Efnuðustu 218 fjölskyldur landsins áttu 201,3 milljarða króna í hreina eign á árinu 2016. Upphæðin nemur 6,3% af eigin fé landsmanna samkvæmt skattframtölum. 218 fjölskyldur eru 0,1% framteljenda til skatts. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Más Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar á Alþingi.
Tekjuhæstu 218 fjölskyldurnar fengu tæpa 49 milljarða króna í heildartekjur sama ár, eða 3,1% af tekjum landsmanna. Sama hlutfall var 1,3% árið 1997, en fór hæst í aðdraganda hruns, eða 10,2% árið 2007. Tekjuhæsta 1% fjölskyldna fengu 8,8% af heildartekjum árið 2016 og tekjuhæstu 5% fjölskyldna 22,2% af heildartekjum landsmanna.
Ljóst er af gögnunum að fjármagnstekjur eiga stóran hlut að máli þegar kemur að tekjuhæstu Íslendingunum. Heildartekjur tekjuhæstu 218 fjölskyldnanna án fjármagnstekna voru 15,9 milljarðar árið 2016, en tæpir 49 milljarðar að þeim meðteknum. Vægi fjármagnstekna minnkar eftir því sem farið er í lægri tekjubil.
Eignamestu 218 fjölskyldurnar áttu 201,3 milljarða króna í hreinni eign árið 2016. Þá átti eignamesta 1% fjölskyldna 612,6 milljarða króna og eignamestu 5% fjölskyldna tæpan 1,4 milljarð króna, eða 43,5% af hreinni eign framteljenda árið 2016. Til samanburðar eiga hin 95% landsmanna samtals 1,8 milljarða króna, samkvæmt framtalsgögnunum.
Einnig er ljóst að ójöfnuðurinn er enn meiri en tölurnar sýna, þar sem hlutabréf eru talin á nafnvirði í gögnunum og fasteignir á fasteignamatsverði. Raunvirði þessara eigna er öllu jöfnu hærra og eru þær hlutfallslega í eigu efnaðari hópa landsmanna. Einnig eru eignir í skattaskjólum undanskildar, hafi þær ekki verið taldar fram til skatts á Íslandi. Tveir samskattaðir aðilar teljast saman sem ein fjölskylda, óháð því hvort um sé að ræða hjón eða samskattað par.
Athugasemdir