Forsætisráðherra hélt til Þýskalands á dögunum á fund Angelu Merkel kanslara Þýskalands. Sjálfsagt var þetta mikill áfangi í lífi Katrínu Jakobsdóttur og þó ég geti fundið fyrir stolti af afreki Katrínar að vera kona í þeirri stöðu að hitta svo fræga konu sem Merkel, skemmir það fyrir mér að fórnin var stór. Sagt var að þær hefðu rætt stöðu flóttamanna en eins og allir vita er Angela Merkel einstakur stuðningsmaður flóttamanna. Ég býst því við að forsætisráðherrann okkar hafi verið heiðarlegur og sagt Angelu Merkel að dómsmálaráðherra Íslands hefði verið rétt í þessu að herða reglur útlendingalagana á Íslandi.
Oddviti VG í Reykjavík Líf Magnúsdóttir sagði í Silfrinu að Vinstri græn vildu komast í ríkisstjórn til að hafa áhrif og koma málefni sínum í framkvæmd. En síðan það gerðist að Vinstri græn komust í ríkisstjórn og þar með í þá aðstöðu að koma sínum baráttumálum í framkvæmd hefur ekki bólað á þeim, að minnsta kosti ekki þeim baráttumálum sem ég hlustaði á og kaus þá til að gera og þeir tefldu fram í kosningarbaráttunni. Öll fallegu loforðin sem gefin voru um bættan hag almennings, til dæmis að eyða spillingu og bæta hag fátækra, þeim hefur ekki verið fullnægt. Að mínum dómi hafa engin þeirra baráttumála sem VG talaði mest fyrir í kosningabaráttunni fengið forgang síðan þeir settust í forsætið.
Mér er næst að halda að það séu engin málefni lengur í flokki VG, að þau hafi runnið í eitt með Sjálfstæðisflokknum og orðið þar að engu. Það virðist vera að kaup kaups hafi átt sér stað og verslað hafi verið með forystusætið fyrir málstaðinn. Betri og réttlátari kjör fyrir almenning urðu að engu eða var þetta kannski aldrei heitur baráttumálstaður hjá VG? Ekki heyrist heldur lengur frá formanninum að fordæma óheyrilega kauphækkanir ráðamanna í öllum efri stöðum þjóðfélagsins. Ekki heyrist lengur minnst á spillingu eða skiptingu auðs á Íslandi. Er nema von að manni blöskri þegar oddviti VG kemur fram fyrir alþjóð og segir þessi orð: „Við viljum komast í þá stöðu að koma okkar málefnum að.“ Ég spyr: „Eruð þið ekki komin þangað núna?“ Eða var oddvitinn ef til vill aðeins að tala um Reykjavík? Skiptir það máli? Er stefnan ekki sú sama í öllum flokknum?
Hvað varð um þau málefni sem við kusum VG til að gera? Hefðu flokksmenn VG setið þegjandi hjá og látið það viðgangast að dómsmálaráðherra sæti áfram í stjórninni ef þeir hefðu ekki braskað með forsætisráðherrastólinn. Dómsmálaráðherra sem brýtur lög. Dómsmálaráðherra sem finnst ekki að það þurfi að herða refsingar á kaupum af vændi þó lögreglan sé að kalla eftir hjálp við að ráða við þá aukningu sem orðið hefur á vændi hér á landi. Svo sem ekkert nýtt dómsmálaráðherra hefur þegar sýnt þjóðinni æ ofan í æ hvernig hún hugsar og að hún sé sérfræðingur í málunum og að það sé hún sem ræður.
Var þessi stóll ekki frekar dýrkeyptur? Ritari Sjálfstæðisflokksins sagði í viðtali um daginn „okkar stjórn“ sem sýnir að forsætisráðherrastóllinn var enginn þyrnir í augum Sjálfstæðismanna, í þeirra augum er þetta stjórn Bjarna Ben og hann ræður, hver svo sem situr í stóli forsætisráðherra. Sjálfstæðismenn hljóta að hafa verið með þetta á hreinu í upphafi en að mínum dómi keypti VG stólinn of dýru verði. Voru þetta bara viðskipti og allt leyfilegt? Vinstri græn létu plata sig enda ekki eins sleipir enn sem komið er í viðskiptalífinu. En græðgi er smitandi og lærist fljótt.
