Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gagnrýndi nokkur aðildarríki Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í ræðu sinni á fundi þess á dögunum. Beindi hann sérstaklega orðum sínum að stjórnvöldum í Filippseyjum, sem hafa staðið fyrir drápum án dóms og laga í tengslum við stríð sitt gegn eiturlyfjum. Kallaði hann eftir frekari viðbrögðum ráðsins ef stjórnvöld snúa ekki af þessari braut.
„Ríki sem eiga aðild að ráðinu ættu að sýna fordæmi og búast við því að þeirra framganga í mannréttindamálum sæti sérstakri skoðun á meðan þau eru aðildarríki,“ sagði Guðlaugur og benti á að Filippseyjar ættu aðild um þessar mundir. „Ef Mannréttindaráðið dregur ekki eigin aðildarríki til ábyrgðar til að tryggja að þau séu í forystu um útbreiðslu og vörn mannréttinda, hver mun þá gera það?“
Talið er að yfir 14 þúsund manns hafi verið drepnir síðan Rodrigo Duterte var kosinn forseti Filippseyja vorið 2016 fram til mars 2017. Duterte hefur hvatt til þess að eiturlyfjafíklar verði myrtir án dóms og laga og sætir ríkisstjórn hans nú rannsókn Alþjóðasakamáladómstólsins vegna glæpanna.
Þá benti Guðlaugur Þór á að Sádi-Arabía, Venesúela og Egyptaland séu líka aðilar að ráðinu, en ríkin hafi öll sætt gagnrýni að undanförnu vegna mannréttindabrota.
Munu fullgilda Istanbúl-samninginn
Í lok ræðu sinnar lýsti ráðherra markmiðum ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. „Ríkisstjórn mín er ákveðin í því að eyða kynbundnum launamun og, í anda alþjóðlegu #metoo byltingarinnar, að stöðva kynbundið ofbeldi, þar með talið á netinu. Við stefnum einnig að því að fullgilda Istanbúl-samninginn um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.“
Loks fjallaði hann um málefni hinsegin fólks og sagði að Ísland muni þiggja boð um aðild að Equal Rights Coalition, sem er nýr samstarfshópur meira en þrjátíu ríkja sem vilja beita sér fyrir grundvallarréttindum hinsegin fólks. „Við munum áfram tala fyrir, á þessum vettvangi og öðrum, réttindum LGBTI-fólks,“ sagði Guðlaugur Þór. „Heima fyrir stefnir ríkisstjórn mín að metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði.“
Athugasemdir