Nú er umræðan um Hvalárvirkjun komin á þann stað að ég sé ekki betur en rökleg hugsun og skynsemi hafi yfirgefið umræðuna. Sumir hafa ákveðið sig, meðan aðrir reyna að spyrja spurningaeða benda á aðra möguleika. Þetta hugarástand þar sem manneskja heyrir hvorki né sér lengur, heldur starir bara á takmark sitt er hluti af því mannlega eðli sem kalla má versta óvin upplýstrar skynsemi. Ritgerð, svo dæmi sér tekið, sem kemst að niðurstöðu í formála sínum, áður en efni hennar hefur fengið umfjöllun, fær að jafnaði falleinkunn. Upplýst samfélag ætti að hafa slík gildi í fyrirrúmi, annars þarf að kalla það samfélag eitthvað annað. Nú er svo komið að tilfinningaþrungnar hugrenningar fara af stað þegar Hvalárvirkjun er nefnd. Þar á eftir koma slagorð, gylliboð eða upphrópanir, og nú síðast morðhótanir. Það er afleitur farvegur fyrir svo alvarlegt mál sem varðar allaÍslendinga.
Það segir Snorri Sturluson í sögunni um Harald hárfagra að þegar Haraldur stóð frammi fyrir stórum ákvörðunum væri háttur hans: «at hann stillti sik fyrst ok lét svá renna af sér reiðina ok leit ásakar óreiðr». Slíkt hugarfar forfeðranna mætti líta upptil í þessu máli. Mig langar að reyna að líta á sakar óreiður, enda á ég vini á «báðum stöðum».
„Hvalárvirkjun hefur þegar sundrað litlu samfélagi á barmi útrýmingar“
Árneshreppur er Ísland
Hvalárvirkjun hefur þegar sundrað litlu samfélagi á barmi útrýmingar, skipað fólki í fylkingar. Frændur hafa kært frændur, orð og heitingar verið höfð í frammi – «þess bera menn sár» eins og segir í öðru kvæði. Stærsti auður Árneshrepps hefur að mínu mati verið heilindi fólksins þar og samstaðan, hið góða samtal og vægi þess meðal íbúanna, þar sem hver rödd og hver einstaklingur er mikilvægur. Ég á þessu litla samfélagi margt að þakka, þau sumur sem ég réri þar á trillu veittu lærdóm á við tvær doktorsgráður og mikinn forða af hjartahlýju. Mary Douglas, einn fremsti mannfræðingur heims,hefur bent á nauðsyn þess að búa í litlu þorpi til að geta skilið stærri samfélög.
Fyrir 20 árum síðan skrifaði ég skáldsögu upp úr reynslu minni af Árneshreppi á Ströndum.Hún er um þessar mundir vinsæl í Mið-Evrópu, fólk ber því við að þar sé lýst samfélagsanda sem þeirra menning hefur misst – og sem þau horfa til með vissri eftirsjá. Ekki veit ég hvað er hæft í því. En þarna er viss ró á mannlífinu og fátt sem gerist, slíkt gefur færi á að hugsa dýpra um tilvistina og ég ímynda mér að slíkir staðir verði stöðugt dýrmætari sem mótvægi við yfirborðsæsing samtímans. Sáangi sem vex einna mest innan ferðaþjónustu er s.k. «silent retreat» - þar sem er skapað umhverfifyrir fólk sem vill algert frí frá siðmenningunni, frí frá interneti, dagblöðum, sjónvarpi, símum en vera um leið í sambandi við náttúru. Þetta eru afar mannbætandi teikn, og minna á fornu gildin um að hlusta á hjarta sitt. Ég vil meina að ég hafi verið í «silent retreat» í Árneshreppi á sínum tíma, mín sköpunargáfa er að miklu leyti ávöxtur þeirrar meðferðar. Árneshreppur hefur marga möguleika.
