Þann 22. júní næstkomandi mun karlalandslið Íslands í fótbolta skokka inn á fótboltavöll í Volgograd í Rússlandi og keppa við lið Nígeríu. Þetta er leikur sem Ísland verður eiginlega að vinna, ætli það sér að komast áfram í útsláttarkeppnina á HM. Takist það, mun 22. júní verða merkisdagur í íslenskri íþróttasögu.
En austur í Rússlandi, þar sem allt er þrungið sögu, hefur 22. júní nú þegar djúpa merkingu. Á þeim degi árið 1941 hófst innrás Þjóðverja og bandamanna þeirra í Sovétríkin gömlu, Barbarossa-árásin.
Sú árás gerbreytti gangi heimsstyrjaldarinnar síðari og rás viðburða í veraldarsögunni yfirleitt og kostaði á endanum tugi milljóna mannslífa.
Svo vill til að vendipunktur Barbarossa varð einmitt í Volgograd hálfu öðru ári eftir að skriðdrekar Hitlers brutust yfir landamærin 22. júní 1941.
Þótt borgin héti þá Stalíngrad.
43 gráðu hiti
Þessi borg, sem hefur gengið undir ýmsum nöfnum gegnum tíðina, stendur við mikla bugðu á stórfljótinu Volgu sem tekur þar stefnuna í suðaustur eftir að hafa runnið um Rússland endilangt og stefnir síðasta spölinn í átt að Kaspíahafi.
Borgin er á svipaðri breiddargráðu og München og París, meðalhiti á sumrin er um 24 stig en í janúar er meðalhiti rúmlega 6 gráðu frost.
Þar hefur mælst 43 stiga hiti yfir hásumarið en í janúar 33 gráðu frost.
Hins vegar er mjög dæmigert meginlandsloftslag í borginni og sveiflur geta verið miklar. Þar hefur mælst 43 stiga hiti yfir hásumarið en í janúar 33 gráðu frost.
En hvað er þessi borg að gera þarna við bugðuna?
Frá því á 13. öld og fram undir 1500 voru Rússar mjög undir ægishjálmi Mongóla en upp úr miðri 16. öldinni voru Mongólaveldin öll á fallanda fæti. Rússar voru þá hins vegar farnir að sperra sig langt í suður og austur frá höfuðborg sinni, Moskvu.
Leirburður við Volgu
Það mun hafa verið árið 1555, í valdatíð Ívans grimma, sem útsendari Moskvuveldisins reisti virki við bugðuna á Volgu til þess að hafa eftirlit með svæðinu þar sem ránsflokkar Mongóla eða Tatara léku enn mjög lausum hala.
Kringum virkið tók svo að vaxa svolítill bær sem kallaður var Tsaritsyn.
Nafnið var ekki dregið af embættisheiti rússneska keisarans (tsar), heldur mun það runnið frá heiti Tsaritsu, lítillar þverár er féll í Volgu skammt frá hinu upphaflega virki. Nafn þverárinnar var komið úr Tataramáli og þýðir „Gulá“ og hefur væntanlega átt rót sína að rekja til leirburðar í Tsaritsu.
Í upphafi 17. aldar bjuggu um 400 manns í Tsaritsyn og þeim fjölgaði á næstunni. Bærinn var enda vel í sveit settur sem verslunarmiðstöð á Volgu. Helst fréttist af bænum árið 1667 þegar uppreisnarmaðurinn Sténka Rasín tók bæinn og kom þar upp tímabundnum bækistöðvum, en Rasín stýrði uppreisn Kósakka og alþýðumanna gegn keisarastjórninni í Moskvu.
40 árum síðar hélt annar uppreisnarforingi, Kondratí Búlavin, bænum um hríð en Pétur mikli kvað síðan niður uppreisn hans án þess að Tsaritsyn byði tjón af.
Þýskur bær stofnaður í nágrenninu
Á ofanverðri 18. öld var stofnaður annar bær 25 kílómetrum sunnar við bugðuna. Íbúar voru þýskir landnemar sem Katrín mikla keisaraynja hafði lokkað austur til að hjálpa til við varnir gegn ránsferðum Tatara sem enn áttu til að koma flengríðandi að sunnan og austan. Þessi þýski bær óx og dafnaði, varð smátt og smátt rússneskur og óx saman við Tsaritsyn í fyllingu tímans.
