Þingmenn Bjartrar framtíðar urðu fyrir hótunum eftir að flokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn á síðasta ári. Voru hótanirnar meðal annars settar fram í símtölum undir númeraleynd. Þetta fullyrðir fyrrverandi þingkona Bjartrar framtíðar og segir hótanirnar hafi verið með þeim hætti að hún hafi orðið óttaslegin og dregið sig markvisst út úr umræðu eftir stjórnaslitin.
Theodóra Þorsteinsdóttir, fyrrverandi þingkona Bjartrar framtíðar, var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og lýsti þessum hótunum þar. „Okkur var ógnað, við fengum símtöl sem voru með þeim hætti við ættum að hafa hægt um okkur því það væru barnaníðingar innan Bjartrar framtíðar. [...] Við létum nú rannsaka eitthvað af þessum númerum. Þetta voru bara svona einhverjir menn sem hringdu.“
Theodóra sagði umrædd símtöl hafa verið mjög óþægileg, svo óþægileg að hún hafi ákveðið að draga sig markviss út úr opinberri umræðu eftir stjórnaslitin og lét ekki ná í sig. „Ég sinnti mínu starfi og kláraði þetta en ákvað síðan að draga mig út úr þessari umræðu. Þetta hafði þannig áhrif að ég var farin að líta í kringum mig þegar ég labbaði út úr þinghúsinu,“ segir Theodóra og játaði því aðspurð að hún hafi verið orðin hrædd.
Hótanirnar voru ekki kærðar til lögreglu, þó að Theodóra segi að ástæða hefði verið til, en þingmenn Bjartrar framtíðar hafi ákveðið að draga athyglina ekki að hótununum á þessum tímapunkti.
Athugasemdir