Í nýlegu frumvarpi til laga um breytingu á 218. gr. a. hegningarlaganna frá 2005 er orðinu „stúlkubarn“ skipt út fyrir orðið „barn“ og lögin þannig látin gilda jafnt fyrir snípskurð stúlkna og umskurð á forhúð drengja. Við hvorum verknaði fyrir sig lægi því fyrir refsing með fangelsun í allt að 6 ár.
1. málsl. 218. gr. a orðast því svo:
“Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“ [áherslubreytingar höfundar].
(Þingskjal 67 – 67. mál 131. löggjafarþings 2004-2005) (1)
Í þessari grein mun ég skoða hvaða tilgangur lá að baki lögunum frá 2005 og hvaða afleiðingu það hefur að snúa þeim lögum með ofangreindri skiptingu á orðum þannig að þau eigi einnig við um umskurð sveinbarna. Það kemur í ljós að þeir alþingismenn sem sömdu lögin ætluðu sér mun meira en að banna snípskurð(2) stúlkna. Þeir ætluðu sér að beita ákveðnum lagaklækjum til að hindra foreldra snípskorinna stúlkna í að fá íslenskan ríkisborgararétt. Þeir lýstu trúar-menningarlegum uppruna athafnarinnar en gáfu sér án rökstuðnings að samþykki væri „ómögulegt“. Ég útskýri nánar þennan uppruna. Í lögunum er athöfnin gerð að illvirki; glæp með harðneskjulegum refsiramma til þess að „fordæma“ verknaðinn og útiloka fólkið. Ég mun sýna jafnframt fram á að í þessu felst ekki einungis ómannúðleg aðferð til útilokunar fólks frá stórum landsvæðum í heiminum heldur einnig hræsni gagnvart þeim ógeðfelldu trúar-menningarlegu fyrirbærum sem við þekkjum nú þegar og hafa lifað með þessari þjóð um langan aldur. Í lögin vantar þann mikilvæga siðfræðilega skilning að fólk sem er handbendi trúar-menningarlegra þjóðfélagsafla fremur forneskjulega siði sína undir eins konar álögum hindurvitna og trúar, en ekki illvilja. Það meinar vel og þekkir ekki gildi mannréttinda. Loks útskýri ég og held fram að svarið við slíku er ekki fangelsun og útskúfun, heldur leiðbeinandi lög og að öllum trúar-menningarlegum brotum á mannréttindum eigi að mæta með staðfestu, samtali og mannúð.
Tilurð og eðli hegningarlaga nr. 218. gr. a. gegn snípskurði
Lítum fyrst á uppruna íslenskra viðbragða. Á árunum 2004–2005 eru stjórnmálamenn hérlendis að stíga sín fyrstu spor í að mæta erfiðum trúar-menningarlegum álitaefnum sem fylgdu auknum straumi flóttamanna til Íslands og tilheyrandi fjölmenningu. Sérstakan ugg vakti sá siður sem víða tíðkast í Afríku (og víðar) að skera af ytri kynfæri stúlkna. Verkið var fordæmt í ályktun Sameinuðu þjóðanna og hvatt til að allar þjóðir heims geri sitt til að sporna við því. Lagt var fram frumvarp til laga af þingmönnum allra flokka sem varð að lögum í flokki hegningarlaga árið 2005. Í greinargerðinni með lögunum kemur fram að tilgangurinn með fangelsisrefsingu sé að fá:
„[...] tækifæri til að fyrirbyggja slíkan verknað [og] leggja sitt af mörkum til að þessi forna hefð [snípskurður] verði aflögð og komið verði í veg fyrir limlestingu fjölda stúlkubarna ... [og sé] skýr yfirlýsing um stuðning Íslendinga við baráttuna gegn þessum hroðalegu misþyrmingum og mannréttindabrotum á börnum og konum í heiminum.“
Ljóst er einnig að flutningsmenn vildu ekki að fólk sem fremdi snípskurð á börnum sínum fengi íslenskan ríkisborgararétt:
„[...] skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar í 5. gr. a [laga nr 100/1952] [er] að umsækjandi hafi ekki sætt varðhalds- eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Það er mat flutningsmanna að þau brot er hér um ræðir girði fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar.“
Athygli vekur að það eru ekki nein sektarákvæði í lögunum, heldur einungis fangelsisvistun og því ljóst að hér átti á lagatæknilegan máta að koma í veg fyrir aðsetur fólks með þennan sið á Íslandi. Það er nokkuð kaldhæðin tilhugsun þó, að fái foreldri aðfluttrar fjölskyldu fangelsisdóm í kjölfar slíks, yrði vera þess hér (í yfirfullum íslenskum fangelsum) ærið löng. Það er ljóst að refsingin átti að hafa fælingaráhrif, bæði á verknaðinn og innflutning fólks hingað frá menningarsvæðum snípskurðar. Þetta fólk væri ekki velkomið hingað.
