Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og utanríkisráðherra Guðlaugur Þór neita því bæði á heimavettvangi að ríkisstjórn Íslands styðji aðgerðir Bandaríkjanna, Frakka og Breta í Sýrlandi. Segja bæði, að þau „hafi skilning á þeirri ákvörðun“ en neita alfarið að hafa lýst eða muni lýsa stuðningi við hana. Fulltrúar flokks Katrínar á Alþingi, þ.á.m. varaformaður utanríkisnefndar, lýsa sig andvíga þessum ákvörðunum og eru þá væntanlega að tala fyrir hönd flokks síns.
Lýgur Stoltenberg?
Á sama tíma kemur framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, og lýsir því yfir, að öll aðildarríki NATO styðji umræddar aðgerðir. Á bak við þá yfirlýsingu framkvæmdastjórans liggja ákvarðanir ríkisstjórna allra NATO landa – þ.á.m. ríkisstjórnar Íslands. Fulltrúar hennar – erindrekar forsætisráðherra og utanríkisráðherra á vettvangi NATO - hljóta að hafa gefið slíkar yfirlýsingar fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar. Gerðu þeir það í óþökk eða án samþykki ríkisstjórnar Íslands? Eða var Jens Stoltenberg að ljúga?
Gamall kunningi
Á flestu átti ég von en seinast því, að utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins myndi skirrast við að lýsa stuðningi við sameiginlegar yfirlýsingar NATO ríkja. Afstaða Vinstri grænna er hins vegar gamall kunningi. Þar skirrðust menn gjarna við að taka afstöðu gegn Sovét-Rússlandi á meðan svo hét og voru þess lítt áfjáðir að gagnrýna austantjaldsríkin eins og lesa má um í sjálfsævisögu Svavars Gestssonar þegar hann sagði frá því, að fyrrum formaður hans, Lúðvík Jósefsson, hefði skýrt stjórnvöldum í Austur- Þýskalandi frá því, að Svavar væri ekki nógu talhlýðinn og vinsamlegur við þau. En að íslenska íhaldið skyldi fylgja í fótsporin kom mér mikið á óvart. Hvað skyldi ritstjóri Morgunblaðsins, gamall samstarfsmaður og kunningi, segja við því? Það væri athyglisvert að sjá. Sjálfstæðisflokkurinn og VG með sömu stefnu gagnvart NATO! Vilja í hvoruga löppina stíga! Standa á öðrum fæti þar á vettvangi. En á hinum fætinum hér heima. Hoppa svona á víxl.
ES.
Í gærkvöldi hlustaði ég á Katrínu forsætisráðherra svara spurningum í fréttum Stöðvar 2. Þar sagði hún, að sinn flokkur hafi verið andvígur aðild Íslands að NATO og sú afstaða flokksins væri óbreytt. Ég trúði varla mínum eigin eyrum. VG var ekki til þegar ákveðin var aðild Íslands að NATO. Eini stjórnmálaflokkurinn, sem afstöðu tók gegn því hét Sameiningarflokkur alþýðu, sósíalistaflokkurinn og var arftaki Kommúnistaflokks Íslands. Hafði sömu óbreyttu afstöðuna til Rússlands og fylgiríkja þess og svo til varnarsamstarfs vestrænna ríkja. Lítur Katrín svo á, að hún gegni formannshlutverkinu í þessum flokki? Er VG í hennar huga sami stjórnmálaflokkurinn og áður hét Sameiningarflokkur alþýðu, sósíalistaflokkurinn og þar áður Kommúnistaflokkur Íslands? Yfirlýsing Katrínar Jakobsdóttur skýrir margt, sem áður var óskýrt. Þ.á.m. hennar eigin málflutning.
Athugasemdir