Sumir miðevrópubúar hafa sagt mér að þeir fari til Íslands því þeim langar að skynja heilindi og sjá samstöðu lítils samfélags. Þeim finnst það heillandi að til sé ein þjóð á einni eyju með upphaf sitt varðveitt. Ég veit að ýmsir brosa að slíkum hyperbórískum (útópískum) hugmyndum, en enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Í dæmi Árneshrepps og Hvalárvirkjunar sé ég sögu Íslands upp á síðkastið. Fleiri en Árneshreppur hafa verið lögð á útboð hjá laissez faire Ltd.– mér sýnist t.d. húsnæðis- og leigumarkaður hafa liðið sömu örlög. Stærsta áskorun íslenskra stjórnvalda, eins og ég sé það utanfrá, er að vernda þegnanna gegn græðgismenningu síðkapítalismans. Það hefur þeim ekki tekist upp á síðkastið og í slíkum samfélögum veikist millistéttin. Eins og Aristóteles benti á í Politika fyrir margt löngu er alltaf stutt í byltingu þar sem millistéttin er veik, því það er í raun millistéttin sem verndar elítuna fyrir þeim lægst settu í samfélaginu. Og ef ekki bylting, þá verður fólksflótti og «braindrain» sem er í raun verra en bylting.
Í Hvalárvirkjunarmálinu eru efnin tvenn og þrenn fyrir mannfræðirannsóknir og margt að undrast. Retórík virkjunarsinna hefur smám saman orðið frumstæðari að mínu mati. Nú veit ég til dæmis að ég er á leið inn í kategóríu hins svokallaða náttúruverndarsinna. Það er kategóría hins firrta borgarbúa og rómantíkers, sem vælir yfir fossum sem enginn skoðar hvort eð er, þykist eiga allt og vill banna fólki að bjarga sér. Landið sem um ræðir «er jú bara grjót», er haft eftir oddvita Árneshrepps um svæðið sem á að raska í viðtali á Rás 2 í febrúar.
Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, lýsir því yfir í Morgunblaðinu (04. 05. 2018) að Vesturverk sé «ekki að hrófla við neinum svæðum sem teljast falleg á þessum slóðum.» Spyrja má hver hafi veitt Birnu Lárusdóttur umboð til að dæma um hvað sé fallegt og ljótt landslag, hvaða fagurfræði hún leggi til grundvallar og hvernig hún ætli að færa rök fyrir algildi hennar. Birna vísar í þá sem að «þekkja best til», og fullyrðir að það sé aðeins hægt að fara um svæðið einn mánuð á ári, eins og hún hafi aldrei heyrt á veðurspá minnst. Þórður Halldórsson í Laugarholti hefur hestaferðir um svæðið allt sumarið, á vetrin vélsleðaferðir. Almennt einkennist mál hennar af s.k. tvítali (double-speak), það er að tala þvert á það sem meinað er. « Stíflur hafi verið minnkaðar frá upprunalegum áætlunum», lón og efnistaka mun minnka osfr., segir Birna. Hið rétta er að virkjunin hefur vaxið úr 30 MW í upprunalegri áætlun upp í 55 MW. Látum duga af slíku tvítali.
Þar sem náttúruverndarsjónarmiðum hefur verið komið á nokkuð framfæri nú þegar, væri nær að byrja skoða dæmið fyrst á hreinum efnahagsforsendum, einkum út frá forsendum kapítalistískrar efnahagshugsunar og lögmálum almennrar verslunar.
„Af öllu að dæma virðist Hvalárvirkjun þvert á móti flýta fyrir eyðingunni.“
Litlu varð Vöggur feginn
Vigdís Grímsdóttir sendi fyrr á þessu ári fyrirspurn til sveitastjórnar Árneshrepps um beinan ávinning sveitarfélagsins af fyrirhuguðum framkvæmdum við Hvalárvirkjun. Einn sveitarstjórnarmeðlimur gerði sitt besta til að svara, en hafði því miður engin gögn fyrirliggjandi. Hann vísaði því spurninni áfram til oddvita Árneshrepps, Evu Sigurbjörnsdóttur. Hún gat ekki svarað heldur, og áframsendi því fyrirspurnina til framkvæmdaraðilans, Vesturverks, sem vitanlega er vanhæfur til slíkra svara. Þaðan hafa helst borist þau svör, að fasteignatekjur – sem eru einu mögulegu beinu tekjur hreppsins af framkvæmdinni – séu háðar talsverðri óvissu, enda sýnir það sig í afar mismunandi tölum.