„Meðal þeirra skýringa sem gefnar eru fyrir verknaðinum er að tryggja eigi meydóm, bæla niður náttúrulega kynhvöt og koma í veg fyrir lauslæti og samkynhneigð“
Í greinargerðinni er það tiltekið að snípskurður er af menningarlegum toga:
„Umskurður stúlkna er ekki síður tíðkaður í löndum þar sem þorri fólks telst til kristinnar trúar eins og í Eþíópíu og Kenýa, [alls] í 28 Afríkulöndum og að einhverju leyti í löndum islams í Indónesíu, Sri Lanka, Malasíu og Indlandi, í Egyptalandi, Óman, Jemen og Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hjá frumstæðum ættbálkum Suður-Ameríku . […] Samtökin Amnesty International áætla að um 135 milljónir núlifandi kvenna og stúlkna í heiminum hafi þolað þessar misþyrmingar á kynfærum sínum og að um 2 milljónir stúlkubarna séu umskornar á hverju ári, um 6.000 á dag. […] Meðal þeirra skýringa sem gefnar eru fyrir verknaðinum er að tryggja eigi meydóm, bæla niður náttúrulega kynhvöt og koma í veg fyrir lauslæti og samkynhneigð, auk þess sem umskurður er sagður tryggja konum farsælt hjónaband og barneignir.“
Af þessu má sjá að hér er um afar útbreitt trúar-menningarlegt fyrirbæri sem er talið forða stúlkunum frá alls kyns illu, hversu heimskulegt það kann nú að hljóma. Trú á ýmis hindurvitni getur rekið einstaklinga í ásettum samfélögum til ótrúlega grimmilegra hluta, eins og að gera börn sín brottræk fyrir þá bábilju að telja þau andsett og göldrótt. Útskúfunin er þá talin ill nauðsyn, barninu og heildinni til góða, en barnsins bíður geðrænn skaði og stundum dauði. Slík galdratrú hefur blandast við kristni í sumum ríkjum Afríku, með skelfilegum afleiðingum.(3) Trúin á snípskurðinn er þess eðlis að hann er framinn sem vígsluathöfn og þolandinn bítur á jaxlinn og fagnar með fjölskyldu sinni þrátt fyrir sársaukann. Einstaklingur sem er tilbúinn að þjást með táknrænni aðferð hlýtur inngöngu í hópinn.
Ýmis dæmi eru til um aðrar menningartengdar limlestingar. Hástéttarkonur í Kína létu áður fyrr reyra á sér fæturna yfir mörg ár til þess að öðlast meiri virðingu samfélagsins. Nunnur í Evrópu settu sig í margra vikna einangrunarherbergi og munkar pyntuðu sig fyrir syndir sínar. Vestræn þjóðfélög hafa að mestu lagt niður slíka menningu en enn eru börn látin játa trú sem þau botna ekkert í og hylli líkamlegra þjáninga og hermenningar á sér birtingarmynd í bardagaíþróttum, sem ganga fram af heilsu frekar en að styðja hana.
