Tekjuhæsta 1 prósent Íslendinga hefur stóraukið hlutdeild sína í heildarfjármagnstekjum landsmanna frá 2012. Árið 2012 runnu 34 prósent af öllum fjármagnstekjum hjóna og sambúðarfólks á Íslandi til tekjuhæsta eina prósentsins, en á síðasta ári var hlutfallið komið upp í 45 prósent.
Sams konar aukning kemur í ljós þegar fjármagnstekjur tekjuhæstu 10 prósentanna eru skoðaðar. Árið 2012 tók þessi hópur til sín 57,5 prósent fjármagnstekna, en árið 2016 runnu 71,5 prósent teknanna tekjuhæsta hópnum í hlut. Þetta er niðurstaðan þegar rýnt er í staðtölur ríkisskattstjóra um álagningu einstaklinga og hjóna.
Þessir fjársterku hópar njóta þeirra forréttinda á Íslandi að fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna en almennar launatekjur og jafnframt miklu minna en tíðkast í flestum ríkjum OECD. Sú verður áfram raunin, jafnvel þótt áform nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um 2 prósentustiga hækkun fjármagnstekjuskatts verði að veruleika. Að sama skapi er hámarksálagning tekjuskatts á tekjuhæstu launþega minni á Íslandi en í flestum nágrannalöndunum. Ný ríkisstjórn hefur ekki boðað neinar breytingar á því.
„Raunverulegur ávinningur af fjármagni verði skattlagður“
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er hins vegar boðuð endurskoðun á skattstofni fjármagnstekjuskattsins, en þar liggur engin útfærsla fyrir. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur þó gefið í skyn að fyrirhugaðar breytingar miði að því að skattleggja raunávöxtun frekar en nafnávöxtun og verja þannig fjármagnseigendur fyrir verðbólguáhrifum.
Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi hans fyrir árið 2018 segir í greinargerð að „skattstofn fjármagnstekjuskatts [verði] tekinn til endurskoðunar, með það fyrir augum að raunverulegur ávinningur af fjármagni verði skattlagður og alþjóðlegur samanburður [verði] um leið auðveldari“.
Athugasemdir