Auðvitað skiptir engu máli hvað einn pistlahöfundur hér uppi á Íslandi hefur að segja um þann skelfilega sjónvarpsþátt sem nú er í gangi vestanhafs, og það skiptir kannski heldur ekki verulegu máli hvað Ísland sjálft hefði að segja um þennan ömurlega þátt, þar sem fullkomlega óhæfur maður leikur forseta Bandaríkjanna og það eina sem kemur í veg fyrir að þátturinn fái öll helstu kómedíuverðlaun fyrir ósvífið, yfirgengilegt grínið er sú staðreynd að þetta er því miður allt í alvörunni.
Það sýnir náttúrlega fyrst og fremst veikleika lýðræðisins að þetta skuli hafa getað gerst en vonandi mun það á hinn bóginn líka sýna að lokum styrkleika lýðræðisins að bæði Bandaríkin og heimurinn munu standa af sér þessi ósköp og sá tími renni upp á ný að stærsta kjarnorkuvopnabúr veraldar sé ekki eins og hver annar dótakassi fyrir svo vanþroska narsisista að hann getur hvorki talist með fullu viti né réttu ráði.
Viðurstyggilegt framferði
Hins vegar er það því miður ekki víst. Hingað til hefur forsetatíð Donalds Trumps verið verri og skelfilegri en nokkurn hefði órað fyrir – og voru þó margir svartsýnir þegar í ljós kom að hann hafði náð kjöri vegna kjördæmaskiptingar í forsetakjörinu vestan hafs. Ég þarf vonandi ekki að skýra það neitt nánar. Hið viðurstyggilega framferði Trump-stjórnarinnar í garð barna á suðurlandamærunum var hin endanlega sönnun þess. Og þótt forsetanefnan hafi nú að því er virðist lyppast niður með verstu glæpi sína þar, þá hefur reynslan kennt okkur að honum er ekki að treysta, og það er bara skelfileg tilhugsun hverju hann tekur upp á næst – hann hefur enn nærri þrjú ár til að ganga af göflunum.
En þótt það skipti kannski ekki miklu máli hvernig við, hvert okkar og eitt, mæðist yfir þessum ásköpunum, þá er nú samt kominn tími til að tala af alvöru um Trump.
„Rogue state“
Því við Íslendingar megum ekki taka þátt í þeim furðulega söfnuði sem reynir að láta sem ekkert sé og það sé eðlilegur maður við stjórnvölinn í Hvíta húsinu. Við megum ekki láta eins og við getum verið í venjulegum samskiptum við það „rogue state“ sem Bandaríkin eru nú orðin.
„Við verðum að gera eitthvað“
Sem betur fór kváðu bæði Guðlaugur Þór utanríkisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra upp úr með að þau gagnrýndu framferði Trump-stjórnarinnar gegn börnunum – mér fannst þau að vísu bæði tvö vera fullsein til þess, en virða ber það sem gert er, engu að síður – en rétt eins og það þurfti lítið barn í sögu H.C. Andersens til þess að benda á að kóngurinn væri klæðlaus, þá gæti lítið ríki eins og okkar stigið mikilvægt skref til að sýna fram á hve umheiminum blöskrar Trump með því að neita samskiptum við Bandaríkin meðan svona er komið málum. Það mun eflaust ekki breyta mjög miklu, en það gæti þó orðið mikilvægt frumkvæði að því að umheimurinn neitaði að taka þátt í sjónvarpsþætti Trumps.
Okkar eigin sómatilfinning
Ég veit ekki alveg hvaða leið við ættum að fara til þess að lýsa því skýrt yfir að við höfum fengið nóg af Trump, það hlýtur að vera hægt að finna þá leið. Olov Palme, forsætisráðherra Svía, fór á sínum tíma í mótmælagöngur gegn Víetnam-stríðinu, það hafði mikil áhrif, man ég, enda var Palme hugrakkur maður, en alla vega get ég ekki sem Íslendingur látið líðast að stjórnvöldin í mínu landi þykist eiga í venjulegum samskiptum við Bandaríkin nú um stundir.
Við verðum að gera eitthvað, þó ekki væri nema til að bjarga okkar eigin sómatilfinningu.
Athugasemdir