Allt ofangreint á sér rætur í valdabrölti og feðraveldi mannkyns. Á 17. öld var hérlendis konum drekkt sökum bábiljunnar um galdra af valdhöfum bábiljunnar um guð og dauðasyndir. Arftakar þessara valdhafa guðsóttans njóta enn forréttinda á Íslandi. Biskup kirkjunnar hefur sýnt í verki samstöðu með kirkjufulltrúum forneskjunnar þegar hún sat bænasamkomu í Laugardalshöll (árið 2013) með ameríska predikaranum Franklin Graham sem boðar andúð á samkynhneigð eftir bókstafnum.(4) „Það skerpir sjálfsímyndina,“ var haft eftir sr. Agnesi M. Sigurðardóttur þegar hún var spurð af blaðamanni um þátttöku hennar. Í afstæðu siðferði trúarlífs þeirra sem halda vörð um bókstafinn eru mannréttindi enn í öðru sæti á eftir samstöðu með trúnni. Það hefur einnig komið fram hjá sumum fulltrúum trúarbragða í umræðunni um núverandi frumvarp.
Í greinargerð frumvarpsins til laganna 2005 var gerð grein fyrir þessum trúar-menningarlegu rótum en því var ekki sýndur neinn skilningur að verkið er ekki „líkamsárás“ í venjubundnum skilningi. Bardagaíþróttamenn eru ekki fangelsaðir fyrir að valda hættulegum höfuðáverkum(5) eða fullorðnir Vottar Jehóva fyrir að vilja ekki gefa börnum sínum í lífshættu blóð eða útskúfa fjölskyldumeðlimi sem ganga af trúnni. Því er sýndur skilningur á að þetta sé gert í „góðri trú“ en ekki illvilja – gert af eins konar fáfræði en ekki upplýsingu. Það er ekki réttað yfir fólki í þessum menningarafkimum, en hegðunin er samt af mörgum talin siðferðilega ámælisverð. Flutningsmenn frumvarpsins 2005 sáu menningarmuninn en skildu ekki siðferðilega muninn og einsettu sér að koma á fót refsingu. Þeir skrifuðu:
„Þá er einnig rétt að kveða skýrt á um að ekki er undir nokkrum kringumstæðum mögulegt að einhver veiti samþykki til limlestinga á kynfærum, hvorki foreldrar, forráðamenn né stúlkubörnin sjálf.“
Þetta er ósatt. Flutningsmenn benda sjálfir á menningartengslin og segja í greinargerðinni að „[m]ikill samfélagslegur þrýstingur [sé] á að verknaður þessi sé framkvæmdur“ en virðast samt ekki skilja hvað þau þýða.
Í grein eftir Olgu Khazan („Why Some Women Choose to Get Circumcised“, The Atlantic 8.4.2015(6)) fræðir mannfræðingurinn Bettina Shell-Duncan lesendur um þennan forneskjulega heim svo margra þjóða í Afríku. Í máli hennar kemur fram að um er að ræða sérstaka athöfn með meintu mikilvægu táknræni innan þessara samfélaga og ákvörðunin um aðgerðina er ekki tekin sjálfstætt af hverjum og einum einstaklingi (foreldri) í sama skilningi og fólk í flestum vestrænum ríkjum gerir þar sem einstaklingsfrelsi og sjálfsákvörðunarréttur hefur mikið vægi. Ein skurðarhefð í Afríku byggir á þeirri trú að forhúð geri drengi kvenlega og snípur geri stúlkur karlmannlega. Það sé því betra að skera þessa hluta kynfæra af. Við yfirborðslega skoðun getur það litið þannig út að konurnar sjálfar eigi frumkvæðið að eigin snípskurði enda framkvæma þær athöfnina (sbr. titil greinarinnar) en þegar á reynir með að fá þær ofan af því er vísað til höfðingja og samfélagslegrar útskúfunar ef þær voguðu sér að hætta við. Þær velja þetta sjálfar en vita ekki um neinn rétt til að velja neitt annað og er kennt að þetta sé nauðsyn. Samþykkið er því vissulega til staðar en það er ekki sama eðlis og alþingismennirnir höfðu í huga.
