Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Nemendum haldið inni vegna loftmengunar

Svifryk hef­ur far­ið sex sinn­um yf­ir heilsu­vernd­ar­mörk í Reykja­vík það sem af er ári. Fram­bjóð­end­ur til borg­ar­stjórn­ar­kosn­inga eru sam­mála um að loft­meng­un sé vanda­mál og segja mik­il­vægt að leggja gjald á notk­un nagla­dekkja og efla al­menn­ings­sam­göng­ur.

Nemendum haldið inni vegna loftmengunar
Þurftu að vera inni Saga segir að henni og bekkjarsystkinum hennar hafi þótt skrítið þegar þau máttu ekki fara út í frímínútur vegna mengunar. Mynd: Hordur Sveinsson

Svifryk hefur farið sex sinnum yfir heilsuverndarmörk það sem af er ári í Reykjavík. Í fyrra fór svifryk 17 sinnum yfir mörkin. Mengunin er gjarnan verst við stórar umferðargötur og í Vesturbæjarskóla var brugðist við með því að halda börnum inni í frímínútum til að vernda þau fyrir menguninni á slæmum degi í mars.

„Mér fannst það skrítið og ósanngjarnt og dálítið leiðinlegt,“ segir Saga Evudóttir Eldarsdóttir, nemandi í 6. bekk í Vesturbæjarskóla. „Mér finnst leiðinlegt að bílarnir séu að menga svona mikið. Ég labba oft á æfingu hjá Hagaskóla og þarf oft að fara hjá Hringbraut. Það er oft mjög mikil mengun og stundum er mjög vond lykt. Maður þarf stundum að setja jakkann fyrir munninn. Ég mundi vilja að fleiri hjóluðu og löbbuðu eða notuðu strætó.“

Saga Evudóttir Eldarsdóttir

„Maður þarf stundum að setja jakkann fyrir munninn.“

Allir frambjóðendur til borgarstjórnarkosninga sem svöruðu fyrirspurn Stundarinnar telja svifryksmengun vera vandamál í Reykjavík. Nokkur samstaða er um aðgerðir, en þó áherslumunur á milli framboða, enda tengist loftmengun stórum málaflokkum sem snúa að almenningssamgöngum, borgarskipulagi, neyslustýringu og útgjöldum hins opinbera.

„Ég hef áhyggjur af því hvort að við séum að setja okkur í hættu með útiveru á þeim dögum sem mengunin er hvað mest,“ segir Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Astma- og ofnæmisfélagsins. „Þá er ég að hugsa um langtímaáhrif á lungu og öndunarveg. Í samtali við minn lungnalækni núna fyrir stuttu sagði hann að það væri varla til astmasjúklingur sem ekki fyndi fyrir menguninni sem verið hefur undanfarið. “

„Börnin átta sig síður á lélegum loftgæðum en við hin fullorðnu gerum og kvarta síður,“ segir Fríða. „Öndunarfæri barna eru viðkvæm og enn að þroskast og því er mengun mjög skaðleg fyrir þau. Reykjavíkurborg og sveitarfélögin þurfa því að sinna þessu eftirliti sérlega vel og hafa virkt upplýsingaflæði til þeirra sem sinna börnunum og bera ábyrgð á þeim á skólatíma.“

Allt að 80 dauðsföll rekin til fínna agna

Svifryk er flokkað með tvennum hætti. Annars vegar eru agnir undir 2,5 μm að stærð (PM2,5) og hins vegar agnir á bilinu 2,5-10 μm að stærð (PM10). Síðarnefnda útgáfan er sú sem reglulega fer yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík og er slit gatna ein helsta uppspretta þess að vetrarlagi og er þar helsti sökudólgurinn notkun nagladekkja. Fínni svifryksagnirnar eru að mestu tilkomnar vegna bruna eldsneytis, en samkvæmt árlegri loftgæðaskýrslu EEA metur stofnunin það svo að allt að 80 ótímabær dauðsföll megi rekja til útsetningar PM2,5 svifryks á Íslandi á hverju ári. 

PM10 er skráð sem krabbameinsvaldandi efni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Agnirnar eru svo smáar að þær komast djúpt inn í lungun við innöndun og geta haft margvísleg heilsufarsáhrif. Innöndun í miklu magni getur leitt til öndunarerfiðleika og í alvarlegum tilfellum hás blóðþrýstings, hjartaáfalls, heilablóðfalls og jafnvel dauða. Aldraðir, börn og þeir sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir. Tvær íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á sambandinu milli svifryksmengunar og notkunar astma- og hjartalyfja. Rannsóknirnar sýndu fram á aukningu í úttektum lyfja nokkrum dögum eftir að loftmengun vegna svifryks og brennisteinsvetnis jókst.

