Helsta verkefni íslenskra stjórnmálamanna síðustu ár, samkvæmt þeirra eigin skilgreiningu, hefur verið að endurheimta traust á störfum sínum. Þeir virðast hins vegar blindir á grundvallarorsök vantraustsins, sem liggur hjá þeim, og horfa fram hjá heilbrigðu orsakasambandi trausts og ábyrgðar.
„Það er stórt verkefni fram undan að auka traust í samfélaginu og í stjórnmálunum og til stjórnmálamanna,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, nokkrum mínútum eftir að hann varð forsætisráðherra fyrir tæpum tveimur árum.
„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu,“ sagði í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, þremur vikum áður en Hæstiréttur dæmdi dómsmálaráðherrann fyrir að brjóta stjórnsýslulög við skipun dómara.
Löng saga ábyrgðarleysis
Vandamálið er að íslenskt áhrifafólk á sér langa sögu ábyrgðarleysis, sem sker sig úr. Í síðustu viku var dregið fram vitni fyrir dóm, einn auðugasti og áhrifamesti Íslendingur samtímans, útgerðarmaðurinn Þorsteinn Már Baldvinsson. Þorsteinn var stjórnarformaður, og þar með æðsti ábyrgðarmaður, bankans Glitnis sem varð gjaldþrota á kostnað almennings – og það ekki án þess að stunduð hefði verið töluverð brotastarfsemi, markaðsmisnotkun og umboðssvik. Þorsteinn Már réðst gegn saksóknara fyrir dómi og hélt ræðu fyrir dómarann: „Það er alveg ljóst hver er tilgangurinn. Menn eru í keppni um að reyna að sakfella menn,“ sagði hann. „Það er ekkert annað sem þetta mál snýst um af hálfu saksóknara. Þetta er hluti af „showinu“,“ sagði hann.
Að mati mesta ábyrgðaraðila banka sem stundaði stórfelld efnahagsbrot var óhugsandi að fallast á að dómskerfið og saksóknari væru að sinna þeirri skyldu sinni að framfylgja lögum landsins. Það kom ekki til greina að iðrast, viðurkenna að rangt hefði verið aðhafst, og skapa þannig sátt um framtíðina.
Ábyrgð leiðtoga okkar
Almenna reglan hefur verið að íslenskt áhrifafólk ber ekki ábyrgð á því sem fer afvega, jafnvel þótt það gegni þeim stöðum með skýrt skilgreinda ábyrgð samkvæmt lögum og reglum. Í stað þess að grípa ábyrgðina og framkalla sátt búa þeir til flókinn vef útskýringa og hugmynda, sem stangast gjarnan á við lög og staðreyndir, til þess að rýma fyrir þeirri stöðu að þeir séu nokkurn veginn ábyrgðarlausir eða jafnvel þolendur frekar en gerendur.
Jafnvel þegar forsætisráðherra íslenska lýðveldisins var dæmdur í lögbundnum Landsdómi fyrir að brjóta stjórnarskrána, brást hann hinn versti við. Hann kvartaði undan „pólitískum ofsóknum“, sagðist myndu verða sýknaður fyrir Landsdómi, kallaði dóminn yfir sér „sprenghlægilegan“, kærði til Mannréttindadómstóls Evrópu, tapaði afgerandi en sagði þá: „Ég vann landsdómsmálið efnislega.“ Stuðningsmenn Geirs, samflokksmenn hans í Sjálfstæðisflokknum, kvörtuðu sértaklega undan því að landsdómsferillinn væri rangur, þrátt fyrir að flokkurinn hefði sjálfur innleitt lögin, að Danir hefðu sambærileg lög sem dæmt hefði verið eftir árið 1993, þegar ráðherra var fundinn sekur um að reyna að „smeygja sér undan ábyrgð“ á því að brotinn var réttur á innflytjendum frá Sri Lanka til að fá ættingja sína til Danmerkur. Afleiðingin var að danski forsætisráðherrann þurfti líka að segja af sér aðild að röngum viðbrögðum.
