Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur „lélegt fjármálalæsi hjá almenningi“ vera eina af helstu áskorunum sem stjórnvöld standa frammi fyrir á sviði fjölskyldumála. Fjárhagsvandi ungs fólks, meðal annars tekjulágra einstaklinga á leigumarkaði, bendi til þess að þörf sé á eflingu fjármálalæsis og aukinni fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Þetta kemur fram í greinargerð sem fylgir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram í gær.
Í kafla greinargerðarinnar um stefnumótun á sviði fjölskyldumála er fjallað um helstu áskoranir sem stjórnvöld standa frammi fyrir á sviði fjölskyldumála.
Þar er að finna sérstaka efnisgrein (bls. 354) um fjárhagsörðugleika og skuldavanda ungs fólks, en útgangspunkturinn er sá að fjármálalæsi sé slæmt og úr því þurfi að bæta. Hér má lesa efnisgreinina í heild:
Eins og Stundin greindi frá í gær felur fjármálaáætlunin í sér að húsnæðisstuðningur dregst saman úr 13,4 milljörðum á fjárlögum ársins 2018 niður í 11,7 milljarða árið 2023. Þetta er einkum vegna þess að framlög til byggingar leiguíbúða munu lækka um helming þegar sérstöku átaki frá 2016 lýkur árið 2019. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur bent á að ekki virðist gert ráð fyrir viðbótarframlögum til vaxta- og barnabótakerfisins í fjármálaáætlun. Þá er stefnt að því að útgjöld til lista, menningar, íþrótta-, æskulýðs- og lýðheilsumála dragist lítillega saman. Hins vegar eykst framlag til Fæðingarorlofssjóðs sem nemur um 2,3 ma.kr. á fyrsta ári áætlunarinnar. Þar af eru 700 milljónir áætlaðar til hækkunar á hámarksgreiðslu til foreldra í fæðingarorlofi upp í 600.000 kr. á mánuði. Þá verður samtals 600 milljónum varið til snemmtækrar íhlutunar í málefnum barna og aðgerða í þágu efnalítilla barnafjölskyldna.
Athugasemdir