Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur að málflutningur Pírata á Alþingi kunni að hafa grafið undan dómstólum landsins. Þetta kom fram í umræðum um frumvarp ráðherra til laga um Endurupptökudóm á Alþingi í síðustu viku.
Eins og Stundin hefur áður greint frá gerir frumvarpið ráð fyrir að dómsmálaráðherra fái meira svigrúm til vals á dómurum heldur en venjan er. Endurupptökudómur mun samanstanda af fjórum dómurum og fjórum varadómurum. Þrír dómaranna verða embættisdómarar tilnefndir af Hæstarétti, Landsrétti og dómstjórum héraðsdómstólanna. Fjórða staðan verður auglýst og skipað í hana samkvæmt reglum um hæfnismat dómnefndar um hæfni umsækjenda. Samkvæmt frumvarpinu skal hver tilnefningaraðili tilnefna tvo aðila til að sitja í dóminum, en ráðherra ákveður hvor verði aðalmaður og hvor verði varamaður. Einnig er dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómarastöður gert að „tilnefna tvo hæfustu umsækjendurna til setu í Endurupptökudómi, án þess að gert sé upp á milli hæfni þeirra og án þess að nefndin tilgreini hvor skuli vera aðalmaður og hvor varamaður“.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerði athugasemd við þetta fyrirkomulag í umræðum um frumvarpið. „Eina ástæðan fyrir því að ég hef eitthvað við þetta athuga er sú að miðað við vinnubrögðin sem hæstvirtur dómsmálaráðherra hefur sýnt, og sér í lagi viðbrögðin við eftirmálunum, gerir að verkum að ég vil helst ekki að hæstvirtur dómsmálaráðherra komi þar nokkurs staðar nálægt hver verði dómari yfir höfuð,“ sagði hann. Helgi sagði að sér þætti „eitthvað pínulítið súrrealískt“ að ræða við Sigríði Andersen um skipan dómstóls eftir allt sem á undan væri gengið.
„Ég segi bara eins og er, eins og ég hef sagt áður og greitt atkvæði samkvæmt, að ég treysti þessum sitjandi dómsmálaráðherra ekki á nokkurn einasta hátt til þess að setja dómstig eða skipa dómara. Það er enginn ráðherra sem ég get ímyndað mér sem ég treysti minna,“ sagði hann. „Það sem gæti kannski aðeins slegið á það, ef hæstvirtur ráðherra yfir höfuð kærir sig um það, sem ég reyndar efast um, þá mundi það hugga mig eilítið að vita að eitthvað hefði lærst við skipan Landsréttar og eftirmála þess sem gæti nýst hæstvirtum ráðherra til að standa sig betur í þessum málum.“
Sigríður vildi að Helgi Hrafn slægi af hrokanum
Sigríður Andersen svaraði Helga fullum hálsi: „Ég veit ekki hvort það mundi gagnast háttvirtum þingmanni að slá örlítið af yfirlætinu og hrokanum sem kom fram í andsvari hans um þetta mál. Það hefði kannski verið vænlegra til árangursríks samtals að óska eftir umræðum um eitthvert tiltekið atriði sem háttvirtum þingmanni hugnast ekki en háttvirtur þingmaður hefur greinilega ekki nokkuð við frumvarpið sem slíkt efnislega að athuga.“ Þá spurði hún hvort Helgi teldi mögulega „að almennir þingmenn megi eitthvað læra af því þingmannamáli sem varð hér að lögum árið 2013 og leiddi til stofnunar endurupptökunefndar sem Hæstiréttur og fleiri dómstólar hafa nú komist að niðurstöðu um að hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá“.
Helgi Hrafn sagði að eftir allt sem á undan væri gengið sýndi Sigríður hvorki iðrun né neitt sem benti til þess að hún myndi gera hlutina öðruvísi ef hún stæði aftur í sömu sporum og þegar hún skipaði Landsréttardómara í fyrra. „Og það er það sem hræðir mig. Ég stend ekki hér og tala svona við hvaða ráðherra sem er. Allir ráðherrar gera mistök, allir þingmenn gera mistök, öll gerum við mistök. Það er eitt og sér eðlilegt og allt í lagi. En við verðum að geta horfst í augu við þau og lært af þeim. Það er grunnkrafa á hendur þeim sem fer með jafn viðkvæmt vald og að setja dómara,“ sagði hann og bætti við: „Mig langar því að spyrja aðeins nánar. Ef hæstvirtur dómsmálaráðherra stæði aftur í þeim sporum sem hún stóð í í byrjun júnímánaðar og lok maí á seinasta ári, mundi hæstv. ráðherra gera hið sama?“
Umsækjendum dæmdar miskabætur og deilt um hæfi dómara
Sigríður sagði þá Helga Hrafni að líta í eigin barm. „Í þessum ræðustól eins og alls staðar annars staðar fljúga menn eins og þeir eru fiðraðir til. Þegar talið berst að undangreftri undan dómstólum landsins held ég að háttvirtur þingmaður sé meðal þeirra sem mættu íhuga hvort ræðumennska hans um þetta mál geti átt hlut að máli.“
Sem kunnugt er hafa Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafi brotið lög, 10. gr. stjórnsýslulaga, þegar hún skipaði dómara við Landsrétt í fyrra. Í þessu fólst að ráðherra sýndi ekki fram á – með fullnægjandi rannsókn og rökstuðningi í samræmi við þær kröfur sem á henni hvíla samkvæmt stjórnsýslulögum – að hún hefði skipað hæfustu umsækjendurna til starfans. Fyrir vikið hafa tveimur umsækjendum sem gengið var framhjá verið dæmdar miskabætur. Þá er deilt um það fyrir dómstólum hvort Arnfríður Einarsdóttir, einn þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru í trássi við hæfnismat dómnefndar, geti með réttu talist handhafi dómsvalds og bær til að dæma mál í Landsrétti.
Athugasemdir