En á Íslandi reyndi dæmdi forsætisráðherrann – sem hafði alls ekki viljað axla pólitíska ábyrgð með afsögn þrátt fyrir mótmæli tugþúsunda í hrundu efnahagskerfi – allt hvað hann gat til að grafa undan trú á kerfið til að bjarga sjálfum sér og flokknum frá ráðherraábyrgð sinni. „Mér blöskrar,“ sagði Bjarni Benediktsson í kjölfarið undir dynjandi lófataki á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem hann gerðist eftirmaður hans.
Sannleikurinn er sá, þrátt fyrir allan áróðurinn vegna þess að það reyndi á lagalega ábyrgð formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir dómi, að allar hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa feril til að dæma ráðherra fyrir brot á ráðherraábyrgð, rétt eins og það er stjórnarskrárbundið hér. Í Finnlandi er það stjórnlaganefnd þingsins eða þingið sem tekur ákvörðun um rannsókn á ráðherra, sem reyndi á árið 1993 þegar ráðherra var fundinn sekur, í Svíþjóð er það í höndum stjórnlaganefndar að ákæra, í Danmörku eru sambærileg lög og stjórnarskrárákvæði og hér, sem og í Noregi.
Fyrirkomulagið við framfylgd ráðherraábyrgðar á Íslandi er hins vegar ekki fullkomið, sérstaklega þegar kemur að rannsóknarstiginu, en það er augljóslega vegna vanrækslu þingmannanna sjálfra ef lögin eru ófullnægjandi, enda hefur til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir reynt að koma á uppfærslu á lögunum á Alþingi.
Íslenskur forstjóri fann ábyrgðina
Rétt eins og Geir fann ábyrgðina og Þorsteinn Már fann ábyrgðina hafa aðrir í skilgreindum ábyrgðarstöðum á Íslandi átt það til að leita hana uppi.
Forstjóri United Silicon, Magnús Garðarsson, sem ók á ofsahraða á Teslu sinni á Reykjanesbraut, um sama leyti og verksmiðja hans spúði mengun yfir íbúa Reykjanesbæjar, nokkrum árum eftir að hann braut gegn pólsku verkamönnunum í Danmörku, en svo á fullum hraða að fá Arion banka og lífeyrissjóðina til að leggja fé í verksmiðjuna með tækjabúnaði sem kallaður hefur verið „drasl“, vegna þess að erlendir bankar vildu ekki fjárfesta, brást við af festu eftir að hafa stórslasað mann í bílslysi sem hann orsakaði og er nú ákærður fyrir. Hann skar upp herör gegn lögreglunni og dró héraðssaksóknara fyrir dóm fyrir að gera Tesluna hans, sem hann keypti í miðjum meintum hálfs milljarðs króna fjárdrætti, upptæka. Hann var með 11 hraðakstursmál á sér, en fann á sér að ábyrgðina væri annars staðar að finna. Hann fór síðan í annað mál til þess að reyna að fá lögreglu eða saksóknara rannsakaða vegna þess að það fréttist af málinu. „Ég bað lögregluna um far í vinnuna,“ sagði hann við fjölmiðla eftir handtökuna, en gat ekki útskýrt hvers vegna hann dvaldi í fangaklefa.
Árni Sigfússon bæjarstjóri, sem greiddi götu Magnúsar og United Silicon, fagnaði fyrstu skóflustungunni, þremur og hálfu ári fyrir gjaldþrot vegna umfangsmikilla brota á starfsleyfi, með því að vísa til ábyrgðar þeirra sem efuðust um hæfi United Silicon og stjórnanda þess: „Því miður hafa margir verið til þess að tala þetta verkefni niður,“ sagði hann, og hrósaði sér af „óbilandi trú“.
