Hver er munurinn á sjóbirtingi og „fjarðarurriða“? Sjóbirtingurinn er villtur sjógenginn fiskur en ekki „fjarðarurriðinn“ sem er eldisfiskur, alinn í sjókvíum við strendur Íslands. Og hver er munurinn á „urriða“ og „fjarðarurriða“? Fyrrnefndi fiskurinn er villtur ferskvatnsfiskur en sá síðarnefndi er eldisfiskur alinn í sjó. Eiginlega þyrfti þessi pistill ekki að vera lengri.
Þetta orð - „fjarðarurriði“ - er nýyrði sem fisksölufyrirtækið North Atlantic á Ísafirði hyggst nota í markaðssetningu og sölu á eldisfiski sínum. Hingað til hefur þessi eldisfiskur verið kallaður „regnbogasilungur“. Raunar er það svo að við gúggl á orðinu kemur einungis ein leitarniðurstaða um þessa nýju nafngift upp: Frétt úr vefmiðlinum BB.is á Ísafirði frá því mánudaginn 26. mars þar sem málinu var „skúbbað“.
Nafngiftin á sér hliðstæður í erlendum tungumálum. Í Noregi er amerískur regnbogasilungur, sem alinn er í sjókvíum þar við land, kallaður fjordørret á norsku í markaðssetningu fyrirtækjanna sem framleiða hann, fjord trout á ensku, fjordforelle á þýsku, trucha del fiordo á spænsku og fjord öring á sænsku. Vísindaheitið á þessari afurð er hins vegar yfirleitt tekið fram og sagt vera Oncorhynchus mykiss, sem er bandarískur regnbogasilungur/-urriði. Þetta er sami regnbogasilungur og hægt hefur verið að veiða í gegnum tíðina í sleppitjörnum á Íslandi eins og Reynisvatni og Hvammsvík þó hann sé vissulega umtalsvert geðslegri sjóalinn. Nú hefur þessi markaðssetning náð til amerísks regnbogasilungs sem alinn er í sjó við Ísland.
„Regnbogaurriði er réttnefni og verður þessi fiskur kallaður það í framtíðinni.“
Framkvæmdastjóri North Atlantic, Víðir Ingþórsson, segir að það sé einfaldlega rangt að nota orðið „regnbogasilungur“ til að lýsa eldisfiskinum þar sem um sé að ræða urriða en ekki silung en að það orð sé samheiti yfir bleikju og urriða. „Regnbogaurriði er réttnefni og verður þessi fiskur kallaður það í framtíðinni. Það er mjög villandi að þetta sé kallað silungur. Til þess að aðgreina á markaði, bæði innanlands og erlendis, þarf að gera þetta. Þetta hafa allir þjóðir heims sem ala þennan fisk gert og við erum bara að fara að þeirra fordæmi.“ Víðir segir að Matvælastofnun muni senda frá sér yfirlýsingu um að kalla megi regnbogasilunginn „regnbogaurriða“.
Skilja má Víði þannig að ekki sé heldur hægt að nota hugtakið „regnbogaurriði“ í markaðssetningu á sjóalda regnbogasilungnum íslenska þar sem regnbogasilungur, sem ekki er sjóalinn og sem fæst á lágu verði í stórmörkuðum víða um Evrópu, sé markaðssettur undir heitinu „rainbow trout“ á ensku eða „regnbogaurriði“ á íslensku. Þar af leiðandi þurfi að aðgreina vandaðan sjóalinn regnbogasilung - „fjarðarurriða“ - frá lakari, ódýrari vöru - „regnbogasilung/-urriða“.
„Stofnunin hefur upplýst fyrirtækið að markaðssetning á regnbogasilungi sem sjóurriða samræmist ekki reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda og matvælalögum.“
Í máli Víðis kemur líka fram að North Atlantic hafi upphaflega viljað nota hugtakið „sjóurriði“ til að lýsa eldisurriðanum en að Matvælastofnun hafi ekki fallist á þá orðanotkun og talið hana „villandi“ sökum þess að sjóbirtingur gengur líka undir heitinu sjóurriði á íslensku og einnig í erlendum tungumálum sumum. Víðir segir að North Atlantic hafi tekið undir þetta sjónarmið Matvælastofnunar. Orðið „sjóurriði“ gefur jafnvel enn frekar til kynna að um sé að ræða villtan urriða og eðlilegra væri að ruglast á slíkum eldisfiski og sjóbirtingnum villta.
