Eftir að Ása Bjarnadóttir þurfti að hætta að vinna á sínum tíma vegna gigtar fann hún nýjan tilgang með lífinu. Hún lifir eftir því að maður eigi að gefa meira en maður þiggur og því ákvað hún að gerast sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum.
„Ég vildi hafa eitthvað fyrir stafni og fór í nám og tók hluta af stúdentinum. Ég hafði ekki efni á að klára það nám og þá fór ég að hugsa um hvað ég gæti gert til að stytta daginn – vera ekki bara heima og hlusta á verkina. Ég verð alltaf að hafa eitthvert markmið í lífinu.“
Dregin inn af forvitni
Upphafið má rekja til tilviljunar. „Ég var einu sinni á gangi í göngugötunni í Mjódd og furðaði mig á hvað væri verið að gera í húsnæði Hjálpræðishersins,“ segir Ása en eftir að Hjálpræðsherinn seldi Herkastalann í miðbænum hefur hann verið með aðstöðu í Mjóddinni og á þessu ári er ráðgert að bygging nýs húsnæðis við Suðurlandsbraut hefjist.
„Ég fór inn af forvitni og fékk mér kaffi. Ég fór að fara þangað reglulega upp frá því og komst í félagsskap þar og sótti meðal annars handavinnutíma sem við köllum „vinnandi hendur“. Við héldum í vetur jólabasar í fyrsta skipti og vorum búin að sauma, prjóna og hekla og gekk svona ljómandi vel.
Það er um eitt ár síðan ég fór að vinna sem sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum en ég aðstoðaði tvisvar í viku í eldhúsinu en þar er eldað fyrir skjólstæðinga hersins og gerum við við föt og og styttum buxur. Sumir vilja komast inn í hlýjuna. Utangarðsfólk fær sér mat og kemst í góðan félagsskap.“
„Alt mulig“-manneskja
Ása fór svo í haust að vinna sjálfboðaliðastörf í fata- og nytjamarkaði Hjálpræðishersins, Hertex, sem er við Vínlandsleið og þangað mætir hún tvisvar í viku.
„Ég mæti enn í Mjóddina og þar hpökkuðum við nokkur hundruð jólapökkum. Ég kynntist konu í Mjóddinni sem spurði hvort ég vildi ekki koma upp eftir og prófa þetta. Já, maður vill hafa eitthvað fyrir stafni en ég verð samt að passa mig út af heilsunni. Ég verð að finna þennan gullna meðalveg svo ég keyri mig ekki alveg út.
Ég er „alt mulig“-manneskja í Hertex og get verið í öllu. Það er verið að taka upp úr kössum, sortera föt og dót og taka úr það sem ekki er nýtanlegt. Ég er meira í flokkuninni en minna frammi í búðinni.“
Þá líður mér vel
Ása segir að það sé mjög gefandi að vinna sjálfboðastörf fyrir Hjálpræðisherinn.
„Mér finnst að maður eigi að gefa meira til samfélagsins heldur en að þiggja.“
„Ég er mjög gefandi manneskja að eðlisfari og það er mjög gott að gefa af sér og sjá aðra lifna við og brosa. Mér finnst að maður eigi að gefa meira til samfélagsins heldur en að þiggja. Svo er ég víðsýnni en áður og hef lært að umbera. Ég verð ánægð ef ég get fengið skjólstæðinga Hjálpræðishersins til að brosa eða hlæja. Þá líður mér vel. Ég hef séð fólk með sorgarsvip koma inn en fara brosandi út. Þá er nú takmarkinu náð. Við erum öll jöfn á þessari jörð – þótt við séum það ekki fjárhagslega séð – og við eigum að vera það.“
Alls konar fólk
Ása segir að neyðin virðist hafa aukist með árunum.
„Ég sé hvað til eru í raun margar tegundir af fólki. Ég sé alla flóruna í kringum þetta starf. Jú, ég hef lært það að við erum öll ólík. Það er alls konar fólk sem kemur í Hjálpræðisherinn – alveg frá utangarðsfólki upp í fátækar fjölskyldur. Ég finn fyrir því að þeir ríkari verða ríkari og þeir fátæku fátækari. Þetta hefur komið mér mikið á óvart vegna þess að það virðist hafa verið svo mikil velferð á Íslandi síðustu ár og sem er í toppi núna.“
Ása segir að á tímabili hafi ungir, erlendir karlmenn með stöðu hælisleitenda á aldrinum 20–30 ára verið í meirihluta þeirra sem sóttu aðstoð hjá Hjálpræðishernum.
„Svo er eins og það hafi aðeins jafnast út. Nú mæta meira fjölskyldur með börn; aðallega erlendar fjölskyldur. Íslendingar eru stoltir og eiga erfiðara með að biðja um hjálp þótt þeir þurfi sárlega á henni að halda.“
Athugasemdir