Ekki hafa komið fram upplýsingar sem benda til þess að fyrrverandi starfsmaður Stuðla, sem bað unglingsstúlku sem vistuð hafði verið á heimilinu um kynlíf gegn greiðslu, hafi haft samband við fleiri börn í sama tilgangi. Barnaverndarstofa telur „ekki tilefni til að fara í frekari athugun á málum tengd manninum en þegar hefur verið greint frá“. Þetta kemur fram í svörum Heiðu Bjargar Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu, við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Stundin greindi frá því á mánudag að maður sem vann á Stuðlum í nokkrar vikur hefði haft samband við unglingsstúlku skömmu eftir að hún útskrifaðist af meðferðarheimilinu og reynt að fá hana til að stunda kynlíf gegn greiðslu. „Málið er til rannsóknar,“ svaraði Theodór Kristjánsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þegar Stundin sendi embættinu fyrirspurn um málið.
Heiða Björg hjá Barnaverndarstofu staðfestir að „maðurinn var sendur í leyfi strax og upplýsingar bárust sem gáfu tilefni til að draga hæfni hans til starfa á Stuðlum í efa og sneri hann ekki aftur til starfa“. Hún segir að þegar málið kom upp hafi ekkert bent til þess að hann hefði brotið af sér í starfi eða sýnt af sér ósæmilega hegðun gagnvart börnum. „Engar upplýsingar hafa borist sem gefa tilefni til þess að fara í frekari athugun en þegar hefur verið greint frá eða að viðkomandi einstaklingur hafi sett sig í samband við önnur börn, beint eða óbeint. Að öðru leyti getur stofan ekki tjáð sig frekar um málið.“
Athugasemdir