Á þessum «vísindalega» grundvelli samþykkti sveitastjórn nokkru síðar að gefa grænt ljós á Hvalárvirkjun, með þremur atkvæðum gegn tveimur. Áður en þetta var samþykkt hafði sveitastjórn borist tilboð frá Sigurði Gísla Pálmasyni sem bauðst til að fjármagna úr eigin vasa kostamat af stofnun þjóðgarðs í Árneshreppi. Þarmeð hefði sveitastjórn getað vegið og metið þessar tvær ólíku leiðar – virkjun eða þjóðgarð, með gögn í höndum sem gerðu amk. grein fyrir samfélagsáhrifum annars þáttarins. Meirihluti sveitastjórnar hafnaði tilboði Sigurðar Gísla, þ.e. hafnaði málefnalegumundirbúningi fyrir þessa stóru ákvörðun. Sveitastjórnin komst að niðurstöðu í formálanum.
Lögmál verslunar eru þau að maður greiðir fyrir vöruna sem maður kaupir. Í efnahagslegu samhengi er það gjarna einn sem framleiðir hráefni, annar kaupir það og býr til vöru úr og selur með ágóða. Bakari sem kaupir inn hveiti og súkkulaði selur kökuna með eins miklum ágóða og markaðurinn leyfir – hann greiðir fyrir hráefni sitt, annars fær hann ekkert að baka úr. Í þessu dæmi ætlar sveitastjórn Árneshrepps að gefa hráefnið, tæp 40% af landssvæði hreppsins og megninu af öllum vatnsauðlindum þess, án þess að krefjast sýnilegrar greiðslu í staðinn.
Hagfræðideild Háskóla Íslands gerði úttekt á tekjum af slíkri virkjun og nema brúttó-tekjur Vesturverks af virkjuninni allt að tveimur miljörðum árlega er fram í sækir. Vesturverk er í meirihlutaeigu HS Orku. HS Orka var í meirihlutaeigu kanadíska Alterra Power Group, sem nú er í eigu hins kanadíska Innergex Renewable Energy. Ágóðinn af virkjuninni mun því renna mest í vasa útvalinna Kanadamanna, auk ítalsks baróns sem keypti Eyvindarfjörð fyrir nokkru og átti hlut í United Silicon á Reykjanesi, titlaður «Íslandsvinur» og «náttúru-unnandi». Um er að ræða einn íslenskan landeiganda sem tekjur fær af virkjuninni, eiganda Ófeigsfjarðar. Í byrjun árs voru 50 íbúar skráðir í Árneshreppi, það verður því einn ríkur og 49 fátækir í hreppnum, tölfræði sem virðist eiga við á fleiri stöðum á Íslandi. Virkjunin verður rekin mannlaus.
Hér hefur löggjöf margra landa reynt að fyrirbyggja einmitt slík tilfelli. Sem dæmi settu Norðmenn lög árið 1909 um svokallaðan «hjemfallsrett» fyrir alla virkjanastarfssemi í sínu landi. Þau ganga út á að framkvæmdaraðila (hér Vesturverk) er veitt rekstrarleyfi (konsesjon) frá stjórnvöldum (í þessu tilviki Árneshreppur) um tilskilinn tíma, t.d. í 50 eða 100 ár. Eftir að rekstrarleyfi rennur út eignast stjórnvöld umrædda virkjun til umráða fyrir sitt samfélag, og fá þannig hvorir nokkuð fyrir sinn snúð. Engin viðlíka lög eru til á Íslandi að mér vitandi, yfir Hvalárvirkjun virðist hin heilaga kenning um einkaeign sett til eilífðarumráða – menn eru að gefa erlendu auðvaldi íslenska náttúru til eilífðar.
Enn lifa í munnmælum sagnir af Degi á Felli norðan Krossness, sem seldi Skagstrendingum kássufúinn rekavið. Þegar Skagstrendingar undruðust þyngdina á gegnblautum viðnum, hafði Dagur viðkvæðið «það eru sumsé viðargæðin», og dugði til að þeir keyptu. Frægt er enn er Guðjón hreppstjóri á Eyri smíðaði líkkisturnar undir bresku og þýsku hermennina sem ráku á Strandir eftir Hood-orrustuna norðan Húnaflóa í seinni heimstyrjöldinni. Ólafur neitaði að afhenda Þjóðverjum og Englendingum líkin af sínum hermönnum nema þeir borguðu kisturnar. Þar voru tvö heimsveldi þvinguð til að borga. Ég sé ekki lengur neitt af viðskiptaviti Strandamanna í samningum við Vesturverk; engu líkara en það séu ekki eiginlegir Strandamenn sem ráði hér mestu um. Litlu varð Vöggur feginn segir í fornri bók – engu virðist hann feginn hér.
