Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, var kjörinn í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins til fjögurra ára á fundi aðildarríkja barnasáttmálans sem fram fór í New York í dag.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, fagnar niðurstöðu kosninganna en Bragi hlaut 155 atkvæði af 195.
„Ég er ánægður með þessa niðurstöðu. Ísland hefur nú fengið rödd á þessum mikilvæga vettvangi þar sem talað er fyrir réttindum barna og bættri stöðu þeirra á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Áratuga reynsla og þekking Braga Guðbrandssonar á málefnum barna og þátttaka hans í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði mun án efa nýtast vel í störfum barnaréttarnefndarinnar,“ segir Ásmundur Einar í fréttatilkynningu.
Þá er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að í niðurstöðu kosninganna felist því mikil viðurkenning á frammistöðu Íslands á sviði barnaréttarmála. Aðeins fáeinir mánuðir eru liðnir síðan velferðarráðuneytið sendi þremur barnaverndarnefndum bréf þar sem fullyrt var að ekki ríkti trúnaður og traust milli aðila innan barnaverndarkerfisins á Íslandi og komin væri upp „alvarleg staða“ í barnaverndarstarfi á höfuðborgarsvæðinu.
Bréfið var skrifað í kjölfar kvartana undan háttsemi og framgöngu Braga og starfsmanna Barnaverndarstofu. Ráðuneytið skoðaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að til að endurheimta traust og trúnað innan málaflokksins væri þörf á aðgerðum. Í þeim fólst meðal annars að fengnir voru utanaðkomandi aðilar til skoða hvernig bæta mætti barnaverndarkerfið. Um leið var ákveðið að Bragi Guðbrandsson tæki sér leyfi sem forstjóri Barnaverndarstofu og ynni um tíma á vegum velferðarráðuneytisins og yrði boðinn fram til barnaréttarnefndar.
Alvarlegar ásakanir enn í rannsóknarfarvegi
Mál Braga Guðbrandssonar eru enn í rannsóknarfarvegi innan velferðarráðuneytisins eftir að ljóst varð að ráðuneytið vanrækti rannsóknarskyldu sína við fyrri athugun og mistókst að leiða fram staðreyndir þegar barnaverndarnefndir kvörtuðu undan ítrekuðum óformlegum afskiptum Braga af einstökum barnaverndarmálum.
Í fréttatilkynningu sem birtist á vef forsætisráðuneytisins þann 2. maí síðastliðinn kom fram að óháðum sérfræðingum hefði verið falið að vinna úttekt á „tilteknum málum á sviði barnaverndar“ og að gera athugun á „málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis“.
Tilefni úttektarinnar var hávær umræða á Alþingi og í fjölmiðlum eftir að Stundin hafði greint með ítarlegum hætti frá afskiptum Braga Guðbrandssonar af barnaverndarmáli í Hafnarfirði þar sem Bragi hafði beitt sér fyrir því að faðir fengi að umgangast dætur sínar þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um að faðirinn hefði misnotað þær kynferðislega.
Eins og úttektin staðfesti byggði umfjöllun Stundarinnar frá því í lok apríl á einu skráðu samtímagögnunum sem til eru um afskipti Braga af Hafnarfjarðarmálinu sem svo er kallað. Bragi viðurkenndi sjálfur að hafa beitt sér símleiðis í umræddu máli án þess þó að hafa „áhuga á að vita“ af hugsanlegum kynferðisbrotum sem voru til skoðunar. Hann kom svo aftur að málinu á síðari stigum, með óvenjulegum hætti, eins og Stundin greindi frá.
Úttektin var kynnt þann 8. júní þar sem fram kom að velferðarráðuneytið hefði vanrækt rannsóknarskyldu sína við meðferð á kvörtunum barnaverndarnefnda og láðst að leiða í ljós hvað hæft væri í þeim ásökunum sem bornar voru á Braga Guðbrandsson. Þótt fram kæmi í úttektinni að Bragi hefði falast eftir endurupptöku málsins brást Bragi við úttektinni með því að segja málinu lokið og kvarta undan dylgjum og falsfréttum.
Athugasemdir