„Ef menn vilja flytja vantrauststillögu af þessari ástæðu á ráðherra, þá verða þeir bara að gera það upp við sig. En sjálfur myndi ég, ef ég væri í stjórnarandstöðu, bíða eftir öðru tækifæri til að vantreysta ráðherra því ég er alveg viss um það að næstum því allir þeirra munu gera meiri mistök en þessi á kjörtímabilinu sem var að byrja.“
Þetta sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í gærkvöldi þegar rætt var um stöðu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra.
Ef marka má orð Páls ætlar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að gera stærri og alvarlegri mistök heldur en Sigríður Andersen dómsmálaráðherra gerði þegar hún braut lög og misbeitti valdi sínu við skipun dómara, skapaði það sem Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir – núverandi samherjar hennar í ríkisstjórn – kölluðu „algjört uppnám millidómstigsins“ sem gæti þurft að „glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil“.
Það sem Páll kallar mistök telur hann smávægilegt, en það sem meira er: Hann hafnar því að Sigríður Andersen hafi verið í órétti. „Efnislega innihaldið í þessu máli er það: mátti ráðherrann skipa þessa dómara? Já. Stjórnsýsluparturinn snýr að þessu: Hún mátti og hafði fullan rétt á því, enda liggur ábyrgðin þar sem valdið er,“ sagði Páll og lýsti þannig frati á niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands þess efnis að ráðherra og jafnframt Alþingi hafi brotið stjórnsýslulög við skipun Landsréttardómara með því að ganga ekki úr skugga um að hæfustu umsækjendurnir væru skipaðir til starfans. Þetta er að mati Páls – sem sjálfur er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, þeirrar fastanefndar Alþingis sem hefur dóms- og löggæslumál á sinnu könnu – bara ómerkilegt „formstagl“.
Þegar ummæli hans eru lesin saman – annars vegar fyrirheitin um að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar muni gera stærri mistök en Sigríður, og hins vegar orð hans um að Sigríður hafi verið í fullum rétti – þá verða skilaboðin vart skilin öðruvísi en sem stríðsyfirlýsing. Stríðsyfirlýsing gegn vönduðum stjórnsýsluháttum og faglegum vinnubrögðum, þeirri kröfu að embættisveitingar og ráðningar hjá hinu opinbera skuli byggja á hlutlægum sjónarmiðum þar sem litið er til verðleika en ekki vinatengsla, þeirri grundvallarreglu réttarríkisins að ákvarðanir valdhafa skuli byggja á lögum.
Aðeins með slíkum girðingum verða borgarar varðir fyrir geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna. Þess vegna eru skilaboð Páls Magnússonar svo óhugnanleg. Stjórnarþingmaðurinn boðar fleiri lögbrot valdhafa, meiri valdníðslu.
Athugasemdir