Á Alþingi árið 2005 voru samþykkt lög sem skilgreindu harðneskjulega athöfn snípskurðar sem byggir á trúar-menningarlegum grunni (og iðkuð er í yfir 30 löndum) sem „líkamsárás“. Greinargerð laganna sýnir að það var gert til að a) banna snípskurð, b) fæla þetta fólk frá Íslandi, c) fá yfir það fangelsisdóm brjóti það og geri „árás“ á stúlkubörn sín, og d) koma þannig í veg fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar. Þetta átti að vera þáttur í alþjóðlegri viðleitni til að „fordæma“ verkið og útrýma því, en í leiðinni er það gert að illvirki.
Því er engu skeytt að fangelsun foreldra (ekki síður en mögulegs annars framkvæmdaraðila) gæti haft verulega skaðleg áhrif á barnið og tengsl þess við foreldrana. Flutningsmenn telja sig verja hagsmuni stúlkubarnanna en fangelsun foreldra þjónar því ekki. Það er rétt eins og þeir hafi talið að lögin myndu algerlega koma í veg fyrir snípskurð á Íslandi. Hafi hann farið fram hér þá er ljóst að hann fer leynt. Við erum með bókstafstrúarfólk á Íslandi sem hefur m.a. farið fram á að enginn karlkyns læknir komi að skurðaðgerð kvenna hjá þeim. Fólkið var ekki fangelsað fyrir það enda ekki neitt til í lögum um slíkar kröfur nema ef skyldu vera brot á jafnrétti kynja til að sinna störfum sínum.
Bann við umskurði drengja sett ofan í gölluð lög
Í ofangreindu samhengi má sjá að bann við umskurði drengja passar engan veginn inn í þessi illa hugsuðu lög. Lög geta kveðið á um bann án þess að hegna svo skaði á geði og tengslum fjölskyldna skapist. Það má sleppa hegningu eða hafa hana í formi táknrænna sekta. Lög geta verið leiðbeinandi og haft heilmikil áhrif á þá vegu. Hegningarlög gera ekki fólk dyggðugt í hegðun. Til að mynda ná foreldrar ekki betri árangri í uppeldi með því að loka börn sín inni fyrir slæma hegðun. Bann getur verið nauðsyn en með því þarf að fylgja mannúðlegt uppeldi. Við munum ekki útiloka allt fólk frá Afríku og íslömskum löndum Asíu frá því að koma hingað. Sá fjöldi um heim allan sem iðkar umskurð drengja er miklu meiri og með nýja frumvarpinu erum við til dæmis að bjóða um helmingi þeirra Bandaríkjamanna sem hingað kunna að flytjast upp á óhreint sakarvottorð og fangelsisvist taki þeir upp á því að umskera drengi sína. Fólk víða um lönd er gapandi yfir þeirri dómhörku sem nýja frumvarpið býður upp á. Fyrir utan gallana sem lögin frá 2005 hafa eru það tvöföld mistök að leggja umskurð drengja að jöfnu við snípskurð stúlkna.
Ekki heilsufarsleg nauðsyn
Upprunalegar ástæður bæði snípskurðar og umskurðar eru ekki læknisfræðilegar en umskurður var „seldur“ Bandaríkjamönnum á þeim forsendum í stórum stíl á 20. öldinni þannig að aðgerðin náði þar mikilli útbreiðslu. Akademía amerískra barnalækna (AAP) sendi árið 2012 frá sér afar umdeilda yfirlýsingu(7) þar sem hún taldi umskurð drengja hafa fleiri heilsufarslega kosti en galla en hún gæti þó ekki mælt með umskurðinum almennt. Barnalæknar og kvensjúkdómalæknar utan Bandaríkjanna sendu frá sér álit(8) sem svar við þessu þar sem staðhæfing AAP um heilsufarslegt mikilvægi var hrakin. Annars staðar hefur þeirri tilraun til að gera umskurð að heilsufarslegum ávinningi lýst sem „lausn“ í leit að vandamáli. Fyrst að trúar-menningarlegu ástæðurnar misstu helgi sína og rökstuðning þurfti að leita að einhverju sem umskurður væri lausn á. Í fróðlegri grein á visir.is(9) um þetta mál segir Þráinn Rósmundsson barnaskurðlæknir frá því að um 2–7% barna fái fylgikvilla af umskurði, sem sé alls ekki sársaukalaus og geti leitt til skemmda á þvagrás og dauðsföll hafi átt sér stað vegna blæðinga eða sýkinga. Í ljósi nauðsynjaleysis umskurðar eru þessir bráðu fylgikvillar ekki læknisfræðilega réttlætanlegir. Íslenskir barnaskurðlæknar hafa ákveðið að framkvæma ekki umskurði nema að mikilvæg læknisfræðileg ástæða sé fyrir hendi. Slíkar aðgerðir eru því afar fáar hér á ári hverju.
