Forstjóri norska laxeldisrisans Salmar A/S, stærsta einstaka hagsmunaaðilans í íslensku laxeldi, er hættur hjá fyrirtækinu vegna persónulegra ástæðna. Salmar er stærsti hluthafi stærsta íslenska laxeldisfyrirtækisins, Arnarlax á Bíldudal. Sagt var frá starfslokum forstjórans, Trond Williksen, í tilkynningum frá Salmar A/S sem fjölmiðlum bárust í vikunni en fyrirtækinu er skylt að greina frá starfslokum hans sökum þess að Salmar er skráð á norska hlutabréfamarkaðinn.
Einbeitir sér að sjálfum sér
Í tilkynningu frá Salmar er haft eftir Trond, sem tók við starfinu árið 2016, að hann hafi upplifað erfiða tíma síðastliðin ár, án þess að hann útskýri við hvað sé átt. „Salmar hefur skilað metrekstrarniðurstöðum síðustu misserin og við höfum skapað veruleg verðmæti fyrir hluthafa fyrirtækisins. Ég hef átt frábæran tíma hjá fyrirtækinu. Að stýra Salmar er bæði spennandi og krefjandi. Þeir sem þekkja mig vita að ég hef upplifað erfiða tíma síðastliðin ár og ég vil einbeita mér meira að sjálfum mér um hríð,“ sagði Trond Williksen í tilkynningunni. Við starfi Tronds tekur Olav-Andreas Ervik, sem verið hefur vinnslustjóri Salmar.
Talsverðar deilur og styr hafa staðið um laxeldi á Íslandi síðastliðin ár. Takast þar á ólík sjónarmið eins og byggða- og efnahagssjónarmið á Vestfjörðum og Austfjörðum annars vegar og svo náttúruverndarsjónarmið og hagsmunir veiðiréttarhafa og landeigenda hins vegar. Salmar A/S hefur eðlilega dregist inn í þessa umræðu vegna mikillar fjárfestingar fyrirtækisins í íslensku laxeldi í sjókvíum við strendur landsins en á sama tíma hefur fyrirtækið unnið að því að þróa umhverfisvænni lausnir í laxeldi meðal annars aflandseldi – fiskeldi í sjókvíum sem eru staðsettar lengst á hafi úti.
Sjókvíaeldi líka framtíðin
Stundin hefur meðal annars tekið viðtal við Trond Williksen út af fjárfestingum fyrirtækisins á Íslandi samhliða þróun Salmar A/S á aflandseldi. Í september í fyrra sagði Trond við Stundina: „Þróunin á úthafseldi á fiski er viðbót við sjálfbært laxeldi við strendur landa og í fjörðum. Möguleikinn á stækkun á strandsvæðum er takmarkaður og ef laxeldi á að þróast frekar sem atvinnugrein verður einhver að taka næsta skref og hefja fiskeldi úti á sjó til að framleiða sjálfbæran mat. Salmar er fyrsta fyrirtækið til að taka þetta skref.“ Hann sagði jafnframt að þrátt fyrir úthafseldið þá muni strandeldið í „allra nánustu framtíð verða aðalframleiðsluaðferðin á laxi í heiminum“. Sjókvíaeldi Salmar við strendur Íslands er því fjárfesting til framtíðar, miðað við þessi svör Tronds. ingi@stundin.is
Athugasemdir