Í byrjun 19. aldar bjuggu 3.000 manns í Tsaritsyn en þá varð sprenging í bænum sem var orðinn að 84.000 manna borg árið 1900. Sú borg var þá helsta verslunar- og samgöngumiðstöðin í suðausturhluta Evrópu-Rússlands.
Eftir rússnesku byltinguna og síðan valdarán Leníns og bolsévíka hans haustið 1917, þá var borgin í höndum Rauða hers bolsévíkanna. Fljótlega braust út grimmilegt borgarastríð þegar hersveitir svonefndra hvítliða freistuðu þess að steypa stjórn bolsévíka og nutu stuðnings hersveita frá útlöndum.
Hvítliðasveitir gerðu þá margar tilraunir til að ná borginni við Volgubugðu en bolsévíkar lögðu hins vegar mikla áherslu á að halda Tsaritsyn. Yfirráð yfir borginni skiptu sköpum hvað snerti flutninga á korni frá hinum frjósömu og gróðursælu héruðum í Suður-Rússlandi og norður til stórborganna Moskvu og Pétursborgar.
Stalín kemur, blóðið fer að renna
Sumarið 1918 var Jósef nokkur Stalín sendur til Tsaritsyn til að annast kornflutninga norður á bóginn og einnig til aðþrengdra hersveita Rauða hersins er börðust um land allt.

Stalín krafðist þess brátt að fá í sínar hendur stjórn á herjum rauðliða í nágrenninu líka. Georgíumaðurinn grimmlyndi var þá ekki í allra fremstu röð bolsévíka en lagði kapp á að vekja á sér athygli og þótti sýna fádæma hörku í garð raunverulegra og ímyndaðra andstæðinga bolsévíka.
Blóð litaði götur og torg Tsaritsyn.
Lenín og mönnum hans, sem kölluðu ekki allt ömmu sína í þeim efnum, þótti nóg um og svo fór að Stalín var kallaður til baka eftir að hann þverskallaðist hvað eftir annað við að hlýða skipunum Trotskís, æðsta manns Rauða hersins. Stalín leit þá þegar á Trotskí sem helsta keppinaut sinn í þeirri valdabaráttu innan hreyfingar bolsévíka sem hann var farinn að heyja löngu áður en borgarastríðinu lauk.
Ótrúlegasta orrusta hernaðarsögunnar
Í júní 1919 nálgaðist nýr her hvítliða Tsaritsyn. Hann var undir stjórn Denikins hershöfðingja en í her hans voru fimm breskir skriðdrekar af gerðinni Mark V. Þeir höfðu sannað gildi sitt á skotgrafasvæðum vesturvígstöðvanna í heimsstyrjöldinni fyrri en höfðu lítt eða ekki komið við sögu í Rússlandi.

Þessir skriðdrekar voru undir stjórn bresks herflokks sem lagði hvítliðum lið, en þeim hafði þó verið uppálagt að hlutverk þeirra væri eingöngu að kenna Rússum á skriðdrekana, ekki taka þátt í bardögum sjálfir.
Yfirmaður Bretanna var tæplega þrítugur majór, Ewen Cameron Bruce, og þegar varnarlið Tsaritsyn hóf fallbyssuskothríð á skriðdrekadeildina hans réði hann ekki við kappið í sér og sótti fram á dreka sínum.
Dreki hans ruddist áfram, einn og sjálfur, framhjá stórskotaliði hinna rauðu og inn í raðir fótgönguliðsins. Margir rauðliðar höfðu aldrei séð slíkt kvikindi áður og í einhverri furðulegustu orrustu samanlagðrar styrjaldarsögunnar hrukku bolsévíkar svo undan að að lokum hafði Bruce tekið borgina með sínum eina skriðdreka.
Hvorki fleiri né færri en 40.000 stríðsfangar féllu í hendur manna Denikins þegar þeir höfðu loksins rænu á að elta skriðdreka Bruce inn í borgina þar sem varnarliðið var í fullkominni upplausn.