Afstaða mín
Ég er fylgjandi banni á snípskurði stúlkubarna og umskurði sveinbarna því að trúar-menningarlegar ástæður eru ekki réttlætanlegar, hvorki heilsufarslega né siðfræðilega. Lögin eiga að vera skýr um bannið en ekki refsandi með fangelsun því að tengsl barna við foreldra sína skipta þau miklu máli. Lög sem taka á þessu eiga heldur ekki að vera tæki þeirra sem vilja útskúfa ákveðna trúar-menningarlega hópa úr landinu. Þessir foreldrar eru handbendi menningar sinnar og skilja ekki frelsishugtak eða mannréttindi meðal vestrænna ríkja. Til að gæta samkvæmis á að hætta opinberum fjárstuðningi við trúfélög sem boða eða styðja við brot á réttindum barna og minnihlutahópum (sbr. þjóðkirkjan, Vottar Jehóva og fleiri) og setja lög sem heimila lögsókn (að viðlögðum sektum og afskráningu úr sóknargjaldakerfinu) gagnvart þeim forstöðumönnum sem standa í vegi fyrir framrás mannréttinda barna. Það eru trúarleiðtogarnir sem viðhalda forneskjunni en fela sig í öruggri fjarlægð á meðan söfnuðurinn telur sig gegna skyldum sínum við almættið. Alþingi getur einnig afnumið lög sem leyfa sjálfkrafa skráningu hvítvoðunga í trúar- eða lífsskoðunarfélag ef báðir foreldrar eru skráðir í sama félagið. Þessi vandi verður ekki leystur með því að henda fólki á milli landa, heldur með því að takast á við þá valdastólpa sem viðhalda honum; með rökræðu, þjóðfélagslegum þrýstingi og mildum lagalegum inngripum til verndar börnunum. Það má gjarnan halda þétt utan um mál, en refsingar og útilokanir eru ekki leiðin.
Höfundur er læknir og leggur stund á nám í heimspeki og hagnýtri lífsiðfræði.
Heimildir:
1) http://www.althingi.is/altext/131/s/0067.html
2) Á ensku hefur skurðurinn verið kallaður Female Genital Cutting (FMG) og getur innifalið mismikið inngrip: snípskurð, skurð á minni skapabörmum og stundum saumun fyrir leggangaopið. Til einföldunar nota ég hér orðið snípskurð því að í því felst megintilgangur verksins.
3) “Witchcraft accusations against children in Africa” Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Witchcraft_accusations_against_children_in_Africa
4) Svokölluð Vonarhátíð sem tugir kristinna söfnaða stóðu að.
5) Þessar ofbeldisfullu íþróttir fela í sér ákveðinn samning keppenda um að þeir gangist við hættunum. Þeir þrá dýrðarljómann sem felst í að vinna. Menningarafkiminn styður ofbeldið sem er afmarkað í búri. Að loknum barsmíðunum faðmast oft keppendur og tjá velvilja sinn. Þeir telja sig garpa og áhorfendur telja þá hetjur.
6) https://www.theatlantic.com/international/archive/2015/04/female-genital-mutilation-cutting-anthropologist/389640/
7) http://pediatrics.aappublications.org/content/130/3/585
8) http://pediatrics.aappublications.org/content/early/2013/03/12/peds.2012-2896
9) http://www.visir.is/g/2018180309915/umskurdur-drengja 1.2.2018.
Athugasemdir