Ásmundur Einar Daðason hefur verið skipaður félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í fyrra var greint frá því að verkamaður hefði verið hlunnfarinn á kúabúi föður Ásmundar þar sem Ásmundur og eiginkona hans, Sunna Birna Helgadóttir, áttu lögheimili. Sunna var stjórnarmaður og prókúruhafi Þverholtabúsins ehf. sem hélt utan um rekstur kúabúsins þegar brotin áttu sér stað.
Að því er fram kom í frétt DV þann 12. ágúst 2016 þurfti íslenskur verkamaður sem sinnti bústörfum á stórbýlinu Þverholtum á Mýrum í Borgarbyggð að leita til Stéttarfélags Vesturlands til að fá greidd lágmarkslaun. Í ljós kom að vinnuveitandi mannsins hafði ekki greitt honum dagvinnulaun í samræmi við kjarasamning allt árið 2015. „Hluti af því sem stráknum var greitt í hverjum mánuði voru dagpeningar til að lyfta laununum upp. Það eru skattsvik. Það er ekki greidd staðgreiðsla af dagpeningum eða greitt orlof eða í lífeyrissjóð. En dagpeningarnir komu honum heldur ekki yfir lágmarkslaunin,“ sagði Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands, í viðtali við DV þegar fjallað var um málið.
Sem kunnugt er fer félagsmálaráðherra með málefni sem varða réttindi og skyldur á vinnumarkaði og aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ásmundur Einar mun fara með yfirstjórnunar- og stefnumótunarhlutverk á þessum sviðum í nýrri ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisfokksins og Framsóknarflokksins.
Athugasemdir