Erfðarannsóknir eru nú að valda byltingu í þekkingu okkar á forsögu mannsins. Með því að rekja gen okkar langt aftur í tímann er hægt að búa til þokkalega sannfærandi mynd af því hvernig mannkynið kom til sögu, þróaðist og þroskaðist.
Meðal þess sem komið hefur í ljós með hjálp bæði erfðarannsókna og fornleifafræði er að mun fleiri manntegundir voru á kreiki fyrir nokkrum tugþúsundum og hundruðum þúsunda ára.
Stutt er síðan tilvist hinna svonefndu Denisova varð ljós en það var tegund sem var uppi um svipað leyti og Neanderdalsmennirnir - og við!
Splunkunýjar rannsóknir hafa sýnt að Denisovar virðast helst hafa verið á ferli í Asíu og blandast okkur þar. Allt að 3 prósent gena Asíubúa (einkum í Suðaustur-Asíu) er komið frá Denisovum. Það merkilega er að mannkynið virðist tvisvar hafa blandast Denisovum, líklega með alllöngu millibili, og hinir tveir hópar Denisova virðast hafa verið alveg aðskildir.
Evrópubúar hafa hins vegar 2 prósent gena sinna frá Neanderdalsmönnum, og merkilegt er að vísindamenn telja sig nú hafa uppgötvað að tilhneigin til ofnæmis hjá okkur mönnunum sé komin frá þessum tveim prósentum sem kynblöndun við Neanderdalsmenn færði okkur.
Einkum eru það frjóofnæmi, rykofnæmi og síðast en ekki síst kattarofnæmi sem við virðumst hafa fengið frá Neanderdalsmönnunum.
Margir hafa talið að ofnæmi sé að verulegu leyti nútímakvilli sem fylgi okkar „ofhreinsaða“ lífsmáta.
Nú virðist ljóst að svo er aldeilis ekki, ekki hvað þessi ofnæmi varðar að minnsta kosti.
En af hverju Neanderdalsmenn áttu svona erfitt með að þola ketti er önnur saga. Þeir voru raunar dánir út áður en kötturinn ákvað að taka sér bólstað hjá manninum.
Að minnsta kosti eftir því sem við best vitum.
Nútímamaðurinn lagðist semsé Neanderdalsmönnum. Kannski gengu Neanderdalsmennirnir ekki alltaf sjálviljugir til þess leiks. En þeir hefndu sín þá með ofnæminu.
Heimild mín að hinum ógnþrungnu ofnæmisfréttum er splunkunýtt frétt á CNN, sjá hér.
Athugasemdir