Svifryksmengun fer helst yfir heilsuverndarmörk þá daga sem loft er þurrt og stillt, einkum kalda vetrardaga. Þá getur mengunin safnast upp þar sem lítil hreyfing er á loftinu. Mengunin er mest við stórar umferðaræðar og nálægt verksmiðjum, en mælistöðvar eru einmitt staðsettar meðal annars við Hringbraut og Grensásveg.

 

Bílaumferð rót svifryksins

Heilsuverndarmörk PM10 svifryks eru 50 µg/m³ á sólahring og er leyfilegur fjöldi daga á ári yfir heilsuverndarmörkum 35 skipti. Sama viðmið var árin 2002-2005, en frá 2005 lækkuðu mörkin í þrepum og var frá 2010 heimilt að fara yfir mörkin sjö sinnum á ári. Eftir reglugerðarbreytingu í ráðherratíð Sigrúnar Magnúsdóttur árið 2016 var aftur heimilt að fara 35 sinnum yfir mörkin. Breytingin var í samræmi við viðmið Evrópusambandsins, en þau ganga skemur en ráðleggingar WHO. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur var mælt með óbreyttum viðmiðunarmörkum, sjö daga hámarki á ári og því að hámark á almanaksári yrði 20 µg/m³ á sólahring, en ekki hækkað upp í 40 µg/m³. Við þeirri ósk var ekki orðið. Telur WHO að í Evrópusambandinu séu meðaltals lífslíkur 8,6 mánuðum minni en ella, sem rekja megi til svifryksmengunar af mannavöldum.

Frambjóðendur sammála um ógnina

Fulltrúar framboðanna til borgarstjórnarkosninga í vor eru sammála um að loftmengun vegna svifryks sé vandamál í Reykjavík. Stundin sendi fyrirspurn á framboðin í borginni um loftmengun vegna svifryks. Svör bárust frá fulltrúum Alþýðufylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Vinstri grænna.

„Þetta mál verður ekki leyst með rifrildi um meint stríð gegn einkabílnum,“ segir í skriflegu svari frá framboði Pírata. „Við höfum trú á því að allir flokkar geti sameinast um lausnir sem virka. Það er þó áhyggjuefni að einstaka frambjóðendur virðast mjög uppteknir af því að skapa einhversskonar menningarstríð utan um þetta mál þrátt fyrir að þetta sé praktískt úrlausnarefni og þverpólitískt.“

Píratar nefna sem mögulegar lausnir gjaldtöku á notkun nagladekkja og aukin þrif á götum borgarinnar, en þó helst að almenningssamgöngur verði raunverulegur valkostur við einkabílinn. „Einnig eru vísbendingar um að bæta megi gæði malbiks þannig að það spænist síður upp en það þarf borgin að vinna með Vegagerðinni eins og rekstur gatnakerfsins er settur upp núna, svifrykið er mest í kringum þungar umferðaræðar sem Vegagerðin rekur,“ segir í svari Pírata. „Svo má skoða það að dreifa umferðarálaginu, til dæmis með því að stytta vinnuviku fólks og gefa því þannig meira svigrúm í því hvenær dags það fer í og úr vinnu.“

Hildur Björnsdóttir, sem skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir nauðsynlegt að horfast í augu við vandann. „Hann er augljós og hann er af mannanna völdum. Hegðun okkar í umferðinni má ekki bitna á lífsgæðum fólks og mannlífi í borginni. Rannsóknir hafa sýnt fram á marktæk tengsl milli mengunar frá bílaumferð og sjúkdóma á borð við astma, krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma. Mengunin hefur jafnvel verið talin hafa heftandi áhrif á lungnaþroska barna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur dísilútblástur vera sambærilega alvarlegan áhættuþátt fyrir lungnakrabbamein, og tóbaksreykingar.“

Hildur segir að til skemmri tíma væri ódýrt en áhrifaríkt að efla götusópanir, en einnig mætti hægja tímabundið á umferð með skipulögðum aðgerðum og veita frían aðgang að almenningssamgöngum þá daga sem mengun fer yfir heilsuverndarmörk. „Langtímaverkefnið væri stórefldar almenningssamgöngur,“ segir Hildur. „Ef hluti bílaeigenda sæi almenningssamgöngur sem raunverulegan valkost væri stór sigur unninn. Fleiri gætu valið að ferðast án bíls. Þannig yrði dregið úr mengun og umferðarflæði myndi aukast. Þetta gerist þó ekki fyrr en þjónustan verður stórbætt. Fjölga þarf ferðum, reisa upphituð skýli og leggja óhindraðar sérakreinar fyrir vagnana.“

Loks nefnir hún möguleikann á að skapa jákvæða hvata fyrir fólk til að sameinast í bíla, sem þá mættu nota sérakreinar fyrir almenningssamgöngur í þeim tilgangi. Þær akreinar mundu þá nýtast að hluta eins og þær sem erlendis ganga undir heitinu „carpool lane“.

