Fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu hefur sent Evrópuráðinu bréf þar sem brugðist er við áhyggjum þess af lögbanni íslenskra stjórnvalda á fréttaflutning af fjármálum Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra.
Ísland lenti á eins konar válista Evrópuráðsins vegna ógna við fjölmiðlafrelsi þann 18. október 2017 eftir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkti beiðni Glitnis Holdco um lögbann á umfjöllun og upplýsingamiðlun Stundarinnar og Reykjavik Media um viðskiptagjörninga þáverandi forsætisráðherra og fjölskyldu hans. Á vef Evrópuráðsins kemur fram að ógnin við fjölmiðlafrelsi stafi frá íslenska ríkinu og að um sé að ræða atburði sem geti haft kælingaráhrif á frelsi fjölmiðla.
Í bréfinu frá fulltrúum íslenskra stjórnvalda er fjallað um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 2. febrúar síðastliðinn.
Bent er á að dómurinn hafi hafnað lögbannskröfunni á þeim grundvelli að fréttaflutningurinn hafi ekki falið í sér brot gegn friðhelgi einkalífs, enda hafi upplýsingarnar varðað forsætisráðherra og haft mikilvæga þýðingu fyrir lýðræðislega umræðu hér á landi.
„Vert er að athuga að í dóminum er byggt á 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og vísað til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu við mat á því hvort takmarkanir á tjáningarfrelsi geti talist nauðsynlegar í lýðræðisþjóðfélagi. Sú staðreynd að lögbannsins var krafist 12 dögum fyrir þingosningar var einnig talin hafa þýðingu í málinu. Þannig staðfesti dómurinn að rétturinn til frjálsra og lýðræðislegra kosninga er nátengdur réttinum til frjálsrar tjáningar, en hvort tveggja eru hornsteinar lýðræðisþjóðfélags.“ Tekið er fram í bréfinu að Glitnir HoldCo hafi enn kost á því að áfrýja dómnum til efra dómstigs; þannig verði lögbannið áfram í gildi á meðan beðið er endanlegrar dómsúrlausnar.
Fyrirvari: Fjölmiðillinn Stundin er aðili að lögbannsmálinu sem hér er fjallað um.
Athugasemdir