Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt fram tvær fyrirspurnir á Alþingi til dómsmálaráðherra um útgjöld vegna hælisleitenda, fjölda þeirra og dvalartíma hér á landi síðustu fimm ár. Hann spyr hvaða aðgerðum stjórnvöld hafi beitt til að stytta dvalartíma hælisleitenda og hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar í því efni. Ólafur spyr jafnframt um fjölda og meðaldvalartíma hælisleitenda sem snúið hafa aftur eftir að hafa verið synjað um vernd og fengið lögreglufylgd úr landi.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur ítrekað borið saman kostnað við móttöku flóttamanna og skort á úrræðum fyrir fátækt fólk á Íslandi. Flokkur fólksins vill einungis taka á móti 50 kvótaflóttamönnum á ári og að málefni hælisleitenda séu afgreidd með skilvirkum hætti „að norskri fyrirmynd“ innan 48 klukkustunda.
Ólafur hefur áður kvartað undan því á Útvarpi Sögu að hópur fólks skyldi vilja hjálpa sýrlenskum flóttamönnum og reyna að koma í veg fyrir neyð þeirra, þegar þeir sömu hjálpuðu ekki til við að lágmarka hækkun verðtryggðra fasteignalána. „Þetta er sama fólkið og horfði upp á heimili samlanda sinna, Íslendinga, fjölskyldnanna brenna hérna af völdum verðbólgunnar,“ sagði Ólafur.
Fyrirspurnirnar í heild
Fyrirspurn til dómsmálaráðherra um útgjöld vegna hælisleitenda:
Hver voru árleg heildarútgjöld ríkissjóðs og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árin 2012–2017 vegna málefna hælisleitenda og hverjir eru einstakir þættir þeirra útgjalda á sviði löggæslumála, landamæravörslu, skólamála, heilbrigðismála og velferðarmála?
Fyrirspurn til dómsmálaráðherra um fjölda hælisleitenda og dvalartíma þeirra hér á landi:
1. Hver var fjöldi hælisleitenda og hversu margir fengu hæli hér á landi á árunum 2012–2017? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
2. Hver var meðaldvalartími þeirra hælisleitenda hérlendis sem fengu synjun erindis á sama tíma? Hver var lengsti dvalartíminn og hvernig var dreifing hans?
3. Hvaða þættir hafa helst áhrif á dvalartíma hælisleitenda? Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að stytta dvalartímann, hver er árangur þeirra aðgerða og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?
4. Hver er fjöldi og meðaldvalartími hælisleitenda sem snúið hafa aftur eftir að hafa verið synjað um vernd og fengið lögreglufylgd úr landi á árunum 2012–2017? Hver var lengsti dvalartíminn og hvernig var dreifing hans? Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að fyrirbyggja slíkar endurkomur og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?
Athugasemdir