Um 14 til 18 prósent af auðlindarentunni sem varð til í íslenskum sjávarútvegi á tímabilinu 2012 til 2015 rann til ríkisins í formi veiðigjalda. Restin féll að miklu leyti útgerðarfyrirtækjum og eigendum þeirra í skaut. Áður en sérstaka veiðigjaldið var innleitt í ríkisstjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar var hlutdeild ríkisins í auðlindarentunni miklu lægri. Á hrunárinu 2008 runnu t.d. aðeins 0,8 prósent auðlindarentunnar til ríkisins og aðeins 4,95 prósent árið 2010.
Í nýlegri grein Þórólfs Matthíassonar, prófessors við hagfræðideild Háskóla Íslands, og Eyjólfs Sigurðssonar, sérfræðings hjá Hagstofunni, er fjallað um áhrif auðlindarentunnar á laun sjómanna. Höfundar reikna út greinanlega auðlindarentu (e. visible resource rent) á grundvelli Hagstofugagna og bókhaldsupplýsinga úr sjávarútvegi og varpa upp töflu þar sem meðal annars má sjá hlutfall auðlindarentunnar af þeim virðisauka sem verður til í atvinnugreininni. Fróðlegt er að skoða auðlindarentuna í krónutölum og bera saman við tekjur af veiðigjöldunum sem útgerðarfyrirtækin greiddu í ríkissjóð á sama tímabili.
Frá 2010 til 2015 greiddu eigendur útgerðarfyrirtækja sér samtals um 54,3 milljarða í arð samkvæmt gögnum sem Deloitte tók saman.
Á sama tíma greiddu útgerðarfyrirtæki samtals um 41 milljarð króna í veiðigjöld. Uppsöfnuð auðlindarenta á sama tímabili var, samkvæmt útreikningum Þórólfs Matthíassonar og Eyjólfs Sigurðssonar, samtals um 332 milljarðar. Tölurnar eru á nafnvirði en gefa þó skýra mynd af skiptingu verðmætanna – verðmæta sem eru samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sameign þjóðarinnar.
Tölurnar hér að neðan byggja á töflu sem er að finna á bls. 16 í grein Þórólfs og Eyjólfs:
Stundin fjallaði um gróða útgerðarmanna í síðasta tölublaði, en þar kom fram að í fyrra þénuðu sjö aðaleigendur þriggja stærstu útgerðarfyrirtækja landsins samtals um sex milljarða í fjármagnstekjur. Tekjuhæst voru Sigríður Vilhjálmsdóttir með tvo milljarða í fjármagnstekjur og systkinin Kristján og Birna Loftsbörn, hvort um sig með rúmlega 1,36 milljarða, en þau þrjú eru eigendur Hvals hf. í gegnum Fiskveiðahlutafélagið Venus og áttu jafnframt þriðjungshlut í HB Granda, kvótahæsta fyrirtæki landsins, allt þar til í vor þegar hlutabréfin voru seld Brimi og forstjóra þess, Guðmundi Kristjánssyni.
Núverandi ríkisstjórn var nýlega gerð afturreka með áform um 2 milljarða lækkun veiðigjalds. Eins og bent var á hefði frumvarpið létt mestum byrðum af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins. Í umsögn Indriða H. Þorlákssonar, hagfræðings og fyrrverandi ríkisskattstjóra, áætlar hann á grundvelli gagna Hagstofunnar að fiskveiðirentan árið 2016 hafi numið 32 milljörðum króna og verið nokkru lægri en árin á undan. Fyrir vikið hafi hlutfall veiðigjalda af rentunni verið hærra en áður, eða um 20 prósent. Að mati Indriða bendir þó flest til þess að auðlindarentan af fiskveiðum næstu árin verði vel yfir 40 milljörðum.
Athugasemdir