Það sem margir óttast í ofanálag er að þessi litla klofna byggð verði þvinguð til samruna við stærri sveitarfélög ef hún veikist enn frekar – þá fara jafnvel fasteignagjöldin úr sveitinni, hver sem þau annars verða. Vegasamgöngur til Árneshrepps munu á engan hátt batna. Rafmagnið lagt út á almennan markað, kaupandi er sá sem býður best og enginn trygging fyrir því að Vestfirðingar verði í þeim hópi – ef það er þá ekki draumurinn um sæstreng sem er hinn eiginlegi hvati hér. Óvissa um kaupanda rafmagnsins kemur fram í máli Gunnars Gauks í Mbl nýverið (24.04.2018), samtímis hefur þetta verið aðalröksemdin fyrir samfélagslegum áhrifum virkjunarinnar – að tryggja betra rafmagsöryggi á Vestfjörðum.
Látum sagt vera: Ef Hvalárvirkjun væri sú fórn sem þyrfti til að tryggja áframhaldandi byggð í Árneshreppi, væri sjálfsagt að skoða þann möguleika ásamt öðrum. Af öllu að dæma virðist Hvalárvirkjun þvert á móti flýta fyrir eyðingunni.
Lobbýismi fyrir opnum tjöldum
Þessi augljósa staða þar sem Árneshreppur hefur lítið sem ekkert úr býtum, hefur að mínu mati orðið til þess að Vesturverk hefur gengið á sveitastjórn og aðra íbúa og spurt hvernig þeir geti «styrkt innviði» og «hjálpað» þessari byggð, ef hún bara samþykkir Hvalárvirkjun. Það er rangt sem Gunnar Gaukur segir (Mbl. 24.04.18), að íbúar hafi «kallað eftir» aðstoð. Vesturverk bar upp slíkar spurnir á fundi með sveitastjórn. Eitt af því sem kom fram, var að skólahúsið á Finnbogastöðum þyrfti nýjaklæðningu.
«Við skulum mála skólann», var tilsvarið, og er enn haft í minnum þar í sveit. Gunnar Gaukur kallar þetta «endurbætur á skólahúsi» í sama viðtali - þetta er veruleikinn að baki og svo má um annað dæma. Það er vert að skoða þetta tilsvar rækilega. Í því kristallast gervallur andi framkvæmdaraðilans gagnvart þessari litlu byggð.
Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdarstjóri Vesturverks heldur áfram með gylliboðin fyrir opnum tjöldum í Morgunblaðinu (24.04.2018). Fyrirtæki hans býðst til að taka þátt í kostnaði við lagningu þriggja fasa rafmagns og ljósleiðara til hreppsins, ef af virkjun verður. Ástæðan: án þessa geta ekki framkvæmdir Vesturverks hafist.
Með sams konar mælskulist lýsi ég því yfir að ég muni persónulega taka þátt í að fjármagna þessi sömu verkefni ef ekki verður af virkjunarframkvæmdum. Veit ég að margir aðrir vinir Árneshrepps munu leggjast á sveifina með mér.
Þá eru svörin ekki minna loðin þegar kemur að útsvarstekjum hreppsins af öllum verkamönnunum. Þar talar Gunnar Gaukur fyrst um á annað hundrað miljónir (þ.e. ef allir starfsmenn eru skráðir með lögheimili í Árneshreppi meðan á framkvæmdum stendur). Hann bætir við að «óvissa sé um þetta» og að þetta krefjist mikils «utanumhalds og eftirfylgni».
Það er ekki að undra að framkvæmdarstjórinn nefni óvissu. Samkvæmt endurskoðuðum lögum fyrir Evrópska efnahagssvæðið(EES) hafa atvinnuréttindi fólks frá Evrópu og Austur-Evrópu verið rýmkuð til muna og ákvæði sett um frjálst flæði vinnufólks milli landa svæðisins (sjá m.a. atvinnulög EES-borgara nr. 47/1993). Í þessu felst að borgarar frá þeim 27 löndum innan EES geta fengið dvalarleyfi til allt að fimm ára hér á Íslandi, án þess að þess sé krafist að þeir skrái heimili sitt hjá þjóðskrá (Lög um útlendinga nr. 96/2002, VI. kafli). Hinsvegar er gerð krafa um slíkt fyrirverkafólk frá svokölluðum 3ju ríkjum, ss. fólki frá Afríku og Indlandi (Lög um útlendinga nr. 96/2002, 9.-11. gr.). Ég sé ekki fyrir mér að Vesturverk muni einungis leita til 3ju ríkja eftir starfskröftum í þessu tilviki, og ekki hafa þeir lýst því yfir né heldur. Að gera slíkar kröfur á verkamenn innan EES er í blóra við alþjóðasamþykktir sem Vesturverk mun ekki hafa bolmagn í að skora á hólm.
