekki að tala um að við eigum að virða hið versta í fari gestgjafans, t.d. þar sem gestgjafinn virðir ekki mannréttindi, friðhelgi og annað af svipuðum toga. Reglan gildir um að gestgjafinn ráði því í einu og öllu hvernig hann telur réttast að vernda sína menningu, sín samfélagsgildi og sína eigin túlkun á ríkjandi siðum, venjum og háttum. Gestgjafinn getur ákveðið að banna það sem hann telur að skapað geti alvarlega árekstra við þær hefðir sem hann sjálfur vill í heiðri hafa. En ekki er hægt að ætlast til þess að gestgjafinn neyði gest sinn til þátttöku í einu eða neinu. Hann getur bannað athafnir en ekki neytt til eins né neins. Þannig getur hann bannað opinberar athafnir, hann getur bannað vissa tegund bygginga þótt hann geti ekki neytt fólk til að borða hrossakjöt og skötu. Hann hefur vald en verður að gæta velsæmis.
Skyldur gestgjafans eru skýrar. Hann þarf að taka tillit til eigin stöðu. Við getum gefið okkur það strax að hann vilji vernda sína eigin menningu. Og hann hefur þær skyldur gagnvart gesti sínum að leyfa honum ekkert sem raskað getur ró þeirra sem fyrir eru í húsi gestgjafans.
Ef við tölum um fjölmenningu sem samspil gests og gestgjafa, hlýtur besti lykillinn að góðri samvinnu að byggjast á umburðarlyndi gestsins og þeirri virðingu sem hann sýnir gestgjafa sínum.
Auðvitað má alltaf halda því fram að við eigum öll að vera í jafnri stöðu og að tækifærum eigi að vera réttlátlega skipt. En staðan er ekki þannig. Sumir gestir vaða yfir gestgjafa sína með frekju. Sumir gestgjafar sýna aldrei neinn sveigjanleika. Sumir gestir heimta að draga sína menningu einsog skugga yfir menningu gestgjafans, kannski í nafni trúar, kannski í nafni mannréttinda eða á öðrum forsendum. Sumir gestgjafar sýna aldrei nokkra tilslökun og þeir geta jafnvel vitnað í einhvers konar bókstafstrú þegar þeir banna ógiftu fólki að leiðast eða troða með öðrum hætti á þeim rétti sem gesturinn hefur í sínum heimahaga.
Í draumaveröldinni eru árekstrar ekki til. En í veröld dagsins í dag er meginreglan sú að sumir gestgjafar eru neyddir til að sýna tilslökun á meðan aðrir gestgjafar gefa aldrei neitt eftir. Og þegar svo er komið, er kannski best að velta því fyrir sér, hvort hin réttasta afstaða snúist ekki um umburðarlyndi gestsins þegar öllu er á botninn hvolft.
Athugasemdir