„Dettur þér í hug að ég ætli að segja þér það? Það er bara eins og sagt er: No komment,“ segir Gunnar Gunnarsson, íbúi á Húsavík, sem var tekinn með 100 egg úr íslenskum fuglum í Norrænu á leiðinni úr landi í ágúst í fyrra, þegar hann er spurður að því hvað hafi vakað fyrir honum með eggjasmyglinu. Eggjunum var pakkað inn í sælgætisdunka. Meðal annars var um að ræða egg friðaðra fugla, smyrilsegg, flórgoðaegg og ein tíu himbrimaegg auk langvíueggja. Blásið er úr eggjunum þannig að skurnin ein stendur eftir og eru þau svo seld til erlendra safnara. „Það eru ýmsir sem hafa áhuga á þessu. Líka náttúrugripasöfn og svoleiðis og guð má vita hvað,“ segir maðurinn.
Langvíueggin fengin í búð
Mál mannsins var sent frá Lögreglunni á Egilsstöðum til Lögreglunnar á Akureyri en lögreglan þar í bæ segist ekki vera með málið á sínu borði. Gunnar segist ekkert hafa heyrt frá lögreglunni eftir að hann var tekinn með eggin. „Ég hef ekki heyrt hósta eða stunu frá þeim. Ég veit ekkert, minna en þú.“
Gunnar segir að hann svari engu um það hvort hann hafi smyglað eggjum áður eða hvort háar fjárhæðir fáist fyrir slík egg erlendis. „No komment. En þetta er alveg stórkostleg frétt. Sérstaklega þar sem hluti eggjanna var keyptur út í búð, til dæmis langvíueggin,“ segir Gunnar.
„Ég myndi giska á að þetta sé algengara en fólk heldur“
Algengara en fólk heldur
Gunnar segist ekkert ætla að segja um þetta mál fyrr en hann hafi heyrt í lögreglunni. „Ég hef ekki heyrt neitt í rottugenginu. Þangað til ætla ég ekki að segja neitt en það væri gaman að vita hver staðan er á þessu,“ segir Gunnar.
Aðspurður hvort hann telji að slíkt eggjasmygl sé algengt á Íslandi, segir Gunnar að hann telji að minnsta kosti að sjaldgæft sé að eggjasmyglarar séu staðnir að verki. „Það er líklega frekar sjaldgæft að þetta komist upp. Já, þetta er lokaður heimur fyrir flesta; ég myndi giska á að þetta sé algengara en fólk heldur. Þetta er bara alveg eins og með hassið, held ég,“ segir Gunnar.
ingi@stundin.is
Athugasemdir