Það þarf ekki að fylgjast lengi með umræðu um borgarmál til að heyra einhvern býsnast yfir því að innan stjórnkerfis Reykavíkur sé starfrækt mannréttindaskrifstofa. Talað er um bruðl og gæluverkefni sem borgarbúar væru betur komnir án. Margir telja að rekstur mannréttindaskrifstofu geti varla talist til grunnþjónustu borgarinnar og vinsæl hagræðingarleið að leggja til að henni verði lokað, og mannréttindaráð lagt niður í leiðinni.
Sannleikurinn er allt annar. Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur umsjón með verkefnum sem við getum öll verið sammála um að séu gríðarlega mikilvæg fyrir alla borgarbúa. Ekki síst aðgerðir til að uppræta ofbeldi gegn konum og börnum.
Baráttan gegn ofbeldi
Barátta gegn ofbeldi, sérstaklega kynbundnu ofbeldi, hefur verið í brennidepli á þessu kjörtímabili og höfum við Vinstri græn beitt okkur fyrir því að hrinda af stað stórum verkefnum á sviði ofbeldisvarna síðan við mynduðum meirihluta með Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum árið 2014. Eitt af þeim verkefnum sem við erum stoltust af er opnun Bjarkarhlíðar þar sem þolendum ofbeldis er veittur mikilvægur stuðningur og ráðgjöf. Um tilraunaverkefni til þriggja ára er að ræða og mikilvægt að tryggja áframhaldandi fjármagn og stuðning til þessa mikilvæga verkefnis. Festum Bjarkarhlíð í sessi og eflum starfsemina í samræmi við aukna þörf fyrir þjónustu.
Ofbeldisvarnarnefnd var sett á laggirnar 2015 til þess að vera ráðgefandi á sviði ofbeldismála, leggja til aðgerðir gegn ofbeldi og stuðla að upplýstri umræðu í samfélaginu. Sama ár hóf Reykjavíkurborg samstarf við Lögregluna á Höfuðborgarsvæðiu um nýtt verklag í heimilisofbeldismálum. Markmiðið með verkefninu Saman gegn ofbeldi sem oft er kennt við „Suðurnesjamódelið“ er að bæta allt verklag við vinnslu heimilisofbeldismála, veita þolendum og gerendum viðeigandi stuðning og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi. Á þeim tíma sem verkefnið hefur verið starfrækt hefur náðst mikilvægur árangur við að ná til þolenda og veita þeim nauðsynlegan stuðning og eftirfylgd.
#Metoo
Við getum líka verið ánægð með þau skref sem stigin hafa verið til þess að rjúfa þögnina sem umlykur ofbeldi og leyfir því að viðgangast í samfélaginu. Mikilvægasta dæmið um mátt aukinnar umræðu um þessi mál er #MeToo byltingin. Í upphafi árs samþykkti Borgarstjórn 12 tillögur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundu ofbeldi. Aðgerðunum er ætlað að útrýma kynbundinni-, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í starfsumhverfi borgarinnar.
Stórsókn gegn samfélagsvanda
Þessi verkefni, og fjölmörg önnur, sem snúa að baráttu gegn ofbeldi, ekki síst kynbundnu ofbeldi og áreiti, eru eitt af mikilvægustu verkefnum Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem samræmir aðgerðir og fylgir þeim eftir. Í stað þess að gera lítið úr störfum Mannréttindaskrifstofunnar eða tala um að loka henni til að ná fram einhverjum óskilgreindum „sparnaði“ ættum við að sameinast um að efla hana enn frekar til að sinna fjölmörgum mikilvægum verkefnum sem snúa að því að allir borgarbúar geti lifað með reisn og að mannréttindi allra séu tryggð.
Við viljum vera frjáls undan hvers kyns oki og ofbeldi. Við eigum aldrei að gefa afslátt af réttindum jaðarsettra hópa í samfélaginu. Vinstri græn munu halda áfram að berjast gegn hvers kyns ofbeldi. Þannig sköpum við Reykavík sem er fyrir okkur öll.
Elín Oddný Sigurðardóttir, höfundur er formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar og skipar 2. Sæti á lista Vinstri grænna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Athugasemdir