Ábyrgðin fundin
Stundum, þegar viðkemur athæfi helsta áhrifafólksins, finnum við ábyrgðina annars staðar. Þegar Stundin sagði fréttir af því að forsætisráðherra okkar hefði rofið mörk stjórnmála og viðskipta, með því að koma sér markvisst í aðstæður til að fá trúnaðarupplýsingar sem kjörinn fulltrúi um banka á sama tíma og hann og fjölskylda hans áttu umfangsmikil viðskipti með bréf í sama banka, var sýslumaður kallaður út og lagði fram bann við fréttaflutningnum, áður en fjölmiðillinn var svo dreginn fyrir dóm.
Spænsk ábyrgð og íslensk
Bjarni Benediktsson sagði ósatt um viðskipti sín og leyndi hagsmunaárekstrum fyrir almenningi. Á Spáni sagði José Manuel Soria af sér sem ráðherra og þingmaður í apríl 2016, eftir að hafa sagt ósatt um aðkomu sína að félagi í skattaskjólinu Jersey. „Stjórnmálin eru þess eðlis að þau þurfa á hverjum tímapunkti að vera til fyrirmyndar, bæði á borði og í orði. Þegar raunin er önnur þurfa þeir sem því valda að axla ábyrgð sína með viðeigandi hætti,“ útskýrði hann. Þar með varð hann 23. ráðherrann til að segja af sér eftir að lýðræðisfyrirkomulagi var komið á árið 1975.
Á sama tíma neyddist Íslendingur, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, til að segja af sér, ekki að eigin frumkvæði og ekki með boðskap um mikilvægi ráðherraábyrgðar, heldur eftir að hafa reynt að sækja sér umboð til þess að boða sjálfur til kosninga og með samsæriskenningar um óvild fjölmiðla og ósýnilegra óvina. Í kjölfarið hefur hann þverskallast og endurskilgreint hugtök í því skyni að rýma fyrir þeim skilningi að brot hans á siðareglum og ósönn svör hefðu verið hið réttlætanlegasta mál, en hinn raunverulegi vandi fjölmiðlarnir. Hann sagði ekki af sér þingmennsku, eða formennsku í Framsóknarflokknum, heldur tapaði hann naumlega formannskjöri og hætti að mæta í vinnuna, en ávítti fréttakonu Ríkisútvarpsins fyrir að spyrja hvers vegna. Eftir þetta allt fann Sigmundur ábyrgðina í miðri endurkomu í kosningabaráttu. Hann ætlaði að stefna þremur fjölmiðlum, áréttaði hann og ítrekaði.
Stefnan er ekki komin enn, en honum til láns hafa íslenskir alþingismenn viðhaldið sérstaklega harðri meiðyrðalöggjöf, sem tekur ekkert tillit til þess hvort sá sem lætur ummæli falla hefur góðan eða slæman ásetning, hvort viðkomandi sé til dæmis að starfa við að skrifa fréttir, sem eru réttar.
Þingmaður fann orsök vantrausts
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem áður hafði verið valinn af flokknum til að stýra Ríkisútvarpinu, fann skýringuna á vantrausti gagnvart stjórnmálamönnum í útvarpsviðtali á þriðjudaginn var. Páll Magnússon segir að ábyrgðarleysi stjórnmálamanna sé ekki vandamálið, heldur sjálf krafa fólks um að þeir axli ábyrgð – krafa sem hann nefnir „garg“ og „þvarg“ yfir því að „mönnum verði á“, líkt og þegar þolendur kynferðisofbeldis ákváðu að láta í sér heyra, og hafa hátt, vegna þess að gerendur væru að fá úrskurð frá dómsmálaráðuneytinu um óflekkað mannorð eftir nauðganirnar, þótt kynferðisbrotamennirnir hefðu hvorki iðrast þess að nauðga unglingsstúlkum né jafnvel látið af kynferðislegri hegðun sinni gagnvart börnum, og jafnvel þótt meðmælabréf væru aðeins ætluð til meðmæla til aksturs bifreiða, eða að þau væru rituð af föður forsætisráðherrans, sem fengi einn að vita af aðkomu föður síns og hagsmunaárekstrinum þar að lútandi – og fjölmiðlum neitað um svör með leynd sem reyndist brot á upplýsingalögum.
