Þingmenn Vinstri grænna hafa rætt saman um dóm Hæstaréttar yfir embættisfærslu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra, sem braut lög við skipan dómara í Landsrétt, og ekki er útlit fyrir að krafist verði afsagnar hennar. Málið hefur þó ekki verið tekið til formlegrar afgreiðslu innan þingflokksins.
Í viðtali RÚV við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann Vinstri grænna, í gærkvöldi kom fram að staða Sigríðar Andersen hefði ekki breyst þótt Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra og Alþingis hefði verið ólögleg þegar Sigríður handvaldi fjóra dómara í Landsrétt og vék frá niðurstöðum hæfisnefndar um hverjir væru 15 hæfustu umsækjendur um dómararstöður.
„Hún er náttúrulega ráðherra“
„Þessi gagnrýni sem birtist þarna í dómnum, hún auðvitað kom fram á þinginu í vor,“ sagði Katrín í samtali við Rúv í kvöld. „Staða hennar hefur ekki breyst að því leytinu til, eins og ég hef sagt, að hún situr bara áfram í ríkisstjórn.“

Kolbeinni Óttarsson Proppé, fulltrúi Vinstri grænna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sagði að Sigríður yrði áfram ráðherra. „Hún er náttúrulega ráðherra í þessari ríkisstjórn áfram. Staðan hefur ekki breyst hvað það varðar.“
Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið til að greiða Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni 700 þúsund krónur í miskabætur. Kjarninn í niðurstöðu Hæstaréttar er að Sigríður hafi sem ráðherra ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni þegar hún mat hæfi þeirra sem hún valdi sem dómara, fram yfir þá sem sérstök hæfisnefnd hafði valið. Dómsmálaráðherra hefur brugðist við og sagt: „Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart að ég er ósammála efnislega niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli.“
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun kalla eftir öllum gögnum málsins og yfirfara það. Formaður nefndarinnar, Helga Vala Helgadóttir, sagði að þverpólitísk sátt væri um að skoða málið og að það gæti skaðað traust til nýs dómsstigs, Landsréttar.
Ríkisstjórnin hafi stuðning þingsins
Birgir Ármannsson, þingamaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki leggjast gegn því að farið væri í „slíka athugun og slíkar umræður“, þótt hann teldi að dómurinn skýrði sig sjálfur. Hann sagði stöðu Sigríðar Andersen sem ráðherra ekki hafa breyst. „Ekki í þeim skilningi að þetta er ráðherra í ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þingsins.“
Katrín sagði að læra þyrfti af dómnum.„Ég tel að við eigum að taka þennan dóm alvarlega og hann staðfestir að sumu leyti þá gagnrýni sem minnihlutinn skilaði nefndaráliti um við meðferð Alþingis síðastliðið vor, það er að segja að rannsóknarskyldan væri ekki uppfyllt með nægjanlega óyggjandi hætti. Það er mín skoðun að við verðum að læra af þessum dómi og það er mikilvægt að Alþingi fari yfir löggjöfina til þess að skýra málsmeðferðarreglur þannig að öll þessi málsmeðferð verði í framtíðinni algerlega hafin yfir allan vafa og að við lendum ekki aftur í svona atvikum.“

Ráðherra ber að skipa þá sem hæfisnefnd velur
Í 12. grein laga um dómstóla er kveðið á um að ráðherra skipi þá sem hæfisnefnd velur, en ráðherra geti þó gert breytingar ef Alþingi samþykkir það.
„Óheimilt er að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embættið. Ráðherra skal þá leggja slíka tillögu fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum,“ segir í lögunum.
Valdi tengda aðila í dóminn
Sigríður valdi meðal annars umsækjenda, Jón Finnbjörnsson, sem metinn var 30. hæfastur, fram yfir aðra. Um var að ræða eiginmann samstarfskonu hennar til margra ára.
Síðar var ákvörðun Sigríðar að handvelja fjóra af fimmtán dómurum Landsréttar rökstudd með því að um jafnréttisaðgerð væri að ræða, þótt karlmenn hefðu verið valdir, eins og í tilfelli Jóns.
Þá var Arnfríður Einarsdóttir, eiginkona þingmannsins Brynjars Níelssonar, einnig valin fram yfir þá sem metnir voru fimmtán hæfustu, en hún var metin 18. hæfust. Brynjar vék fyrir Sigríði í oddvitasætinu í kjördæmi þeirra, Reykjavík suður, fyrir síðustu alþingiskosningar.
Forsætisráðherra segir að þetta þurfi ekki að hafa áhrif á traust. „Þetta er auðvitað ekki heppileg byrjun, en ég vænti þess að þetta eigi ekki endilega að hafa áhrif á traustið á dómstólnum sem slíkum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í kvöld.
„Gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil“
Orð Katrínar í kvöld eru þó ekki í samræmi við yfirlýsingu hennar í júní í sumar, þegar hún sagði að nýtt dómstig þyrfti að glíma við vantraust um árabil. „Í tíð fyrri ráðherra málaflokksins var mikil áhersla á að leiða fram lagaumgjörð og inntak nýs dómstigs í sátt. Nýr ráðherra hefur nú þverbrotið það ferli, gengið fram á skjön við þann anda sem ríkti á fyrri stigum málsins. Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endann á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil,“ skrifaði Katrín í grein ásamt Svandísi Svavarsdóttur, nú heilbrigðisráðherra, á vef VG.
Athugasemdir