Sigríður Andersen dómsmálaráðherra fullyrðir að hún hafi fylgt lögum í einu og öllu þegar hún skipaði dómara við Landsrétt í fyrra. Með þessu hafnar hún alfarið niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands þess efnis að hún hafi brotið stjórnsýslulög við meðferð málsins.
Þetta kom fram í ræðu Sigríðar á Alþingi rétt í þessu í umræðum um vantrauststillöguna gegn henni.
„Systurflokarnir Píratar og Samfylkingin hafa einir látið hafa sig það að kalla eftir vantrausti á þennan ráðherra sem hér stendur, ráðherra sem fylgdi lagabókstafnum í einu og öllu við skipan dómara við hinn nýja dómstól. Lagaákvæði sem fjalla um skipan dómara við Landsrétt í fyrsta sinn eru ekki mörg en þau eru alveg skýr,“ sagði Sigríður og rakti í kjölfarið hvernig hún hefði borið val á dómaraefnum undir Alþingi líkt og lög kveða á um.
Í sömu ræðunni sakaði Sigríður þingmenn stjórnarandstöðunnar um að „una ekki niðurstöðum dómstóla“ og nefndi í því samhengi að þingmenn hefðu ætlast til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða umboðsmaður Alþingis rannsökuðu embættisfærslur ráðherra.
Þá sagði Sigríður að valdið til að skipa dómara yrði að vera í höndum ráðherra en ekki hjá hinni óháðu hæfnisnefnd. „Þessi vantrauststillaga sýnir nefnilega að valdið ti lað skipa dómara á að vera í höndum ráðherra en ekki hjá andlitslausri stjórnsýslunefnd. Hæfnisnefndir verða nefnilega aldrei dregnar til ábyrgðar.“ Undir lok ræðunnar sagði Sigríður: „Það verður í minnum haft hvernig menn greiða hér atkvæði á eftir.“
Leiðtogar ríkisstjórnarinnar, þau Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannesson lýstu yfir stuðningi við ráðherra í ræðum sínum en umræðurnar standa enn yfir.
Athugasemdir