Ein af ástæðunum fyrir því að Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður sjóðsstýringarfyrirtækisins GAMMA, hætti hjá fyrirtækinu í byrjun mars var kostnaðarsöm útrás fyrirtækisins til þriggja landa, Sviss, Bandaríkjanna og Bretlands.
Forstjóri GAMMA, Valdimar Ármann, hefur ekki viljað svara þeirri spurningu Stundarinnar hreint út af hverju Gísli hætti hjá fyrirtækinu en hann er annar af stofnendum þess og annar af stærstu hluthöfunum. Heimildir Stundarinnar herma hins vegar að útrás fyrirtækisins og kostnaðurinn við hana hafi verið ásteytingarsteinn innan fyrirtækisins þar sem Gísli var sá sem hvað helst stóð á bak við erlenda útrás fyrirtækisins.
GAMMA er sjóðsstýringarfyrirtæki með um 130 milljarða króna í stýringu í gegnum marga sjóði fyrir fjölda fjárfesta, stofnana- og fagfjárfesta, og hefur rekstur fyrirtækisins vakið mikla athygli á Íslandi á liðnum árum vegna stækkunar þess og vaxtar. GAMMA er einungis tíu ára gamalt fyrirtæki. Ekki liggur fyrir hverjir það eru sem eru á bak við einstaka sjóði hjá fyrirtækinu þar sem eigendur hlutdeildarskírteina í hinum ýmsu sjóðum þess eru ekki opinberir.
„Það var fyrirhugað að opna í Sviss en ákveðið að fara ekki lengra með það.“
Engin frekari útrás
Valdimar segir aðspurður að GAMMA ætli sér ekki í frekari útrás til annarra landa og að hætt hafi verið við að opna skrifstofuna í Sviss, nánar tiltekið í Zürich, eins og til stóð. Greint var frá opnun skrifstofunnar í Sviss á seinni helmingi síðasta átt og átti Helgi Bergs, fyrrverandi starfsmaður Kaupþings, að leiða starfsemi GAMMA í landinu. Heimilisfang GAMMA í Sviss stóð um tíma á heimasíðu GAMMA en ekki lengur. „Það var fyrirhugað að opna í Sviss en ákveðið að fara ekki lengra með það – eins og staðan er núna er ekki stefnt á opnun í öðrum löndum heldur er stefnan að byggja á skrifstofum okkar í London og New York,“ segir Valdimar í tölvupósti.
GAMMA mun því hægja á útþenslu sinni og hætta við hluta hennar. Á sama tíma hættir Gísli Hauksson hjá GAMMA.
Svara ekki um útrásina
Valdimar kaus að svara ekki þeirri spurningu Stundarinnar hvort stjórnendur GAMMA, hluthafar og sjóðsfélagar væru ánægðir með útrás GAMMA til annarra landa. „GAMMA er með skrifstofur í London og New York. Hvernig hefur sá rekstur gengið og er almenn ánægja með reksturinn hjá stjórnendum fyrirtækisins og hluthöfum?,“ spurði blaðið en fékk ekki svar.
Í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið sagði Valdimar hins vegar: „Það kostar sitt að vera með skrifstofur erlendis. Það er alveg ljóst.“ Valdimar sagði jafnframt að innlend starfsemi GAMMA hefði gengið mjög vel.
Stjórnarformaður GAMMA, Hlíf Sturludóttir, vildi heldur ekki svara spurningunni þegar eftir því var leitað: „Ég treysti mér bara ekki til að ræða það við þig núna.“ Nokkuð ljóst má telja að útrás GAMMA til annarra landa hefur ekki gengið sem skyldi.
Athugasemdir