Gunnar Waage, varaformaður Karlalistans og baráttumaður gegn umgengnistálmunum, hefur ítrekað haldið dóttur sinni frá móður hennar og forsjáraðila. Í eitt skiptið braust Gunnar inn á heimili mæðgnanna samkvæmt dagbók lögreglu og nam barnið á brott. Í annað skipti hélt hann dóttur sinni frá skóla um nokkurra vikna skeið og neitaði að skila henni til móður sinnar þrátt fyrir að hún færi með fulla forsjá. Stúlkan fór ekki heim til móður sinnar fyrr en eftir að innsetningarkrafa hafði verið tekin til meðferðar í héraðsdómi og dómssátt verið gerð.
Barnsmóðir Gunnars leitaði til Kvennaathvarfsins meðan þau bjuggu saman árið 2008, en bæði hún og sonur hennar úr fyrra sambandi hafa sakað Gunnar um ofbeldi. Barnaverndaryfirvöld höfðu ítrekað afskipti af málefum barnsins og komu fram þungar ásakanir frá foreldrum á báða bóga sem aldrei leiddu þó til ákæru eða dóms.
Gunnar segir í samtali við Stundina að barnsmóðir sín sé veik og hafi ítrekað logið upp á sig. Í þessu samhengi bendir hann meðal annars á að dómari hafi látið þau orð falla í réttarsal samkvæmt hljóðupptöku að ásakanir móður væru falskar. Jafnframt vísar Gunnar til álitsgerðar matsmanns sem lögð var fram í aðdraganda dómssáttar árið 2016, en þar kemur fram að báðir foreldrar séu forsjárhæfir en vangeta þeirra til að leysa úr ágreiningi sín á milli kunni að jaðra við vanhæfni.
Berst gegn umgengnistálmunum
Gunnar Waage hefur undanfarna mánuði látið mikið að sér kveða í umræðu um umgengnistálmanir og haldið úti vefsvæði þar sem hann gagnrýnir femínista af krafti. Þá hefur hann stofnað til stjórnmálaframboðs undir þeim formerkjum að brotið sé á rétti feðra. Hann er varaformaður Karlalistans og skipar annað sæti á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar.
Flokkurinn var stofnaður þann 25. apríl síðastliðinn „til að bæta stöðu karla, feðra og barna í jafnréttisbaráttunni“ að því er fram kemur í pistli eftir formanninn, Gunnar Kristin Þórðarson. Boðskapur Karlalistans og hópa sem tengjast honum, svo sem Samtaka umgengnisforeldra og félagsskaparins #DaddyToo, hefur að miklu leyti hverfst um umgengnistálmanir forsjárforeldra eða „tálmunarmæðra“ eins og þær hafa verið kallaðar.
Gunnar Waage hefur tjáð sig um eigin umgengnisdeilu á netinu. „Ég er löngu hættur að láta þessa veiku konu koma mér úr jafnvægi,“ skrifaði hann á Facebook í fyrra. „Þar sem að óprúttin kenning gengur um það á vegum fyrrverandi konu minnar að ég hafi einhvern tímann tálmað umgengni, þá leiðrétti ég það hér með. Rétt er að eftir áralangar tálmanir hennar á umgengni dóttur minnar við mig, þá ákvað hún að saka mig um tálmun,“ skrifaði hann jafnframt. „Ríkissaksóknari fór nefnilega vandlega yfir málið og sendi síðan til mín bréf sem inniheldur niðurstöðu embættisins. Hún er sú að embættið telji ekki að um tálmun hafi verið að ræða enda hafi legið gildar ástæður því til grundvallar að barnið færi ekki til móður sinnar og eru þær ástæður tilgreindar í bréfinu.“
Stundin hefur gögn málsins undir höndum, en það lýtur að atviki þar sem Gunnar ruddist inn á lögheimili barnsins, samkvæmt dagbók lögreglu, og sótti það utan umsamins umgengnistíma, fór með það á heimili foreldra sinna þar sem hann bjó í kjallaraherbergi og neitaði að skila því til móður þess sem fór með fulla forsjá.
Í niðurstöðu ríkissaksóknara var ekki tekin afstaða til þess hvort „umgengnistálmun“ hefði farið fram. Niðurstaðan laut að því hvort Gunnar hefði brotið 193. gr. almennra hegningarlaga um forsjársviptingu af ásetningi, en ákæruvaldið komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Var talið að málið snerist um umgengnis- og forsjárdeilur foreldra en ekki refsivert athæfi og var því ákvörðun lögreglustjóra um að hætta rannsókninni staðfest af embætti ríkissaksóknara þann 30. september 2014.
