Ríkisstjórnin ætlar að draga úr útgjaldavexti ríkisins þegar hagvöxtur gefur eftir. Þetta telur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra „óhjákvæmilegt“ vegna þess að vöxtur tekjustofna verði ekki jafn mikill og áður. Á sama tíma, þ.e. á síðari hluta tímabilsins sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar tekur til, er þó stefnt að því að lækka tekjur ríkissjóðs um tæplega 25 milljarða á ársgrundvelli með skattalækkunum, svo sem lækkun tekjuskatts, tryggingagjalds og bankaskatts.
„Á undanförnum árum hafa útgjöld ríkissjóðs aukist mikið og einnig er gert ráð fyrir að svo verði á fyrsta ári áætlunarinnar. Óhjákvæmilega verður ekki hægt að viðhalda jafn miklum útgjaldavexti á næstu árum enda rénar hagvöxtur og þar með vöxtur tekjustofna,“ segir í umfjöllun um stefnumið og helstu niðurstöður ríkisfjármálaáætlunar í greinargerð sem fylgir henni.
Að þessu leyti virðist sem ekki verði rekin sveiflujafnandi útgjaldastefna á kjörtímabilinu heldur þvert á móti; útgjöld verði aukin mest þegar hagvöxturinn er mestur en haldið verði aftur af útgjöldunum þegar hagvöxturinn rénar. Hagfræðingar sem Stundin hefur rætt við furða sig á þessu og benda á að almennt sé skynsamlegra að beita útgjaldastefnu hins opinbera til sveiflujöfnunar, þvert á hagsveifluna, til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Á tekjuhlið fjármálaáætlunarinnar er þetta gert í ríkari mæli, en á síðari hluta áætlunartímabilsins er reiknað með að skattalækkanir nái hámarki. Tekjuráðstafanir til lækkunar nema 22,4 milljörðum árið 2022 og 24,5 milljörðum árið 2023.
Athugasemdir