Framsókn vill frítt í strætó

Ingvar Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins, segir lausnina vera að hvetja fólk til þess að nota vistvænar samgöngur og draga úr notkun nagladekkja. Einnig hefur flokkurinn það á stefnuskránni að bjóða frítt í strætó í 1 ár sem tilraunaverkefni og koma á samgöngustyrkjum til háskólanema fyrir að nota vistvænar samgöngur. Loks þurfi að sópa og þvo götur oftar og gróðursetja fleiri tré meðfram umferðarþungum stofnæðum.

Samkvæmt svari sem barst frá Viðreisn telur framboðið óásættanlegt að leikskólabörn sem og aðrir borgarbúar þurfi að sleppa útiveru vegna mengunar. Til þurfi að koma fleira en fyrirbyggjandi aðgerðir á borð við rykbindingu og eðlilegt viðhald gatnakerfisins. „Dæmi um þær aðgerðir gæti verið að fækka gömlum díselknúnum ökutækjum í borginni en útblástur þeirra er talin orsök vaxandi hlutfalls sóts í svifryki í Reykjavík, skoða takmarkanir á nagladekkjum eða álagningu,“ segir í svarinu frá Viðreisn. Almenningssamgöngur voru ekki nefndar sérstaklega.

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, segir að uppbygging rafknúins lestakerfis sé á stefnuskrá flokksins, en slíkt kerfi gæti verið neðanjarðar að hluta. Þá muni flokkurinn beita sér fyrir því að almenningssamgöngur verði þegar í stað ókeypis til að gera notkun þeirra aðgengilegri.

Laugarvegurinn verði göngugata

Kristín Soffía Jónsdóttir, sem skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar, segist vilja halda áfram að efla almenningssamgöngur og byggja upp Borgarlínu með það fyrir augum að draga úr bílaumferð. „Í nýjum umferðarlögum eru líka inni heimildir til að takmarka umferð sem er örþrifaráð sem er samt nauðsynlegt að geta gripið til,“ segir Kristín. „Þvottur á götum, rykbinding og sópun eru mikilvægar aðgerðir sem eru nýttar í dag en eru þó takmarkaðar við ákveðnar veðuraðstæður og duga skammt. Við viljum að borgarbúar geti notið þess þegar vind lægir og sólin brýst fram án þess að þurfa að hafa áhyggjur af loftgæðum. Svifryk fer yfir mörk á hverju ári en það þýðir ekki að það sé ástand sem við eigum að sætta okkur við.“

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík, tekur undir mikilvægi þess að draga úr umferð og leggja Borgarlínu. „Það verður ekki undir neinum kringumstæðum unað við að loftgæði í Reykjavík séu yfir hættumörkum marga daga á ári og borgin verður að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að svo sé ekki,“ segir Líf. „Við verðum því líka að vera tilbúin til að skoða róttækari lausnir á vandamálinu, eins og að takmarka umferð á dögum þegar svifryksmengun fer yfir hættumörk eða líkur eru til þess að hún geri það.“

Líf segir fjölgun reiðhjólastíga og lægri umferðarhraða í íbúðarhverfum vera meðal árangursríkustu aðgerða. „Við viljum gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og skoða hvort fjölga megi sumargötum,“ segir hún. „Við ætlum einnig að spýta í lófana og fjölga hlöðum fyrir rafbíla í borgarlandinu og leggja meiri áherslu á að skipta út bílum borgarinnar sem nota jarðefnaeldsneyti fyrir vistvænni bíla.“

Ódýrt og hagkvæmt að draga úr umferð 

Í áætlun um loftgæði á Íslandi, sem umhverfisráðuneytið birti í nóvember 2017, kemur fram að undirmarkmið áætlunarinnar séu að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi úr 80 árið 2013 í færri en fimm fyrir 2029 og að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar úr 7-20 skiptum niður í núll skipti á sama tímabili. Heildarkostnaður Umhverfisstofnunar vegna áætlunarinnar er áætlaður tæpar 729 milljónir króna, en eftir er að fjármagna 290 milljón krónur af þeirri upphæð.

