Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir fáheyrt og stórundarlegt að ríkisstjórn hafi komið í veg fyrir að skýrslubeiðni þingmanna hafi verið afgreidd. Skýrslubeiðni um viðbrögð við rannsóknarskýrslu Alþingis vegna falls íslensku bankanna 2008 var til umræðu á þingi í dag, en atkvæðagreiðslu um beiðnina var frestað í lok janúar. Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sagðist mundu taka það til skoðunar að setja skýrslubeiðnina aftur á dagskrá.
Beiðnin var lögð fram 24. janúar að frumkvæði Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, ásamt fleiri þingmönnum stjórnarandstöðunnar og unnin í samráði við lögfræðinga á nefndasviði Alþingis. Óskað var eftir því að ráðherra flytti Alþingi skýrslu um ábendingar er varða stjórnsýsluna og viðbrögð við þeim sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 annars vegar og í skýrslu rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna hins vegar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og aðrir stjórnarþingmenn lögðust þá gegn skýrslubeiðninni, einkum á þeim grundvelli að skýrslunni væri ekki beint til rétts aðila og að ekki hefði farið fram kostnaðarmat á því að svara þeim spurningum sem fram koma. Þá væri það ekki fjármálaráðuneytisins að taka saman efni á borð við það sem beðið er um í skýrslubeiðninni.
„Það er fáheyrt, stórundarlegt, að hér hafi hæstvirtur fjármálaráðherra og í rauninni ríkisstjórn Íslands komið í veg fyrir að skýrslubeiðni væri afgreidd,“ sagði Þorgerður Katrín á þingi í dag. „Þetta er fáheyrt og hefur ekki gerst í hátt í 30 ár að framkvæmdavaldið komi í veg fyrir það að löggjafarvaldið afgreiði hér eðlilega skýrslubeiðni.“
Verði tekin aftur á dagskrá
„Ég verð að gera alvarlega athugasemd við afskipti ráðherra af skýrslubeiðni þingmanna, þeim dómi sem hann lagði á vinnu þingmanna og gæðaeftirlit þingsins,“ sagði Björn Leví. „Orð ráðherra um skýrslubeiðnina standast ekki skoðun og þeir sem gagnrýndu hafa á tæpum mánuði ekki rökstutt mál sitt á neinn hátt. Því legg ég fram að skýrslubeiðnirnar verði á ný settar á dagskrá þingsins.“
Björn Leví sagðist hafa beðið og ýtt á eftir hugmyndum um betrumbætur frá þeim sem kvörtuðu, en ekkert fengið. „Á meðan fór ég yfir málið með sérfræðingum þingsins, sem sögðu að kannski væri hægt að sérstaklega taka það fram að ráðherra ætti auðvitað bara að svara fyrir þær ábendingar sem að heyrðu undir hans verksvið. Eitthvað sem ætti að segja sig sjálft. Engar aðrar athugasemdir var að finna, enda er skýrslubeiðnin faglega unnin með dyggri aðstoð frá sérfræðingum þingsins,“ sagði Björn Leví.
Að loknum umræðum undir liðnum „Um fundarstjórn“ sagðist Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, ætla að taka það til skoðunar að setja skýrslubeiðnina aftur á dagskrá þingsins. Enginn annar stjórnarþingmaður tók til máls um þetta atriði.
Hér má sjá skýrslubeiðnina í heild:
Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um ábendingar sem varða stjórnsýsluna og viðbrögð við þeim sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 annars vegar og í skýrslu rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna hins vegar.
Í skýrslunni verði samantekt á ábendingum þeim til stjórnsýslunnar sem settar eru fram í skýrslunum og fjallað verði m.a. um:
1. hversu margar ábendingar koma fram sem beint er til stjórnsýslunnar,
2. hverjar þær ábendingar eru,
3. hvernig brugðist hefur verið við þeim og
4. hvaða ábendingum hefur ekki enn verið brugðist við.
Í þeim tilvikum sem brugðist hefur verið við ábendingum er óskað eftir að upplýst verði:
1. hvernig tryggt hafi verið að þeim hafi verið og verði fylgt eftir,
2. hver hafi verið tilnefndur ábyrgðaraðili og
3. hvernig ráðherra hyggist fylgja eftir ábendingum þar sem ekki hefur verið tilnefndur ábyrgðaraðili.
Óskað er eftir tæmandi lista yfir þær ábendingar sem ráðherra hyggst ekki bregðast við ásamt ástæðum þess og mati ráðherra á þeim árangri sem eftirfylgni hefur haft í för með sér og hvernig sá árangur er mældur.
Að lokum er farið fram á að ráðherra geri grein fyrir þeim breytingum sem hafa orðið á starfsemi banka og sparisjóða í kjölfar ábendinga úr rannsóknarskýrslu Alþingis.
Athugasemdir