Reykjavík er fjölmenningarborg. Í ársbyrjun voru innflytjendur 14% íbúa Reykjavíkur. Nýir Reykvíkingar koma úr öllum áttum og eins og ber að skilja er að ekki er hægt að líta á innflytjendur sem einsleitan hóp. Þarfir, óskir og draumar þeirra eru margvíslegir og fjölbreyttir.
Innflytjendur standa frammi fyrir ýmsum áskorunum – verða fyrir margskonar hindrunum í samfélaginu og þurfa að þola ýmiskonar mismunun, t.d á vinnumarkaði. Nýleg launakönnun borgarinnar sýnir að innflytjendur eru með lægri laun og lenda oftar í því að vita ekki hver réttindi þeirra eru, hvaða þjónusta stendur þeim til boða né hvert þeir eiga að sækja hana.
Heildstæð þjónusta
Hávært ákall hefur verið um að þjónusta ríkis og sveitarfélaga við innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd verði samræmd og aðgengileg á einum stað. Við í Vinstri grænum höfum lagt áherslu á að verða við þessu ákalli og að boðið verði upp á mannúðlegri og heildstæðari þjónustu við þessa hópa.
Þann 10. apríl var samþykkt í borgarstjórn fyrsta heildstæða stefna Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ég er mjög stolt af því að þessi stefna var unnin undir forystu okkar Vinstri grænna. Ein mikilvæg aðgerð snýr að því að Reykjavíkurborg eigi frumkvæði að því opnuð verði upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Borgin er reiðubúin til að veita þá ráðgjöf og þjónustu á því verkefnasviði sem að henni snýr. Ríkið þarf að gera hið sama.
Borg fyrir alla
Upplýsingamiðstöð innflytjenda á að veita sértæka ráðgjöf sem gengur þvert á verkaskiptingu ríkis og einstakra sveitarfélaga t.d. um helstu borgararéttindi og hvert skuli leita eftir þjónustu sveitarfélaga og ríkis. Það er líka mikilvægt að borgin leiti eftir samstarfi við verkalýðsfélögin um rekstur upplýsingaskrifstofu svo það megi nýta hana til að veita erlendu launafólki upplýsingar um kjarasamninga og réttindi þeirra á vinnumarkaði.
Við í Vinstri grænum höfum lagt áherslu á að slík upplýsingamiðstöð verði opnuð strax og að hún verði í anda Bjarkarhlíðarmódelsins, þ.e. fjármögnuð í samvinnu innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það þarf því ekki stórar og flóknar stjórnsýslulegar breytingar til að kippa þessu í liðinn. Pólítískur vilji er allt sem þarf.
Reykjavíkurborg á að vera borg þar sem allir geta notið sín og tekið virkan þátt í samfélaginu, óháð uppruna. Við viljum saman skapa samfélag án aðgreininar þar sem allir fá tækifæri til að leggja sitt af mörkum. Innflytjendur eru mikilvægur hluti af Reykvísku borgarsamfélagi: allir sem setjast að í Reykjavík eru Reykvíkingar og eiga að upplifa sig sem slíka.
Höfundur er formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar og skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna fyrir komandi borgarstjórnarkosnigar.
Athugasemdir