Margir klóra sér í kollinum yfir þeirri sívaxandi misskiptingu sem rakin var í umfjölluninni hér að framan. Hvernig má það vera að árið 2017 eigi sex ríkustu einstaklingar heimsins jafn mikið og helmingur mannkyns, sem telur um þrjá og hálfan milljarð manna? Í byrjun árs 2016 átti fátækari helmingur mannkyns þó jafn mikið og 62 einstaklingar. Hvernig stendur á því að misskiptin vex svo hratt ár frá ári og í hvað stefnir ef fram fer sem horfir? Ýmislegt bendir til þess að hið vaxandi bil á milli hinna ríku og þeirra fátæku sé að ýta undir fylgi hægri popúlískra öfgaflokka víðsvegar að um heiminn og margir vilja meina að þetta sé einmitt einhver helsta hættan sem steðji nú að mannkyninu.
Stundin hafði samband við þau Þórólf Matthíasson, prófessor í Hagfræði við Háskóla Íslands, Kristínu Loftsdóttur, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, Eyju M. Brynjarsdóttur, sérfræðing við Heimspekistofnun Háskóla Íslands, Viðar Hreinsson sagnfræðing og ævisagnaritara í leit að svörum við þessum stóru spurningum. Hvað er hægt að gera til þess að bregðast við þessari þróun? Og hver er staðan á Íslandi í samhengi við önnur lönd? Það ríkir húsnæðiskreppa í landinu og sífellt fleiri hafa hreinlega ekki efni á leiguhúsnæði. Það hlýtur að teljast grafalvarleg staða sem hefur og mun hafa ýmsar félagslegar afleiðingar í för með sér? Gefum þeim orðið.
Athugasemdir