„Ég held að menn séu búnir að fá nóg af þessu gargi. Og þó að mönnum verði á í stjórnsýslu samkvæmt einhverri niðurstöðu Hæstaréttar, að það sé tilefni til afsagnar og menn standi hér alltaf á götuhornum og heimti afsögn, þingrof, nýjar kosningar, út af engu, eða svo gott sem engu ... þetta er örugglega sú ástæða sem stök er mesta skýringin á þessu vantrausti sem almenningur ber til stjórnmálanna.“
Garg
Í kennslubókum um grundvallaratriði lýðræðisríkja er vitnað í Charles Montesquiue um þrískiptingu ríkisvaldsins, sem segir að frelsi í samfélaginu sé ógnað ef dómsvaldið er ekki óháð framkvæmdarvaldinu. Við höfum í lögum um dómstóla ákvæði um að sérstök, óháð hæfisnefnd velji dómara. Gert er ráð fyrir því að ráðherra staðfesti valið, en hann hefur undanþáguheimild til þess að víkja frá valinu – ef hann rannsakar hæfi dómara og rökstyður valið á fullnægjandi hátt og Alþingi samþykkir frávikið.
Við höfum slæma reynslu af því að ráðherrar velji dómara. Jakob R. Möller, formaður dómnefndar sem metur hæfni umsækjenda um dómaraembætti, útskýrði forsöguna á hádegisfundi í vikunni: „Á þessari öld eru að minnsta kosti sjö dómarar við Hæstarétt, héraðsdómstóla og nú síðast Landsrétt þar sem meginreglan um skipun þess hæfasta sýnist hafa verið brotin, það er, ráðherra skeytti ekki um niðurstöðu faglegrar nefndar, en skipaði annan eða aðra en metnir höfðu verið hæfastir og án þess að nokkur alvörurannsókn hefði farið fram.“ Við erum þar meðal annars að tala um frænda Davíðs Oddssonar, einn besta vin hans og son hans.
Aðhaldið við framkvæmdarvaldið er lykilatriðið. Ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, telur ekki að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér. Enda mætti hún í afmælið hans í síðustu viku, ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins. „Reyndar er ekkert annað blað í landinu, satt best að segja,“ sagði Davíð í afmælisræðunni sinni um Morgunblaðið. „Ekki sem hægt er að lesa.“
En frá því að embætti Umboðsmanns Alþingis var stofnsett árið 1987 og með uppfærslu laga hefur fengist viðurkennd sú regla að hæfasti umsækjandinn eigi að fá stöðuna, en ekki tengdur aðili á geðþóttaforsendum ráðherra.
Afgerandi brot á trausti
Traust er samband milli tveggja eða fleiri aðila með væntingar um að viðkomandi muni fylgja reglum og viðmiðum sem settar eru milli þeirra. Þannig er það afgerandi brot á trausti okkar allra ef dómsmálaráðherra landsins brýtur lög. Það er alvarlegra brot ef hann brýtur lög við að skipa dómara, þar sem það grefur undan trausti dómstólanna um leið, einu af grundvallarkerfi samfélagsins okkar. Það er síðan ennþá alvarlegra ef með brotinu er dómsmálaráðherrann að hygla sínum hagsmunum eða tengdum aðilum.
Allt þetta gerði Sigríður Andersen. Sigríður braut stjórnsýslulög þegar hún sniðgekk mat hæfisnefndar við skipun dómara og valdi eiginmann samstarfskonu sinnar til margra ára (30. hæfastan af 33 umsækjendum) og eiginkonu þingmanns flokksins hennar, Brynjars Níelssonar, sem ákvað í kjölfarið að víkja úr fyrsta sætinu í Reykjavíkurkjördæmi suður og eftirláta það Sigríði Andersen fyrir alþingiskosningarnar, sem tryggði henni líklega endanlega áframhaldandi ráðherrastól. Tveir af hæufstu umsækjendunum sem voru sniðgengnir voru með tengsl og bakgrunn í öðrum stjórnmálaflokkum en Sjálfstæðisflokknum, ekki tengdir réttum flokki.
