Undirbúningur gangsetningar kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík var ónógur af hálfu rekstraraðila og stjórnun menungarvarna og búnaði var ábótavant. Þetta kemur fram í skýrslu Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis félagsins, sem birt var á vef Alþingis í dag.
„Ljóst er að málefni Sameinaðs sílikons hf. eiga sér engin fordæmi hérlendis,“ segir í skýrslu ráðuneytisins. „Mikilvægt er að læra af þeirri reynslu sem hér hefur skapast en þessi skýrsla auk skýrslu Ríkisendurskoðunar eru mikilvægir hlekkir í því, bæði hvað varðar þessa tilteknu framkvæmd sem og aðra mengandi starfsemi.“
Stjórn United Silicon óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í janúar, en rekstur verksmiðjunnar hafði stöðvast 1. september 2017. Á sama tíma kærði stjórn félagsins fyrrverandi forstjóra og stofnanda þess, Magnúsar Ólafs Garðarssonar, til Embættis héraðssaksóknara kæru um mögulega refsiverða háttsemi. Magnús er grunaður um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014, en hann hefur enga aðkomu haft að rekstri félagsins síðan í mars.
Stundin hefur áður fjallað um vafasöm viðskipti Magnúsar Ólafs en honum gert að segja upp, ellegar verða rekinn, frá danska ráðgjafafyrirtækinu COWI fyrir nokkrum árum eftir að honum var gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína sem starfsmaður í hlutastarfi. Þá var fyrirtæki í hans eigu einnig sektað um tæpar sjö milljónir íslenskra króna í Danmörku vegna brota á réttindum pólskra verkamanna, sem voru sögð jaðra við mansal. Stuttu síðar fór félagið í þrot.
„Þær úttektir sem unnar voru leiddu meðal annars í ljós mikla óreiðu og upp kom rökstuddur grunur um fjárdrátt stofnanda félagsins,“ sagði í tilkynningu frá stjórn United Silicon í haust. „Einnig voru framkvæmdar ítarlega úttektir á búnaði verksmiðjunnar. Í skýrslu úttektaraðila kom fram að grunnhönnun ofnsins sjálfs væri góð en augljóst sé að ódýr og óvandaður jaðarbúnaður hafi orsakað tíðar bilanir og skapað erfiðleika við framleiðsluna. Mat sérfræðinganna sýndi að um 25 milljónir evra þyrfti til að verksmiðjan teldist fullkláruð.“
Rekstaraðili uppfyllti ekki kröfur
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, og fleiri Alþingismenn óskuðu eftir skýrslunni frá umhverfis- og auðlindaráðherra um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík og framtíð rekstrar. Í beiðninni var óskað eftir því að ítarleg greining yrði gerð á því hver eftirfylgni með verkferlum og endurskoðun þeirra hafi verið, kostnaður ríkisins og fyrirsjáanlegur óbeinn kostnaður af umhverfismengun.
Í skýrslunni kemur fram að Umhverfisstofnun hafi aldrei áður haft jafn umfangsmikið eftirlit með atvinnurekstri. Það endurspeglist m.a. í fjölda eftirlitsferða Umhverfisstofnunar í verksmiðjuna, kröfum um úrbætur, áherslu á upplýsingar til almennings og stjórnvalda, mati sóttvarnarlæknis á heilsufarsáhrifum og viðamiklum mælingum í grennd við verksmiðjuna. Hafi reynslan af eftirlitinu þegar verið nýtt við undirbúning starfsleyfa fyrir sambærilega starfsemi annarsstaðar, s.s. með ítarlegri ákvæðum um varnir gegn lyktarmengun við útgáfu starfsleyfis kísilverksmiðju PCC við Bakka á Húsavík.
„Um er að ræða viðamikið mál þar sem ljóst er að rekstraraðili uppfyllti ekki tilteknar kröfur í lögum og reglugerðum auk þeirra krafna sem settar voru fram af stjórnvöldum,“ segir í skýrslu ráðherra. „Þá var útgefið byggingarleyfi og mannvirkjagerð hvorki í samræmi við mat á umhverfisáhrifum né gildandi skipulag hvað varðar tiltekna þætti. Umhverfisstofnun brást við þegar frávik komu upp hvað varðar lyktarmengun frá starfseminni og beitti þeim úrræðum sem stofnunin hefur samkvæmt lögum. Reykjanesbær hefur einnig leitað til eftirlitsstofnana vegna máls þessa og gert tilteknar úrbætur auk þess sem til skoðunar eru frekari úrbætur vegna málsins.“
Í skýrslunni kemur fram að starfsleyfi United Silicon sé enn í gildi. „Verði af áframhaldandi starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík þurfa rekstraraðilar að uppfylla kröfur laga og reglugerða um viðkomandi starfsemi,“ segir í skýrslunni. „Í því sambandi þurfa í fyrsta lagi að liggja fyrir endanlegar úrbætur í tengslum við mannvirkjagerðina og skipulag af hálfu Reykjanesbæjar í ljósi þess að útgefið byggingarleyfi var ekki í samræmi við gildandi skipulag. Í öðru lagi er starfsleyfi Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík enn í gildi en Umhverfisstofnun hefur tilkynnt rekstraraðila um endurskoðun á því, m.a. vegna nauðsynlegrar uppfærslu vegna síðustu breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og útgáfu nýrra sambærilegra starfsleyfa. Í þriðja lagi hefur Umhverfisstofnun samþykkt úrbótaáætlun rekstraraðila með skilyrðum og kemur ekki til áframhaldandi starfsemi fyrr en þau hafa verið uppfyllt, þ.e.a.s. verksmiðjan hefur ekki heimild til endurræsingar fyrr en að loknu mati á endurbótum og sérstakrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar þar um. Í fjórða lagi ber rekstraraðila að tilkynna Skipulagsstofnun um allar þær breytingar á mannvirkjum, starfsemi og umhverfisáhrifum sem orðið hafa frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram og gera grein fyrir þeirri úttekt og aðgerðum sem unnið sé að undir stjórn Umhverfisstofnunar.“
Athugasemdir