Eins og fífldirfska Bruce væri ekki nóg, þá vildi svo til að hann var einhentur síðan í bardögum á vesturvígstöðvunum nokkrum misserum fyrr.
Tsaritsyn var nú í höndum hvítliða í hálft ár en í janúar 1920 birtist fjölmennur her Rauða hersins við borgarmörkin og tók hana úr höndum hvítliða.
Fall Tsaritsyns var eitt merki þess að hvítliðar væru á góðri leið með að tapa borgarastríðinu.
Borg Stalíns
Og þannig fór líka. Rauðliðar sigruðu. Sovétríkin urðu til og árið 1925 var nafni borgarinnar við Volgu breytt. Af var lagt heitið Tsaritsyn en upp tekið Stalíngrad, Borg Stalíns.
Nafnabreytingin átti að vera til marks um að Stalín hefði bjargað borginni í borgarastríðinu. Raunar er í meira lagi vafasamt að svo megi komast að orði, miðað við raunverulegan þátt Stalíns í vörnum borgarinnar fyrir rauðliða, en Stalín var þá í óða önn að treysta völd sín eftir andlát Leníns árið áður. Partur af því var að klambra saman heilmiklum þjóðsögum um hetjuskap hins verðandi leiðtoga við varnir borgarinnar.
Flestar eru þær ýktar eða ósannar.
En Pétursborg hafði verið endurnefnd Leníngrad og nú skyldi Stalín fá „sína“ borg rétt eins og leiðtoginn fallni.
Næsta hálfan annan áratuginn var uppbygging mikil í Stalíngrad og 1939 voru íbúar 445.000. Borgin var umskipunarmiðstöð járnbrauta og fljótabáta og auk þess lét Stalín byggja upp mikinn þungaiðnað í borginni sinni. Þar var til dæmis sett upp gríðarstór verksmiðja sem framleiddi traktora og var smiðjunni komið upp með fjármagni frá Bandaríkjunum.
Athygli Hitlers beinist að borginni
Barbarossa breytti öllu. Í rúmt ár var Stalíngrad fjarri vígstöðvunum en lagði sannarlega sitt af mörkum. Traktoraverksmiðjan fór að framleiða T-34 skriðdreka af miklum móð. Meðan verksmiðjur vestar í Sovétríkjunum voru í ofboði fluttar austur til Úralfjalla undan árásum Þjóðverja var verksmiðjan í Stalíngrad þeim mun mikilvægari. Nærri helmingur allra sovéskra skriðdreka var framleiddur þar allt fram á haust 1942.

Þá voru skriðdrekar Hitlers komnir í úthverfi Stalíngrad.
Í hundraðatali.
Eftir að Þjóðverjum mistókst að ná Moskvu og Leníngrad í fyrstu umferð Barbossa haustið 1941 snerist sóknaráætlun Þjóðverja fyrir sumarið 1942 um tvennt. Annars vegar að sækja suður til hinna auðugu olíulinda við Bakú og hins vegar að stöðva skriðdrekaframleiðslu Stalíngrad og rústa hinu mikilvæga samgöngukerfi sem borgin var miðpunktur í.
Olíulindirnar voru Þjóðverjum í raun lífsnauðsyn ef þeir ætluðu að halda stríðsrekstrinum áfram en Hitler réði því sjálfur að áherslan í sókninni færðist æ meira yfir til Stalíngrad. Og ástæðan var auðvitað ekki síst sjálft nafn borgarinnar. Hitler leit svo á að ef „borg Stalíns“ félli yrði það slíkt áfall fyrir leiðtoga og þjóðir Sovétríkjanna að hálfur sigur væri unninn.
Stalín gerði sér auðvitað ekki síður en Hitler grein fyrir táknrænni merkingu borgarinnar. Hún skyldi því varin fram í rauðan dauðann. Stalín neitaði til dæmis að láta flytja burt íbúa borgarinnar þótt löngu væri ljóst síðsumars hvað í vændum væri. Íbúarnir skyldu lifa eða deyja fyrir móður Rússíá – og Stalín!