Eftir dóminn sagðist brotlegi dómsmálaráðherrann vera ósammála dómnum. Hún hafði ekki íhugað að segja af sér. Síðar var bent á það í Stundinni að embættismenn í ráðuneytinu hefðu varað hana við því að hún stefndi í lögbrot, en viðbrögð hennar voru að þeir væru í raun bara starfsmenn hæfisnefndarinnar, þótt þeir væru starfsmenn ráðuneytisins. Hún færði fram villandi svör, sagði dóminn óljósan og lögin ekki nógu góð.
Rýmt fyrir ábyrgðarleysi
Þegar kemur að því að hafa lögbrjót í dómsmálaráðuneytinu, sem efast um dómgreind Hæstaréttar, snúa almannahagsmunirnir ekki eingöngu að óáþreifanlegu, siðferðislegu trausti, heldur greinanlegum praktískum afleiðingum. Brot ábyrgðaraðila og svo ábyrgðarleysi í kjölfarið hefur í för með sér almenna tæringu á eftirfylgni og almannahagsvirkni kerfis og viðmiða okkar.
Sigríður hefur eftir dóminn beitt sér til þess að grafa undan trúverðugleika kerfisins, dómstóla og laganna, til þess að réttlæta eigin gjörðir.
Nýr forsætisráðherra, fyrir flokk sem gerði út á uppgjör við vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar, og fólk taldi að myndi innleiða aukna ábyrgð í íslensk stjórnmál, segist ekki hafa farið fram á afsögn dómsmálaráðherra áður og því geri hún það ekki nú.
Katrín Jakobsdóttir vísar í íslensku hefðina, á önnur fordæmi, þar sem ráðherrar voru brotlegir en sögðu ekki af sér. Áður en hún varð forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sigríði hafði hún hins vegar vísað til „algjörs uppnáms“ og að „Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil,“ vegna vinnubragða Sigríðar.
Í dæmum sínum nú greinir hún ranglega frá því að ráðherrar hafi verið dæmdir fyrir Hæstarétti fyrir að brjóta jafnréttislög. Meðal þeirra tilfella sem eiga við tilvísun hennar er dæmi þar sem Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, tók ákvörðun um að ráða ekki flokkssystur sína, vegna þess að hún væri metin aðeins fimmta hæfust, en ekki allra hæfust, í yfirlýstri tilraun til að starfa heiðarlega og forðast flokksráðningar, fylgja verðleikum fremur en klíkuskap. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að ráðningin væri brot á jafnréttislögum, en Umboðsmaður Alþingis kom með aðra niðurstöðu.
Katrín Jakobsdóttir hefur þannig beitt því trausti sem hún hefur haft til þess að rýmka heimildir ráðherra til að brjóta lög án þess að axla ábyrgð.
Traust án ábyrgðar er óskynsemi
Traust sem er veitt án samsvarandi ábyrgðar viðtakandans er ekki dyggð, heldur óskynsemi og óvarfærni.
Sigríður Andersen þarf að segja af sér því ábyrgðin er sjálf forsenda traustsins sem leitað er að. Hún þarf ekki að segja af sér af því að hún er Sigríður Andersen, eða af því að hún er í Sjálfstæðisflokknum, sem hefur gert svo margt, heldur vegna þess að dómsmálaráðherra sem brýtur lög við skipun tengdra aðila í dómarastöður og segist ósammála dómi Hæstarétti og fer í kjölfarið að grafa undan réttmæti og trúverðugleika kerfisins og skrifuðum viðmiðum okkar til að réttlæta gjörðir sínar, veldur skaða, og þeir sem taka þátt í réttlætingunni eru samhliða gerendur.
„Öll viðskipti byggja á því að fólk uppfylli ábyrgð sína.“ – Mahatma Gandhi
„Við þurfum að læra að axla ábyrgð.“ – Páll Skúlason, prófessor í heimspeki, 2014.
„Ábyrgð hennar er auðvitað sú að hún ber ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hún tekur.“ – Birgir Ármannsson þingmaður, um ábyrgð Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra.
Athugasemdir