Þegar ég heyrði orðið „sjóurriði“ í fyrsta skipti í þessu samhengi á síðasta ári - þetta var í uppskrift sem einhver deildi á netinu - hugsaði ég strax: „Af hverju í andskotanum er verið að kalla villtan sjóbirting „sjóurriða“ - sjóbirtingur er fallegt orð?“ Þegar ég las uppskriftina kom hins vegar í ljós að um var að ræða regnbogasilung alinn í sjó.
Matvælastofnun hefur hins vegar hvorki samþykkt eða viðurkennt orðið „regnbogaurriði“ né „fjarðarurriði“ sem réttmæt heiti á regnbogasilungi. Hið eina sem stofnunin hefur gert er að segja að ekki sé hægt að nota orðið „sjóurriði“ um eldisfiskinn. Þetta kemur fram í svari Matvælastofnunar, Hjalta Andrasonar upplýsingafulltrúa, við spurningu Stundarinnar um málið: „Við höfum ekki upplýsingar um að samskipti hafi átt sér stað milli North Atlantic ehf. og Matvælastofnunar um markaðssetningu á regnbogasilungi sem regnbogaurriða eða fjarða-urriða. Matvælastofnun hefur ekki tekið afstöðu til notkunar þeirra heita. Einu samskipti sem hafa átt sér stað er varða heiti sem notuð eru við markaðssetningu á regnbogasilungi eru þau að stofnunin hefur upplýst fyrirtækið að markaðssetning á regnbogasilungi sem sjóurriða samræmist ekki reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda og matvælalögum.“
Viðleitni Northern Atlantic sýnir líka að eldisfyrirtækin og söluaðilar eldisfisks reyna að tengja sig við náttúruna og vilja skapa hugrenningatengsl við villtan fisk þegar þau selja eldisfisk. Þannig hafa verslanir eins og hinar bresku Marks & Spencer, Tesco og Waitrose kallað skoskan eldislax og regnbogasilung sem þær selja öðrum nöfnun en aðrar verslanir sem selja sama eldisfiskinn. Marks & Spencer kallar eldislaxinn sem verslanirnar selja „Lochmuir“ til að aðgreina hann frá norskum eldislaxi á þeim forsendum að þeirra eldislax sé betri og Tesco og Waitrose selja regnbogasilung sem „Loch trout“ sem er heiti sem yfirleitt er notað um villtan urriða. „Loch“ er gamla, skoska orðið yfir stöðuvatn í Skotlandi, tákn um villta náttúru og hreinleika hálandanna. Og lax frá íslenska laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi er seldur undir heitinu „Arctic caught“ í Ástralíu og er mynd af íslenska fánanum á pakkningunum - eldislaxinn er norskur og ekki íslenskur villtur lax - eins og laxinn sé fangaður við Íslandsstrendur.
En á þetta sjónarmið, um að ef nafngiftir á fiskum séu villandi þó eigi ekki að nota þær, ekki líka við um nafnið „fjarðarurriði“ þó það sé ekki eins villandi og sjóurriði? Fyrirtæki Víðis velur að nota ekki heitið „regnbogaurriði“ til að lýsa eldisafurðum fyrirtækisins - nafngift sem er í raun ekki villandi þar sem regnbogasilungur hvers konar er ekki til villtur í náttúru Íslands og er því alltaf nauðsynlega eldisfiskur - heldur „fjarðarurriði“. Mega laxeldisfyrirtækin þá ekki líka kalla sinn eldislax „fjarðalax“ til að aðgreina hann frá öðrum og mögulega lakari eldislaxi. Eldislaxinn á Íslandi er líka alinn í fjörðum við Ísland.
Á tímum þar sem matarsvik, svik með matarvöru þar sem ódýr vara er dubbuð upp sem dýr vara og vandað hráefni er jafnvel drýgt með ódýrara hráefni og eldisfiskur er seldur sem villtur fiskur, eru orðin að stóru vandamáli víða um heim og mikilvæg gróðalind fyrir skipulögð glæpasamtök þá er að minnsta kosti óheppilegt að íslensk fyrirtæki í matvælaiðnaði selji afurðir sínar með villandi hætti. Fólk vill ekki láta plata sig og matvælafyrirtæki eiga ekki að gera út á það að reyna að narra fólk sem stendur svo eftir með köttinn í sekknum, eða regnbogasilung með stimplinum: „Fjarðarurriði“.
Athugasemdir