Skriðdrekar fóru beint af færibandinu í bardaga
Í lok ágúst 1942 réðist þýski herinn inn í borgina. Nú var meiru tjaldað til en á dögum Ewans Bruce. Alls tóku hátt í 1.000 þýskir skriðdrekar þátt í orrustunni um Stalíngrad. Sovésku T-34 skriðdrekarnir keyrðu ómálaðir beint af færibandinu út í grimmilegan bardagann svo lengi sem kostur var að halda verksmiðjunni gangandi. Það var barist hús úr húsi og báðir aðilar fórnuðu mannslífum eins og að drekka vatn. Síðla í nóvember virtist sigur blasa við Þjóðverjum, þeir höfðu þá náð 90 prósentum borgarinnar þótt stórir hlutar hennar væru ekkert annað en rjúkandi rúst.
Þá sneri Georgi Zhukov, yfirherforingi Sovétríkjanna, við blaðinu. Sovéskir herir ruddust fram báðum megin við borgina og umkringdu 270.000 manna lið Þjóðverja og bandamanna þeirra. Þá var kraftur þýska hersins alveg þorrinn og hann megnaði ekki að rjúfa umsátrið, auk þess sem Hitler bannaði allar tilraunir til flótta frá Stalíngrad.
Borginni skyldi haldið, hvað sem það kostaði. Og þegar ljóst var orðið um áramótin að leifar þýska hersins í Stalíngrad voru dauðadæmdar skrifuðu óbreyttir hermenn til ástvina sinna í Þýskalandi að þeir væru stoltir af því að fá að fórna lífi sínu fyrir foringjann.
„Hvarflar ekki að mér að skjóta mig fyrir hann“
Í tvo mánuði vörðust þeir innilokaðir. Stöðugar árásir Rauða hersins, frosthörkur, vaxandi hungur, lamandi þreyta, skotfæraskortur. Þeir hrundu niður eins og flugur. Þann 30. janúar 1943 héldu Þjóðverjar upp á 10 ára valdaafmæli Adolfs Hitlers en fagnaðarlæti voru lítil á yfirráðasvæði þýska hersins í Stalíngrad er sífellt minnkaði. Hitler útnefndi yfirhershöfðingja sinn í borgarrústunum marskálk, Friedrich Paulus.

Þýskur marskálkur hafði aldrei gefist upp fyrir óvinunum. Það var ljóst hver meiningin var – Paulus átti annaðhvort að fremja sjálfsmorð fremur en gefast upp eða berjast til síðasta manns.
Daginn eftir var Paulus handtekinn mótþróalaust af sovéskum hermönnum. Hann sagði við aðstoðarmann sinn: „Það hvarflar ekki að mér að skjóta mig fyrir þennan bæheimska liðþjálfa.“ Næstu daga gáfust 91.000 þýskir hermenn upp. Í síðasta skeyti Þjóðverja frá Stalíngrad var sleppt hinum hefðbundnu lokaorðum: „Heil Hitler.“ Í staðinn stóð „Lengi lifi Þýskaland!“
Af þýsku hermönnunum sem gáfust upp við Stalíngrad komust aðeins 6.000 lifandi heim til Þýskalands. Hinir dóu af vosbúð og illri meðferð í höndum Stalíns. Hversu margir féllu í allri orrustunni er erfitt að segja. Kannski milljón, kannski ein og hálf. Enn fleiri særðust. Og margir urðu upp frá því ónýtir menn.
En virkið hélt velli.
Nafni borgarinnar enn breytt
Árið 1961 var nafni borgarinnar breytt. Krústjof, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, hafði skorið upp herör gegn minningu Stalíns og þeirri persónudýrkun sem umlukti hann. Gamla nafnið Tsaritsyn þótti minna um of á tíma tsaranna af Romanov-ættinni svo Volgograd varð fyrir valinu.
Borgin við Volgu.
Þangað fara Íslendingar sem sagt í sumar að spila fótbolta. Megi þeim vel farnast en í guðanna bænum, íþróttafréttamenn! – ekki kalla leikinn við Nígeríu „orrustuna um Stalíngrad“. Allir þeir sem fórnuðu lífi sínu í þeim hryllilega slag eiga betra skilið en að örlögum þeirra sé jafnað við fótboltaleik.
Athugasemdir