Gunnar Gaukur nefnir í sama viðtali að sundlaugin í Krossnesi yrði vinsæl meðal þeirra 200 verkamanna sem dveldu þar sumartímann. Er það eitt aðaldæmið um jákvæð áhrif á þjónustu í hreppnum á verktíma. Það er leitt að þurfa að benda á grundvallaratriði eins og að í Krossneslaug eru sturtur fyrir tvo af hvoru kyni. Laugin er að jafnaði full af ferðamönnum allt sumarið nú þegar.
Ég lýsi því yfir að ég muni persónulega taka þátt í kostnaði við byggingu nýrrar og stærri sundlaugar ásamt veitingasölu í Krossnesi ef ekki verður af virkjanaframkvæmdum. Þannig mætti tryggja sveitarfélaginu tekjur til mun lengri tíma, og skapa atvinnu til langframa.
Látum duga, þó áfram mætti telja dæmi af vinnubrögðum Vesturverks, kallað lobbýismi á erlendum málum. Niðurstaða greiningar á því efnahagsmódeli sem hér skal fylgt getur ekki samræmst kenningum Adam Smith eða nokkurra annarra um heilbrigðan kapítalisma eða almennum lögmálum verslunar. Eina kenningin sem menn hafa tengt við dæmið má rekja til síðkapítalistískra kenninga Chicago-skólans, sem Naomi Klein hefur kallað «Shock-doctrine» í samnefndri bók. Í stuttu og einföldu máli gengur það út á að fá hina grátandi ekkju til að skrifa undir samning þar sem hún afsalar sér eignum sínum. Brothættar byggðir og svæði sundruð eftir náttúruhamfarir eru hér hin ákjósanlegustu fórnarlömb.
Málið er að það land sem er verið að gefa erlendu auðvaldi, mun verða dýrmætara með hverju árinu sem líður samkvæmt skýrslu frá OECD sem gefin var út í fyrra um víðerni Evrópu – þar sem kallað er eftir því að lönd Evrópu geri sitt ítrasta til að varðveita slík svæði sem eftir eru. Ef af virkjun verður mun 1600 ferkílómetra svæði af ósnortnum víðernum verða rofið – tengingin frábæra milli Stranda og þjóðgarðsins á Hornströndum. Slík ósnortin víðerni munu í auknum mæli verða aðalaðdráttaraflið fyrir ferðamenn framtíðar, eins og þau eru nú á tímum, þegar ferðaþjónusta er orðin stærri en ál og fiskur samanlagt á Íslandi. Valgeir Benediktsson og Rakel dóttir hans hafa verið að byggja upp ferðaþjónustu í Árneshreppi. Slíkir sprotar sem gætu vaxið hvað mest, myndu fá kaldar kveðjur af rykinu af þeim 30 tonna trukkum sem á að siga á svæðið.
Það hefur verið áhugavert að sjá flokkspólitíkina í þessu máli. Þeir sem sjá lengra en sem nemur ársfjórðungi, sama hvaða flokki þeir tilheyra, eru á móti virkjuninni af hreinum efnahagsástæðum: Ísland tapar bæði tekjum og möguleikum í framtíð og fær alltof lítið í nútíð. Margir þessara tala um svik við komandi kynslóðir.
Jarðrask á öræfum er eitt, vegurinn inn á öræfin annað. Gera þarf t.d. veg fyrir þungaumferð um Ingólfsfjörð, og ljóst að það þarf að fara með veginn langt upp í hlíðar fjarðarins – vegslóðinn í fjörunni mun hvergi duga fyrir slíka búkollu-umferð. Ólafur Olavius ferðaðist um Strandir uppúr 1770. Hann notar hann orðið «fallegur» bara um einn fjörð í Reisubók sinni um Strandir: Ingólfsfjörð. Hann mun verða eitt allsherjar svöðusár ef af þessum framkvæmdum verður.
