Ég skil hvorki upp né niður í fréttum af hinum meinta barnaníðingi sem starfaði með börnum fyrir barnaverndaryfirvöld.
Nú er komið fram að kæra var lögð fram á hendur honum árið 2013 fyrir kynferðisbrot. Þau töldust fyrnd og málið var því látið niður falla.
Ekki var hins vegar komið í veg fyrir að maðurinn starfaði með börnum eins og vitaskuld var bæði eðlilegt og sjálfsagt.
Lögreglan heldur því fram að það hafi „ekki komið fram“ við rannsókn málsins.
Maður á sem sagt að trúa því að maður, sem sakaður er um kynferðisbrot, sé ekki spurður við hvað hann vinni!
Jafnframt er komið í ljós að maðurinn var aftur kærður í ágúst síðastliðnum en það var ekki fyrr en í desember sem hann var stöðvaður í starfi sínu með börnum.
Lögreglan heldur því fram að það hafi að vísu komið fram í ágúst að maðurinn starfaði fyrir barnaverndaryfirvöld - en ekki að hann starfaði beinlínis með börnum!
Fyrirgefiði - en á þetta að vera tilraun lögreglunnar til fyndni?!
„Aha, þarna er maður sakaður um barnaníð, jú, hann starfar hjá barnaverndarnefnd, en það er engin ástæða til að spyrja hann hvort hann starfi þar með börnum, nei, verum ekkert að spyrja hann að því.“
Ef þetta er hugsanagangur þeirra sem rannsaka þessi mál hjá lögreglunni, þá þarf að reka þá starfsmenn alla og ráða nýja.
Eigi síðar en seinni partinn á morgun.
En því miður vaknar aftur hinn illi grunur frá því í sumar - þegar allt kapp kerfisins virtist lagt á að vernda barnaníðingana með þeirra uppreisn æru.
Sá illi grunur að einhvers staðar séu einhverjir að vernda þessa menn.
Athugasemdir