Nýtt spillingarmál. Nýr skandall. Við sem vorum ekki einu sinni búin að jafna okkur almennilega á þeim síðasta. Og eiginlega enn frekar slöpp eftir skellinn þar á undan. Stundum stíga tveir skandalar í einu þjóðlega bændaglímu um athyglina og aðeins einn getur unnið.
Ítrekaðir skandalar í stjórnmálaflokkum eru sjúkdómseinkenni. Hreyfingin er veik. Eitthvað er að. Ef formaður flokksins er endurtekið afhjúpaður við lygar en þarf ekki að svara fyrir ósannsöglina, þá er eitthvað að. Ef ráðherrar flokksins eru sífellt gripnir við að misbeita valdi sínu en þurfa ekki að sæta ábyrgð, þá er eitthvað að. Ef þingmenn flokksins opinbera reglulega fordóma sína gagnvart hinsegin fólki og konum - tala svo fjálglega um áhyggjur af kostnaði tengdum innflytjendum og fátækum á meðan þeir keyra langleiðina til tungslins á hverju ári og rukka fyrir það margar milljónir - og hreyfingin tekur ekki ábyrgð á því, þá er eitthvað að.
Tökum Sjálfstæðisflokkinn sem dæmi: Uppgjör hans við hrunið var ekkert. Flokkurinn sem bar höfuðábyrgðina hefur ekki enn farið í sturtu. Með gamlan og grútskítugan útrásar-sokk í formannssætinu og óbreytta hugmyndafræði. Með hinn gamla einkavæðingarsokkinn í ritstjórnarstól áróðurspésa útgerðarinnar. Þeir frjálshyggjumenn sem þola ekki táfýluna komnir í annan flokk.
Fársjúk fjöldasamtök myndu svosem ekki trufla mig ef þau væru ekki sífellt að sækjast í að stjórna landinu. Með sína krónísku sárasótt, alltaf við völd, hósta þau framan í okkur án þess að halda fyrir munninn. Mjög dónalegt. Ef barnið mitt væri á leikskóla með barni hvers foreldrar neituðu ekki aðeins að bólusetja krakkann sinn og færu aldrei með hann til læknis, sama hversu alvarlegir krankleikar herjuðu á, þá myndi ég eiga í harðorðu samtali við þá einstaklinga.
Ég hef aldrei farið leynt með skoðun mína á Sjálfstæðisflokknum og því sem hann stendur fyrir. Hins vegar þekki ég alveg hreint ágæta einstaklinga þar innanborðs. Það sem truflar mig mest er þessi þvermóðska flokksins í að láta þá einstaklinga sem gera mistök taka ábyrgð.
„Skandalarnir sem skekja Sjálfstæðisflokkinn nokkrum sinnum á ári eru ekki einstök, einangruð tilvik. Þau eru sjúkdómseinkenni.“
Skandalarnir sem skekja Sjálfstæðisflokkinn nokkrum sinnum á ári eru ekki einstök, einangruð tilvik. Þau eru sjúkdómseinkenni. Spurningin er ekki hvort það verði annað hneykslismál, heldur hvenær. Ungliðahreyfingarnar eru litaðar af þessu ástandi, því þær eru líka helsjúkar. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Heimdallur og SUS eru ófær um að halda einfaldar kosningar án þess að frambjóðendur reyni einhver gallsúr skítatrikk til þess að sigra. Gefa börnum áfengi. Fljúga fólki á einkaþotum um landið þvert og endilangt til að kjósa. Skrá lögheimili tugi einstaklinga í sama húsi í öðru bæjarfélagi til að gera þá kjörgenga. Og þetta eru bara dæmi frá síðasta ári. Og þetta er fólkið sem ætlar að taka við Sjálfstæðisflokknum. Fíknisjúkdómar gera alla fjölskylduna veika, hvort sem fíknin er í áfengi, kynlíf eða völd. Framtíð flokksins er ekki björt, hún er útötuð í gubbi og greftri sem, eðli málsins samkvæmt, klínist á okkur hin.
Sjálfstæðisflokkur. Leitaðu þér hjálpar. Taktu til í herberginu þínu. Taktu vítamínin þín. Slakaðu á í kampavíninu. Og farðu til læknis. Í guðanna bænum farðu til læknis.
Einu sinni var ég sjúkur, en vissi það ekki. Vaknaði á hverjum degi og bauð fólki upp á samskipti við mig fullur af brestum og með virkan fíknisjúkdóm. Skaðaði mig og mína nánustu. En ég var bara veikur. Það er engin skömm að því. Það sem ég hins vegar þurfti að gera til þess að hætta að valda skaða var að viðurkenna vandann og leita mér hjálpar. Gera upp mín mál og leggja mig fram við að verða betri manneskja. Biðjast afsökunar og taka ábyrgð. Ef til væri Vogur fyrir stjórnmálaflokka þá hefðum við, sem fjölskyldumeðlimir, fyrir löngu svipt Sjálfstæðisflokkinn sjálfræði. Búin að senda hann í afeitrun. Engin skömm að því. Skömminn er að vita af vandanum og neita að horfast í augu við hann.
„Það að hreyta ónotum í sjúkling læknar hann ekki.“
Þannig hvað getum við, almennir borgarar, gert? Fyrirlitning og skammir skila engu. Það að hreyta ónotum í sjúkling læknar hann ekki. Við þurfum því að nálgast flokkinn af skilningi. Þegar næsti skandall leggst yfir þefskyn okkar eins og loft úr þörmum manneskju með mjög alvarlegan meltingarfærasjúkdóm, eða stóriðju í eigu sjálfstæðismanneskju, sýndu því þá umburðarlyndi. Reyndu að rækta með þér kærleik. Sjáðu að þeim er ekki sjálfrátt og segðu við þig „Drottinn minn, þetta er veik hreyfing. Forðaðu mér frá því að reiðast. Hvernig get ég hjálpað?“ Og kannski, bara kannski, getum við þannig komið þessum villuráfandi sauðum á rétta braut. Braut pólitískra sýklalyfja og innlagnar á stofnun fyrir persónuleikaraskaðar fjöldahreyfingar.
Athugasemdir