Fyrir síðustu alþingiskosningar kom öryrki til mín með tár á hvarmi og sögu. Hans saga er saga þúsunda öryrkja um allt land. Hann stundaði eilitla atvinnu og með samviskusemi hafði þessi einstaklingur uppgefið Tryggingastofnun eins og best var á kosið á hverjum tíma um viðbótaatvinnutekjur. Samt fékk hann tæplega tvö hundruð þúsund króna bakreikning frá Tryggingastofnun og það skildi greiðast um það leiti sem jólahátíðin var að hefjast. Þrátt fyrir skerðingu á örorkulífeyri og viðbótarskerðingu á húsaleigubótum með smá atvinnutekjum, þá getur Tryggingastofnun ekki boðið uppá mánaðarlega samkeyrslu við nýtingu á skattkorti. Við lifum árið 2018 og hér er talað um rafrænt skattkort. En það gildir greinilega ekki fyrir öryrkja.
Verandi alinn upp af foreldra á örorku þekki ég af eigin raun að sá hópur er samfélagsleg auðlind. Á hverjum degi vakna þúsundir Íslendinga með örorku og vinna félagalega mikilvæg hlutverk. Örykjar eru pabbar og mömmur, afar og ömmur og frændur og frænkur. Þrátt fyrir ólíkar og mismunandi skerðingar fólks á örorku taka þeir jafnan mikinn þátt í að bæta nærsamfélagið. Sjálft orðið „öryrki“ þýðir einmitt framleiðandi úr minni gæðum en almennt gengur og gerist. Þar er átt við skerðingar þeirra sjálfra en ekki að þeir hafi sjálkrafa minni fjárhagsleg gæði. Það er samfélagsleg ákvörðun.
„Eins undarlegt og það er virðist erfiðast að ná fram breytingum þar sem allir græða en ekki bara fámenn klíka eða hópur.“
Við hvern dag sem líður frá mánaðarmótum dregur út tækifærum öryrkja til samfélagslegrar þátttöku. Ástæðan er að kjör þeirra eru verulega takmörkuð um leið og þeirra skerðing veldur kostnaðaraukningu við samfélagslega þátttöku. Þannig getur fólk með óskerta getu valið að reka ekki bíl með tilheyrandi kostnaði en flestir öryrkjar hafa ekki slíkt val. Hvernig á bakveikur einstaklingur að bera innkaupapokana heim að dyrum án þess að hafa til umráða bíl og hafa fyrir rekstrarkostnaði. Í dag fær einstæður öryrki greitt frá Tryggingastofnun rúmar 243 þúsund krónur eftir skatt. Fyrir þau „laun“ þarf viðkomandi að reka heimili (leiga, rafmagn, hiti, net og sími), bifreið og greiða fyrir lyf og önnur heilbrigðisútgjöld. Það sér hver maður að örorkulífeyrir dugar jafnvel skammt fyrir algjörum nauðsynjum svo sem þaki yfir höfuðið, samgöngum og mat.
Jarðvist okkar í takmarkaðan tíma er lífsins mesta gjöf. Hún þarf og á að vera svo miklu meira en bara komast af. Hversu margir öryrkjar hafa launalegt tækifæri til að fara á tónleika í Hörpunni eða sækja leiksýningu í Þjóðleikhúsinu. Jafnvel einföld bíóferð þýðir kostnaðarauka sem margir öryrkjar geta sjaldan leyft sér. Við höfum alltof lengi heft tækifæri fólks með líkamlegar og andlegar skerðingar til samfélagslegrar þátttöku og almennra lífgæða. Það eru lágmarks mannréttindi að fá í hið minnsta tækifæri til þess að tilheyra og taka þátt.
Eins undarlegt og það er virðist erfiðast að ná fram breytingum þar sem allir græða en ekki bara fámenn klíka eða hópur. Ef öryrkjar fengu alvöru tækifæri til hlutavinnu, greiða þeir fullan skatt af þeim tekjum. Tekjur sem hægt væri að nýta í samgöngu-, heilbrigðis- eða menntakerfið. Ég vona að einn daginn skilji samfélagið okkar að örykjar eru vannýtt auðlind. Það eina sem við þurfum er að leyfa þeim að taka þátt í að skapa verðmæti og annan samfélagslegan auð.
Athugasemdir