Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiddi líkum að því í gær að Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, hefði lekið trúnaðarupplýsingum um viðkvæm barnaverndarmál til Stundarinnar. Þegar hún óskaði eftir því við Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og 2. varaforseta Alþingis sem stýrði þingfundi, að fá að bera af sér sakir varð hann ekki við því og frestaði þingfundi.
Halldóra fékk loks tækifæri til að tjá sig um ásakanir Ásmundar í gærkvöldi, þegar Steingrímur J. Sigfússon þingforseti stýrði fundi.
„Ég kem hér upp til að bera af mér sakir vegna orða sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Friðriksson, lét falla í pontu í sérstakri umræðu um barnaverndarmál fyrr í dag. Þar sakaði Ásmundur Friðriksson mig um alvarleg brot í störfum mínum sem formaður velferðarnefndar, um trúnaðarbrest og gagnaleka, sem ég er algjörlega saklaus af og það veit þingmaðurinn vel,“ sagði hún.
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann sakar mig um slíkt, en Sjálfstæðismenn vita mætavel að ef þeir endurtaka lygina nógu oft þá fara einhverjir að trúa henni. Ég hafna með öllu þessum ásökunum Ásmundar Friðrikssonar og fordæmi orð hans. Ásakanir þingmannsins hafa kastað rýrð á störf mín, störf nefndarinnar, og störf þingsins.“
„Horfði beint í augun á mér og frestaði
svo fundi í stað þess að gefa mér orðið“
Halldóra gagnrýndi einnig Brynjar Níelsson „Þá eru athafnir háttvirts þingsmanns Brynjars Níelssonar í forsetastól Alþingis algjörlega óforsvaranlegar þar sem hann leyfði þingmanni Sjálfstæðisflokksins að hafa uppi alvarlegar og grófar aðdróttanir í minn garð. Mér var svo ekki gefið tækifæri á að svara fyrir mig þar sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins er sat í forsetastól hunsaði ítrekað beiðnir mínar um að fá að koma upp í fundarstjórn til að bera af mér sakir, horfði beint í augun á mér og frestaði svo fundi í stað þess að gefa mér orðið. Er mín upplifun sú að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi þarna misnotað aðstöðu sína sem varaforseti Alþingis til að halda á lofti aðdróttunum þingmanns Ásmundar Friðrikssonar í minn garð. Ég vænti þess að þetta mál fái tilhlýðilega meðferð í forsætisnefnd Alþingis.“
Bar þungar sakir á formann velferðarnefndar
Ásmundur Friðriksson gerði birtingu Stundarinnar á tölvupósti sem hann sendi þingmönnum velferðarnefndar að umtalsefni í sérstakri umræðu um barnaverndarmál á Alþingi í dag. Þá gagnrýndi hann Halldóru fyrir að hafa ætlað að fjalla um vinnubrögð Braga Guðbrandssonar, frambjóðanda Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, í einstöku máli á opnum nefndarfundi.
„Pírötum í þinginu hefur ekki tekist vel upp þegar kemur að meðferð trúnaðargagna. Meðferð formanns velferðarnefndar í máli fjölskyldu sem tekið var upp í velferðarnefnd er dæmi um óvarlega meðferð tölvupósta nefndarmanna, og jafnvel trúnaðargagna. Tölvupóstur sem ég sendi formanni nefndarinnar og nefndarmönnum birtist umsvifalaust í Stundinni en gögn málsins voru birt í því blaði,“ sagði Ásmundur. „Lögmaður aðstandenda kom í veg fyrir að formaður nefndarinnar ræddi einstaklega persónuleg mál á opnum fundi í velferðarnefnd og formaðurinn var kominn með málið langt út fyrir eðlileg mörk en hlutverk nefndarinnar er að ræða stjórnsýslu barnaverndarmála en ekki einstök mál eins og vilji formannsins stóð til.“
Þá fullyrti hann að Píratar og Stundin ættu í samstarfi og Stundin hefði „lekið“ persónulegum upplýsingum. „Samspil Pírata og Stundarinnar sem lak persónulegum upplýsingum í viðkvæmu máli er áhyggjuefni fyrir Alþingi. Sú krafa er gerð til okkar þingmanna að gæta trúnaðar í okkar störfum og aldrei er mikilvægara að halda trúnað en þegar kemur að viðkvæmum málefnum barna og fjölskyldna þeirra.“
Spurði ráðherra um vinnubrögð Braga
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, átti frumkvæði að sérstöku umræðunni um barnaverndarmál. Í síðari ræðu sinni gagnrýndi hún Ásmund fyrir að sóa ræðutímanum sínum í skítkast og aðdróttanir gegn kollegum sínum á Alþingi.
Þá beindi Þórhildur spurningu til Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra um vinnubrögð Braga Guðbrandssonar frambjóðanda Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
„Ég ætla ekki að fjalla um þetta einstaka barnaverndarmál, en hins vegar finnst mér mikilvægt að hæstvirtur ráðherra svari eftirfarandi spurningu sem lýtur almennt að réttindum barna og stjórnsýslu barnaverndarmála: Telur hæstvirtur ráðherra að hegðun forstjóra Barnaverndarstofa þar sem hann hafði afskipti af einstöku barnaverndarmáli án þess að huga að því hvort málsaðili kynni að hafa brotið kynferðislega gegn barninu sem átti í hlut, samræmist barnalögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna? Þetta eru mikilvægar spurningar sem varða ekki aðeins þetta einstaka mál heldur barnaverndarmál almennt, afstöðu ráðherra sem fer með barnaverndarmál í ríkisstjórn Íslands, til mannréttinda barna og þeirrar grundvallarkröfu að börn séu alltaf látin njóta vafans.“
Þegar Stundin fjallaði um barnaverndarmálið í Hafnarfirði í lok apríl var haft eftir Braga að þegar hann kom að málinu hefði hann ekki vitað eða viljað vita hvort faðir barnsins kynni að hafa brotið kynferðislega gegn því. „Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það,“ sagði hann í viðtali við Stundina um málið þann 27. apríl síðastliðinn.
Ráðherra átti lokaræðuna í sérstöku umræðunni eins og venjan er en náði ekki að svara spurningu Þórhildar.
Athugasemdir