Um er að ræða eitt af þremur skiptum þar sem Gunnar hélt barni sínu frá móður þess, en í tvö skiptanna gerði hann það þótt óumdeilt væri að hún færi með fulla forsjá samkvæmt gerðum samningum.
Leitaði til Kvennaathvarfsins
Samband Gunnars og konunnar má rekja aftur til ársins 2003. Þau hófu sambúð snemma árs 2004 og bjuggu fyrst með tveimur börnum konunnar úr fyrra hjónabandi. Sonur hennar flutti þó fljótlega til föður síns, að eigin sögn vegna þess að skapofsaköst Gunnars ollu honum vanlíðan. Í yfirlýsingu sem hann lagði síðar fram vegna umgengnisdeilu móður hans og Gunnars kemur fram að Gunnar hafi ráðist á hann jólin 2005 og rekið hann út úr húsinu. Þessa frásögn hafa þeir sem viðstaddir voru staðfest.
Dóttir Gunnars og konunnar fæddist árið 2006. Nokkrum vikum síðar barst barnaverndaryfirvöldum nafnlaus tilkynning þar sem fram komu áhyggjur af því að Gunnar beitti barnsmóður sína „andlegu ofbeldi og einangri hana frá vinum og fjölskyldu“. Tveimur árum síðar, sumarið 2008, leitaði konan til Kvennaathvarfsins en samkvæmt staðfestingarbréfi frá vaktstýru í athvarfinu dvaldist hún þar dagana 15. og 16. júní. Í árslok 2009, eftir að samskipti Gunnars og eldri dóttur hennar höfðu versnað til muna og hún óttaðist að missa hana af heimilinu, skildu þau Gunnar. Hann yfirgaf heimilið um áramótin og upp hófst harkaleg forræðisdeila.
Setti skilyrði fyrir því að skila barninu
Eftir skilnaðinn bjó stúlkan hjá móður sinni en umgekkst Gunnar aðra hvora helgi. Eina helgina, rétt eftir að móðurafi barnsins lést og var jarðsunginn, neitaði Gunnar að skila barninu. Að því er fram kemur í tölvupósti frá Katrínu Theodórsdóttur, lögmanni konnunar, til Daggar Pálsdóttur, lögmanns Gunnars, fékk móðirin ekki að hitta dóttur sína né ræða við hana. „Barnið sem er aðeins 3ja ára gömul telpa hefur verið hjá móður sinni frá fæðingu og er því hiklaust haldið fram að maðurinn geti valdið barninu varlegum skaða með aðgerðum sínum í þeim tilgangi einum að tryggja stöðu sína í bráðabirgðaforsjármáli sem lögmaður hans hefur komið af stað,“ skrifaði Katrín.
Dögg svaraði á þá leið að Gunnar hefði óskað eftir jöfnum samvistum foreldra meðan forsjármálið væri rekið en móðirin hafnað því og hótað samvistarslitum. Gunnar hefði „alvarlegar áhyggjur af andlegu ástandi hennar [móðurinnar] og þar með af öryggi barnsins hjá henni“. Engu að síður gerði hún barnsmóðurinni eftirfarandi tilboð: „Ef umbjóðandi þinn er tilbúinn til að ganga nú þegar frá samkomulagi um viku / viku umgengni meðan forsjármálið er rekið þá mun umbjóðandi minn afhenda barnið í samræmi við það samkomulag enda gangist þú í ábyrgð fyrir að umbjóðandi þinn virði samkomulagið sín megin.“
Í svari Katrínar segir: „Þetta bréf er alveg ótrúlegt að mínu mati. Í annarri setningunni kemur fram að maðurinn hafi séð sig nauðbeygðan til að halda barninu frá móðurinni þar sem hann efaðist um andlegt heilbrigði hennar. Í næstu setningu er gefin sú skýring að tilgangurinn með gjörðum mannsins beinist að því að tryggja jafna umgengni; þ.e. viku/viku sem umbjóðandi minn hefur verið andsnúinn. Sum sé, það er í lagi að beita þeim úrræðum að neita að skila barni á lögheimili sitt, halda því frá móður sinni og leikskóla til að ná sínu fram í deilu um umgengni! Er þetta mat lögmannsins?“ Stúlkan var hjá pabba sínum allt þar til bráðabirgðadómssátt var gerð þann 12. maí 2010. Snemma árs 2011 fékk svo móðirin fulla forsjá yfir barninu en áfram var deilt um umgengni.
Athugasemdir