Pólitískar ofsóknir daglegt brauð. Erum við næst?
Við sem fylgjumst með erlendum fréttum höfum undanfarna daga og vikur horft upp á umfangsmiklar ofsóknir gagnvart þjóðkjörnum þingmönnum, aðgerðasinnum og einstaklingum. Við horfum með undrun upp á fólk á flótta um alla Evrópu, kjörna þingmenn, einstaklinga og menningarfrömuði fangelsaða. Við höfum horft upp á opinbera starfsmenn og þingmenn setta af og í farbann, tjáningarfrelsi einstaklinga og fjölmiðla skert. Við sjáum myndir af lögreglu beita sitjandi fólk ofbeldi, eigur fólks gerðar upptækar ásamt fjölmörgum öðrum alvarlegum og ofbeldisfullum inngripum í lýðræðið. Ég er ekki að tala um Rússland eða Tyrkland, og hvorki um Pólland eða Ungverjaland, sem við elskum að sýna vandlæti, nei, þetta er að gerast í hjarta Evrópu, í ríki þar sem íbúarnir elska að borða saltfiskinn okkar og eru góðir í handbolta. Ég er að tala um Spán, en þar var einu sinni svo gott að djamma og djúsa.
„Þessar aðfarir eiga sér enga samsvörun í nútímasögu innan ríkja Evrópusambandsins og þótt víðar væri leitað“
Viðmið lýðræðisins þenjast út.
Spænska ríkisstjórnin, sem stendur fyrir þessum ofsóknum gagnvart friðsömum Katalónum, sjálfstæðissinnum, ætlar með þessu að reyna að beygja sjálfstæðishreyfingu Katalóna í duftið og notar til þess öll meðul, lögleg og ólögleg. Þessar aðfarir eiga sér enga samsvörun í nútímasögu innan ríkja Evrópusambandsins og þótt víðar væri leitað. Með þessu áframhaldi munu leikreglur og viðmið lýðræðisins og borgaralegra réttinda innan sambandsins þenjast út og taka á endanum til okkar allra. Það sem ein stjórnvöld komast upp með í þessu bandalagi gildir fyrir öll önnur.
Umbúðalaus aðför og glæpavæðing fjölmiðla.
Þessi aðför og afbökun að lýðræðinu er gerð alveg umbúðalaust frammi fyrir öllum lýð og sýnir okkur meira en flest annað hversu veikur lýðræðisrétturinn stendur innan álfunnar, þegar ekkert þjóðþing eða þjóðarleiðtogi fordæmir slíka aðför. Spænsk stjórnvöld og flestir spænskir fjölmiðlar fara fram fullkomlega skammlaust gagnvart friðsamri viðleitni Katalóna til að vinna að sjálfsákvörðunarréttinum. Borið hefur á því að alið sé á hatri gagnvart Katalónum á þessum vettvöngum og viðleitni þeirra glæpaveitt fullkomlega af bæði stjórnvöldum og flestum spænskum miðlum. Við vitum þó betur, og þurfum ekki spillt stjórnvöld eða spillta fjölmiðla til að segja okkur til um það sem við blasir.
Katalónar vilja stofna fullvalda lýðveldi.
Katalónar hafa reynt að brjótast undan spænsku krúnunni nokkrum sinnum undanfarin 400 ár, bæði með einhliða sjálfstæðisyfirlýsingum og lýðveldisstofnun og með því að verjast innrásum spænskra herja. Stofnanir þeirra eru einar þær elstu í Evrópu, sem og tungumálið og menning.
Katalónskir lýðveldissinnar hafa líka umboð þjóðar sinnar í dag til að vinna að þessum markmiðum sínum. Það er óumdeilanlegt, það hafa farið fram þrennar þingkosningar og tvær þjóðaratkvæðagreiðslur sem sýna það svo ekki verður um villst. Öll viðleitni þeirra hefur verið fullkomlega friðsamleg og lýðræðisleg, bæði í samtölum við Spánverja yfir 20 ára tímabil sem leiddi af sér stórgóðan samning og aukin réttindi þessarar þjóðar, en sá samningur var felldur úr gildi árið 2010 eftir kærur núverandi forsætisráðherra Spánar og við aðgerðir þeirra undanfarin 8 ár.
Þögnin er kolefnið sem herðir stálið í rimlunum.
Það er á ábyrgð allra þeirra sem hafa rödd innan sinna þjóðþinga og eiga gildandi aðkomu að vettvangi þar sem hægt er að reifa þessi mál að gera svo. Ef við hreyfum ekki andmælum við ítrekuð mannréttindabrot sessunauta okkar en ætlum að storma út og siða til og sýna öðrum vandlæti þá erum við að veita kolefnið í stálið sem rimlar þagnarinnar verða steyptir úr. Það er á ábyrgð hvers gildandi einstaklings að leggjast á árar réttlætis og lýðræðis hvar sem því verður við komið. Katalónskir þegnar, almenningur, opinberir starfsmenn, kjörnir fulltrúar og stofnanir ríkisins verða fyrir ofsóknum og ofbeldi af hendi bandamanna okkar, Spánar, og það er ábyrgð okkar að mótmæla þessu með öllum okkar ráðum, því ef ekki, þá erum við næst!
Ætlar Spánn að verða Tyrkland V-Evrópu?
Ef svo þá er kannski kominn tími til að djamma og djúsa annars staðar.
Athugasemdir