Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lítur svo á að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti og störf hennar hafi ekkert með sjálfstæði dómstóla að gera.
„Sjálfstæði dómstólanna varðar ekki vinnu nefndarinnar. Þessi nefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og hún hefur ekkert með sjálfstæði dómstóla að gera. Sjálfstæði dómstólanna er tryggt með öðrum hætti, eins og í stjórnarskrá með því t.d. að það er ekki hægt að víkja dómurum frá störfum, ráðherrar getur ekki veitt nein fyrirmæli til dómara og dómarar eiga bara að dæma eftir lögunum. Þannig er sjálfstæði dómara tryggt,“ sagði ráðherra í Kastljósi í gærkvöldi.
Sjónarmiðin sem Sigríður lýsti ríma illa við álit Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands sem fram koma meðal annars í nýlegum dómum um lögbrot dómsmálaráðherra og Alþingis við skipun dómara við Landsrétt. Þá hafði verið gengið framhjá mati dómnefndar og einstaklingar skipaðir við dómstólinn með ólögmætum hætti, án fullnægjandi rannsóknar í samræmi við ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 15. september 2017 er bent á að löggjöf um tilvist og störf dómnefnda til að meta hæfni umsækjanda um dómaraembætti hafi, allt frá því að ákvæði um slíkar dómnefndir voru fyrst lögfest árið 1989, helgast af því markmiði að „styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins“.
Að sama skapi benti Hæstiréttur Íslands á, þann 19. desember 2017, að reglur um dómnefnd til að meta hæfni umsækjenda um dómarastöður eiga rætur að rekja til lagasetningar sem hafði að markmiði að „styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir handhöfum framkvæmdavalds“.
Loks má nefna að í greinargerð sem fylgir frumvarpi Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, til laga um breytingar á dómstólalögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 19. maí 2010 og fólu í sér breytta skipun dómnefndar og aukið vægi hennar, er lögð sérstök áhersla á að „styrkja [þurfi] stöðu og sjálfstæði dómstólanna og tryggja sem best að þeir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafa eftirlit með“.
Í viðtalinu í Kastljósi var rætt um aðdraganda og skipun dómara við Landsrétt. Áréttaði Sigríður Andersen að hún væri ósammála þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að hún hefði brotið stjórnsýslulög með því að víkja frá mati dómnefndar og skipa dómara án fullnægjandi rannsóknar. „Að mínu mati gerði ég ekki annað síðasta sumar en að starfa samkvæmt gildandi lögum,“ sagði Sigríður sem þó tók fram að dómurinn hefði verið sér áfall.
Eins og Stundin fjallaði ítarlega um í gær á Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, nú í deilum við dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómarastöður. Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sagði í samtali við Stundina í vikunni að frekari tafir á skipun dómara gætu valdið verulegri röskun á starfsemi réttarins.
Uppfært kl. 21:30
Nokkrum klukkustundum eftir að frétt Stundarinnar birtist steig Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, fram í kvöldfréttum RÚV og sagðist hafa hrokkið við þegar hún heyrði Sigríði halda því fram að dómnefndin hefði ekkert með sjálfstæði dómstóla að gera, enda væri fullyrðingin kolröng. „Henni er ætlað að tryggja það að valið fari fram á faglegum forsendum og ég trúi því varla að ráðherra sé þessarar skoðunar,“ sagði Ingibjörg sem jafnframt gagnrýndi framgöngu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar setts dómsmálaráðherra gagnvart dómnefndinni.
Athugasemdir