Eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Iceland Unlimited segir starfsmann fyrirtækisins hafa fengið sendar hótanir um „afleiðingar á heimsvísu“ frá bandarískum ferðamanni, sem kveðst ætla að afbóka ferð sína til Íslands ef látið verður af því að banna umskurð barna hér á landi.
Umskurðarfrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og fleiri þingmanna liggur nú fyrir Alþingi. Á fimmta hundrað íslenskra lækna hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið, sem og hjúkrunarfræðingar.
Í bréfi, sem eigandi Iceland Unlimited, Jón Gunnar Benjamínsson, birtir í Facebook-hópnum Baklandi ferðaþjónustunnar, kemur fram að maðurinn hyggist beita sér gegn íslenskri ferðaþjónustu í samfélagi gyðinga og múslima.
„Við höfum frestað áformum okkar og bíðum ákvörðunar ríkisstjórnar ykkar. Ef þessi lög ná fram að ganga munum við hætta við ferðina og ferðast annað,“ segir í bréfi Bandaríkjamannsins.
Jón Gunnar hefur kallað eftir umræðu um málið. „Þessi tölvupóstur barst starfsmanni mínum nú í kvöld en hér er sármóðgaður einstaklingur af gyðingaætt, að hætta við að bóka „self-drive“ ferð með okkur vegna tilvonandi frumvarps um bann við umskurði sveinbarna, ásamt jafnframt að hóta því að breiða út sitt „fagnaðar“-erindi til vina og vandamanna,“ skrifar hann. Samkvæmt svörum hans hafði maðurinn átt í samskiptum við fyrirtækið um ferðina áður en hann sendi póstinn.
Annar ferðaþjónustuaðili staðfestir á sama stað að hann hafi fengið hótanir frá svissneskri ferðaskrifstofu um að viðskipti við Ísland verði sniðgengin í kjölfarið umskurðarfrumvarpsins. „Við umskerum ekki hvítvoðunga í þágu ferðaiðnaðar, það er alveg á hreinu!“ segir síðan rekstraraðili bílaleigu.
Bréf bandaríska ferðamannsins
„Eiginkona mín og ég vorum við það að borga inn á ferðina þegar við lásum um frumvarp ríkisstjórnar ykkar um að banna umskurð. Mér þykir þetta vera antisemítismi (bæði gegn múslimum og gyðingum) dulbúið sem „barátta fyrir réttindum barna“ sem er alger vitleysa. Við höfum frestað áformum okkar og bíðum ákvörðunar ríkisstjórnar ykkar. Ef þessi lög ná fram að ganga munum við hætta við ferðina og ferðast annað. Ég mun einnig tala gegn íslenskri ferðaþjónustu í samfélagi gyðinga í Boston og nágrenni og hafa einnig samband við bræður okkar og systur í samfélagi múslima. Ég get aðeins bundið vonir við að ríkisstjórn ykkar muni halda í snert af velsæmi og stöðva þessa ógeðfelldu tillögu. Ef hún nær fram að ganga getið þið búist við afleiðingum á heimsvísu.“
Athugasemdir