„Það hefur ekki náð eyrum Sjálfstæðismanna að aldraðir svelti heima hjá sér“
„Gerum lífið betra!“ Var kjörorð landsfundar Sjálfstæðismanna. Heldur óheppilegt kjörorð þar sem allir vita að átt er við „betra“ fyrir Sjálfstæðismenn, enda sýndu þeir það með því að „þeir“ætla að lækka skatta í 25% auðvitað í % tölu svo augljóst er hverjum það á að koma til góða. Kannski vilja þeir ekki vita af þeim hópi almennings sem þrælar sér út á lágum launum eða lifir á skammarlega lágum ellilaunum og ekki nema von sá hópur hafi gleymst því enginn flokkur hefur stéttaskipt Íslensku þjóðinni eins hrikalega og Sjálfstæðisflokkurinn. Las ég rétt að formaðurinn hafi sagt í ræðu sinni á landsfundinum að styrkja þyrfti innviði þjóðfélagsins? Ekkert hefur komið frá Sjálfstæðisflokknum í öllum þeim stjórnum þeir hafa setið í, sem styrkt hefur innviði en aftur á móti allt til brjóta niður félagslega stoð við innviði. Menntakerfinu hefur hrakað, samgöngukerfið er í molum. Það hefur ekki náð eyrum Sjálfstæðismanna að aldraðir svelti heima hjá sér og þessar fáeinu krónur sem bætt var í laun til aldraða sem búa einir komu ekki að gagni fyrir þann hóp þar sem ráðstöfunartekjur þeirra reyndust vera að meðal tali 180.000 krónur á mánuði. Það náði heldur ekki eyrum Sjálfstæðismanna að það bráðvanti hjúkrunarheimili fyrir aldraða.
Flokkur Vinstri Græn virðist dauður og að mínum dómi þegar verið jarðaður. Auðséð er að kjörorðið „Gerum lífið betra“ er aðeins fyrir Sjálfstæðismenn enda Landsfundurinn þeirra og um þá. Það er óþarfi að minnast á setu Framsóknar í þessari ríkisstjórn, maður man ekki einu sinni eftir því að þeir séu þarna. Ó jú menntamálaráðherrann hefur tekið á sig rögg og ég óska henni góðs gengis við að koma sínum góðu hugmyndum í framkvæmd.
Stefna Sjálfstæðismanna hefur verið að þjóðin verði að halda að sér höndum og að halda verði í stöðugleikan og greiða niður skuldir. Þessi stefna kemur aðeins niður á fátæku, ellihrumu og veiku fólki. Ég vildi óska að VG væri ekki dauður flokkur en risi upp frá dauðum og legði til að nota alla þá fjármuni sem sóað er í bónusa, hálauna kauphækkanir og allt peningasukkið og hagsmuna verkefnin til að greiða niður skuldir en setja það fé sem af landsins gæðum kemur til réttmætra eigenda; fólksins í landinu sem hefur það slæmt svo það öðlist „betra líf“. Já að VG sýni okkur að þeir ráði einhverju og að við kusum þá ekki að óþörfu. Að VG „geri lífið betra“ fyrir þá sem hafa ekki aðgang að tækifærum til að mata sinn krók. Til þess kusum við þann flokk og þess vegna komst hann á þing.
En á meðan fólk heldur áfram að kjósa þessa Gullkálfa í ráðastöður er því miður langt í land að breyting verði á. Það er hætta á að þarna verði þeir til langframa, því þeir munu svo sannarlega „gera SITT líf betra“ og draga að sér meiri völd til að styrkja stöðu sína til framtíðar.
Athugasemdir