Dómsmálaráðuneytið veitti villandi upplýsingar í svari við upplýsingabeiðni Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, og gaf ranglega í skyn að umboðsmaður Alþingis hefði lagt blessun sína yfir það hátterni ráðuneytisins að skrá ekki símtal Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra við Bjarna Benediktsson þegar Bjarni var upplýstur um að faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefði veitt kynferðisbrotamanninum Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli vegna umsóknar hans um uppreist æru.
Hið rétta er að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, lýsti því sjónarmiði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 21. september að samkvæmt lögum og reglum hefði ráðherra átt að skrá umrætt símtal. Ráðuneytið sendi Þórhildi Sunnu bréf og baðst velvirðingar á ónákvæmum svörum eftir að umboðsmaður hafði samband við ráðuneytið og benti á að framsetning í bréfi þess væri til þess fallin að valda misskilningi.
Sögðu umboðsmann hafa farið yfir málið
Í fyrra bréfi ráðuneytisins til Þórhildar var fullyrt að ráðuneytinu hefði ekki borið að skrá símtalið og vitnað til fundar þingnefndarinnar með umboðsmanni því til stuðnings. „Í því ljósi var ekki skylt að skrá símtalið sbr. 2. [gr.] reglna um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands. Um þetta hefur verið fjallað ítarlega og hefur Umboðsmaður Alþingis m.a. farið yfir þennan þátt málsins með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hinn 21. september sl,“ sagði í bréfinu. Raunin er hins vegar sú að umboðsmaður tók skýrt fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hann teldi að ráðherra hefði borið að skrá símtalið.
Athugasemdir