Það sem Rjúkandi hefur beðið sveitastjórn Árneshrepps að svara, er í samræmi við lög um náttúruvernd frá 2015. Þegar ráðist er svo gróflega á ósnortna náttúru, árfarvegi, fossaraðir og amk. tvö stöðuvötn sem njóta sérstakrar friðunar, þarf að rökstyðja það á þann veg að ríkir almannahagsmunir séu í húfi. Hvorki Rjúkandi né Landvernd hafa fengið að sjá slíkan rökstuðning.
Það sem einnig særir í þessu máli, er ekki bara hvernig komið fram við framtíðarkynslóðir, heldur einnig kynslóðir fortíðar. Nýlega fór ég um Ófeigsfjarðarheiði á vélsleða með Þórði Halldórssyni í Laugarholti. Þórður hefur haft atvinnu af að skipuleggja ferðir um svæðið í 30 ár og er miður sín yfir þessum áformum. Hann var að sýna mér vörður sem hafa verið að koma undan Drangajökli síðustu áratugina. Þær hleðslur eru sennilega frá síðasta hlýskeiði þegar jökullinn var minni, sem var á 9.öld. Þar sem á að byggja eitt lónanna er um forna þjóðleið að ræða frá Ströndum yfir í Djúp. Helming varðanna sem tilheyra þjóðgötunni fornu á að sökkva undir vatn. Í raun er um nokkurs konar kirkjugarð að ræða, þar sem margir hafa orðið úti á þessari heiði «hér hafa tærðir menn og bleikar konur reikað», eins og Stefán Hörður Grímsson orti «þau eru skuggar okkar». Það ætti að vera hægðarleikur að markaðssetja 1100 ára draugaþjóðleið fyrir göngugarpa framtíðar – vörðurnar standa enn. Þá er svæðið ekki fornleifaskráð. Vesturverk hefur beðið Minjastofnun umundanþágu sem gengur út á að hafa fornleifafræðing með sér meðan á framkvæmdum stendur, það er: grafa fyrst og og eyðileggja allt samhengi fornleifa, skrá síðan. Sumarið 2015 skoðaði ég tóftir af landnámsbænum í Eyvindarfirði, greinilega naustveggi má sjá þar enn. Ég veit ekki til að neitt af þessu sé skráð ennþá. Hvalárvirkjun myndi verða jafnmikið svik við fortíðar- eins og við framtíðarkynslóðir.
Vanhæfi og óþekkt vinnubrögð
Fjölmargar athugasemdir bárust til sveitastjórnar áður en hún samþykkti skipulagsbreytinguna fyrir Árneshrepp í lok janúar. Engu hefur verið fullnægjandi svarað, hvorki athugasemdum frá Rjúkanda, Landvernd né öðrum aðilum – þessvegna biður Skipulagsstofnun um þau sömu svör núna. Hér veltur allt málið á einu atkvæði sveitastjórnarmeðlims sem af öllu að dæma er vanhæfur vegna loforða sem framkvæmdaraðili hefur gefið honum. Þá er einnig loðið að sveitastjórn feli framkvæmdaraðilanum (Vesturverk sem kaupir þjónustu af Verkís), að sjá um breytingar á skipulagstillögu, sem ætti að vera hlutlaus aðili. Þá hefur áðurnefndur lobbýismi vakið grunsemdir um vanhæfi sumra sveitastjórnarmeðlima, út frá 2. mgr. 20. gr. sveitastjórnarlaga.
Rjúkandi lítur þannig á þessar sakar, að það eina sem gæti svarað kröfum réttlætis og almennra laga út frá stöðunni, er ef málið er lagt í hendur annars fólks til ákvörðunar. Það má vona að kosning til sveitastjórnar nú í lok maí, muni hleypa að fólki sem rannsakar í þaula kosti og galla af bæði virkjun og þjóðgarði – áður en endanleg ákvörðun er tekin. Núverandi sveitastjórn Árneshrepps virðist alfarið vanhæf um að taka slíka ákvörðun og þó snertir hún alla Íslendinga, bæði nú og í framtíðinni.
Bergsveinn Birgisson. Rithöfundur. Meðlimur í stjórn Rjúkanda, samtökum um verndun náttúru, menningarminja og sögu í Árneshreppi.
Athugasemdir