Í áætluninni koma fram ýmis markmið til að draga úr loftmengun, meðal annars auknar álögur á díselvélar og gjaldtaka á notkun nagladekkja fyrir 2022. Þá muni Samgöngustofa athuga gagnsemi takmarkana á hámarkshraða fyrir árið 2020. Efling göngu-, hjólreiða- og almenningssamgangna er þó talin vænlegur kostur sem skili ávinningi í loftslagsmálum og loftgæðamálum með því að draga úr umferðaraukningu og álagi á samgöngumannvirki í þéttbýli. „Einnig er aðgerðin tiltölulega ódýr og hagkvæm,“ segir í áætluninni. „Þetta mun leiða til minni loftmengunar af völdum umferðar og bættrar lýðheilsu þjóðarinnar vegna aukinnar hreyfingar. Í þessari aðgerð felst meðal annars að þétta byggð, stefna á samgöngumiðað skipulag sveitarfélaga, auka hlutfall almenningssamgangna í þéttbýli ásamt fleiru.“

Þá er nýtt aðalskipulag í Reykjavík nefnt sérstaklega í áætluninni. „Eitt megin markmið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er að þétta byggðina en sýnt hefur verið fram á að þétting byggðar hafi jákvæð umhverfisáhrif vegna minni loftmengunar og samdráttar við orkunotkun í bílsamgöngum.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Borgarstjórnarkosningar 2018

Var andvígur frekari uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir kosningar en gagnrýnir nú meirihlutann fyrir að hunsa vandann
Fréttir

Var and­víg­ur frek­ari upp­bygg­ingu fé­lags­legs hús­næð­is fyr­ir kosn­ing­ar en gagn­rýn­ir nú meiri­hlut­ann fyr­ir að hunsa vand­ann

Ey­þór Arn­alds lýsti sig ger­sam­lega mót­fall­inn auk­inni áherslu á upp­bygg­ingu fé­lags­legs hús­næð­is í Reykja­vík í kosn­inga­prófi RÚV í að­drag­anda sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga. Nú legg­ur hann fram bók­an­ir þar sem meiri­hlut­inn er gagn­rýnd­ur fyr­ir að „hunsa mála­flokk­inn“.
Hagsmunatengsl borgarfulltrúa: Eyþór enn í stjórnum fimm félaga
ÚttektBorgarstjórnarkosningar 2018

Hags­muna­tengsl borg­ar­full­trúa: Ey­þór enn í stjórn­um fimm fé­laga

Ey­þór Arn­alds sit­ur enn í stjórn­um fimm fé­laga og eru tvö þeirra eign­ar­halds­fé­lög með rúm­an einn og hálf­an millj­arð í eign­ir. Hann lof­aði að skilja sig frá við­skipta­líf­inu þeg­ar hann vann leið­toga­próf­kjör Sjálf­stæð­is­flokks­ins í janú­ar. Odd­viti Við­reisn­ar og fleiri ný­ir borg­ar­full­trú­ar sitja í stjórn­um fé­laga.
Vildi ekki verða „húsþræll“ í vinstri- og miðjusamstarfi en myndaði atkvæðablokk með Sjálfstæðisflokknum
FréttirBorgarstjórnarkosningar 2018

Vildi ekki verða „hús­þræll“ í vinstri- og miðju­sam­starfi en mynd­aði at­kvæða­blokk með Sjálf­stæð­is­flokkn­um

Sanna Magda­lena Mörtu­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Sósí­al­ista­flokks­ins, sæt­ir harðri gagn­rýni fyr­ir að hafa stillt sér upp með Sjálf­stæð­is­flokkn­um og Mið­flokkn­um af praktísk­um ástæð­um. „Fram­kvæmd­ar­stjóri borg­ar­stjórn­ar­flokks Sjálf­stæð­is­flokks­ins sendi fyr­ir hönd allr­ar stjórn­ar­and­stöð­unn­ar skip­an okk­ar í nefnd­ir,“ sagði Hild­ur Björns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks­ins, í dag.
Dagur áfram borgarstjóri í nýjum meirihluta
FréttirBorgarstjórnarkosningar 2018

Dag­ur áfram borg­ar­stjóri í nýj­um meiri­hluta

Full­trú­ar Við­reisn­ar verða formað­ur borg­ar­ráðs og for­seti borg­ar­stjórn­ar. Nýr meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Við­reisn­ar, Vinstri grænna og Pírata var kynnt­ur við Breið­holts­laug í dag. Líf Magneu­dótt­ir, odd­viti Vinstri grænna, raul­aði „Im­per­ial March“, stef Darth Vader úr Star Wars mynd­un­um og upp­skar mik­inn hlát­ur við­staddra.

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
5
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár